Vísindalegur harmleikur

Fulltrúar japönsku geimvísindastofnunarinnar JAXA útskýra hvernig Hitomi glataðist.
Fulltrúar japönsku geimvísindastofnunarinnar JAXA útskýra hvernig Hitomi glataðist. AFP

Japanski röntgengeimsjónaukinn Hitomi sem skotið var á loft um miðjan febrúar er glataður. Geimvísindastofnun landsins tilkynnti þetta í gær en svo virðist sem að mannleg mistök hafi að hluta til verið um að kenna. Sjónaukinn náði aðeins að gera eina athugun áður en hann glataðist.

Hitomi var skotið á loft 17. febrúar en aðeins fimm vikum síðar varð hann stjórnlaus þegar hann náði ekki að átta sig hvernig hann sneri í geimnum. Japanska geimvísindastofnunin JAXA tilkynnti í gær að geimsjónaukinn hefði glatast eftir að í það minnsta tíu hlutar, þar á meðal báðir spaðarnir með sólarrafhlöðum sem áttu að knýja hann, brotnuðu af honum. Sjónaukinn kostaði 286 milljónir dollara í smíðum og höfðu vísindamenn lagt ár og áratugi í þróun hans.

„Þetta er vísindalegur harmleikur,“ hefur tímaritið Nature eftir Richard Mushotzky, stjörnufræðingi við Maryland-háskóla. 

Gaf í þegar hann átti að bremsa

Upphaflega vandamálið um borð í sjónaukanum má rekja til búnaðar sem notar stjörnurnar til þess að halda honum á réttum kili í geimnum. Galli kom upp í búnaðinum í hvert skipti sem sjónaukinn sveif yfir austurströnd Suður-Ameríku þar sem hann varð fyrir óvenjumikilli geislun.

Þessi galli hratt af stöð röð annarra vandamála. Þegar sjónaukinn var að snúa sér til að fylgjast með Markarian 205-vetrarbrautinni notaði hann aðra aðferð til að átta sig. Snúðarnir sem áttu að segja honum hvernig hann sneri gáfu hins vegar rangar upplýsingar og sögðu hann snúast um 20 gráður á klukkustund. Jafnvægishjól byrjuðu þá að snúast til að vega upp á móti þessum meinta snúningi. Búnaður sem átti að takmarka snúning hjólanna virkaði ekki vegna þess að sjónaukinn áttaði sig ekki í geimnum og snerist hann því hraðar og hraðar.

Geimfarið fór þá sjálfkrafa í öryggisham og virkjaði þrýstihreyfla til að stöðva snúninginn. Vegna þess að röng skipun hafði verið gefin til hans olli ræsing hreyflanna því að sjónaukinn jók enn ferðina í stað þess að hægja á henni. Svo virðist sem að skipunin hafi verið gefin sjónaukanum nokkrum vikum áður án þess að hún hafi verið prófuð fyllilega áður. JAXA segist vera að rannsaka hvað gerðist.

Allt þetta gerðist á meðan sjónaukinn var hinum megin við jörðina miðað við Japan og voru leiðangursstjórarnir því sambandslausir við hann á meðan.

Vonuðust eftir tíu ára leiðangri

Röntgensjónaukinn náði aðeins að gera eina mikilvæga athugun áður örlögin gripu í taumana, að fylgjast með hreyfingum gass í vetrarbrautarþyrpingu í stjörnumerkinu Perseifi. Mælitækið sem gerði þá athugun, háskerpulitrófsgreinir, hafði verið í þróun í þrjá áratugi en fyrri tvær útgáfur þess höfðu farist í fyrri óhöppum, að því er kemur fram í frétt Nature.

Athugunin getur haft þýðingu fyrir rannsóknir á svonefndri hulduorku og gæti hún leitt til nokkurra vísindagreina. Það verður hins vegar það eina sem Hitomi skilur eftir sig.

„Við höfðum þrjá daga. Við vorum að vonast eftir tíu árum,“ segir Mushotzky.

Frétt Nature af örlögum Hitomi-röntgengeimsjónaukans

Fyrri frétt mbl.is: Augasteinn skimar eftir röntgengeislum

Hitomi-röntgengeimsjónaukinn sem skotið var á loft 17. febrúar en er …
Hitomi-röntgengeimsjónaukinn sem skotið var á loft 17. febrúar en er nú glataður. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert