Deildar meiningar um „kuldapollinn“

Kenningar hafa verið um að bráðnun Grænlandsjökuls hafi valdið hnignun …
Kenningar hafa verið um að bráðnun Grænlandsjökuls hafi valdið hnignun hringrásar í hafinu sem færir hlýrri sjó sunnar úr Atlantshafinu norður á bóginn. mynd/NordForsk

Rannsóknir hollenskra vísindamanna benda til þess að kuldapollur í hafinu sunnan við Ísland og Grænland sé ekki tilkominn vegna þess að hægt hafi á hringrás í því heldur vegna náttúrulegrar sveiflu. Tveir þekktir loftslagsfræðingar segja rannsóknirnar hins vegar ekki duga til að skera úr um það.

Kuldapollurinn svonefndi í Atlantshafinu hefur valdið vísindamönnum heilabrotum en þar hafa kuldamet jafnvel verið sett á sama tíma og aðrir hlutar jarðar ganga í gegnum fordæmalausa hlýnun af völdum loftslagsbreytinga. Sumir þeirra óttast að kuldinn sé vísbending um að hringrás í Atlantshafinu sem flytur hlýrri sjó norður á bóginn sé að hægja á sér.

Kenningin er sú að ferskvatn sem fossast niður af bráðnandi Grænlandsjökli og út í hafið valdi slíkum breytingum. Kalt ferskvatnið trufli varmaflutninga hringsrásarinnar þannig að minna af hlýjum sjó berist norður í haf.

Frétt mbl.is: Veðurfarsöfgar vekja spurningar

Hollensku vísindamennirnir hella hins vegar köldu vatni yfir þessar hugmyndir í grein sem birtist í ritinu Geophysical Research Letters. Þeir segjast hafa fundið sérstaklega mikinn varmaburð á milli djúpsjávar og efri laga hans veturinn 2014-2015 en það er það sem knýr hringrásina sem nefnd hefur verið veltihringrás Atlantshafins eða AMOC (e. Atlantic meridional overturning circulation).

Frekar en að hringrásinni sé að hnigna segja Hollendingarnir að staðbundið veður og vindar þennan vetur hafi valdið kuldanum, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post

„Staðbundin kæling af völdum andrúmsloftsins getur breytt hitastiginu mun hraðar en breytingar á hitaflutningi hafsins (sem er mun silalegri) geta gert,“ segir Femke de Jong frá Konunglegu hafrannsóknastofnun Hollands.

Frétt mbl.is: Kuldinn við Ísland „kirsuberjatínsla“

Loftslagsfræðingarnir Michael Mann frá Penn State-háskóla og Stefan Rahmstorf frá Potsdam-lofslagsrannsóknastofnuninni rituðu grein þar sem þeir leiddu líkur að því að kuldapollurinn væri mögulega tilkominn vegna hnignunar hringrásarinnar í Atlantshafi undanfarna áratugi.

Rahmstorf segir við Washington Post að hollensku vísindamennirnir séu að skoða breytileika til skamms tíma á meðan þeir Mann hafi rannsakað þróun í loftslaginu. Þættirnir sem knýja hvort um sig áfram séu afar frábrugðnir. Ekki sé endilega nóg að mæla varmaburðinn í hafinu á einum stað eins og hollensku vísindamennirnir gerðu til að skera úr um hvað sé að gerast með hringrásina.

Umfjöllun Washington Post um rannsóknina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert