Veðurfarsöfgar vekja spurningar

AFP

Þrátt fyrir að átta fyrstu mánuðir ársins hafi verið þeir hlýjustu á láði og legi í heiminum frá því mælingar hófust þá hefur Atlantshafið suður af Íslandi og Grænlandi verið óvenju kalt á sama tíma. Hvað er það sem veldur? er spurning sem velt er upp á vef Washington Post.

Sjórinn hér við land og Grænland hefur sjaldan eða aldrei verið jafn kaldur á þessum árstíma og þarf að fara áttatíu ár aftur í tímann til þess að finna viðlíka kulda. Engin ástæða sé til að draga þessa niðurstöðu í efa því mjög vel sé fylgst með hitastigi sjávar á þessum slóðum. En hvers vegna er hitinn svo ólíkur því sem gerist annars staðar í heiminum?

Ekki liggja neinar vísindalegar staðreyndir þar um en ýmsir vísindamenn telja að þetta sýni að ótti þeirra eigi við rök að styðjast, það er að hægja á hringrás Atlantshafsins. Einn af fylgifiskum loftlagsbreytinga á jörðinni.

Í mars birtu nokkrir af helstu vísindamanna heims á sviði loftlagsbreytinga grein í Nature Climate Change þar sem fram kom að straumur sem nefnist Atlantic Meridional Overturning Circulation, (AMOC) á ensku, sem er ekki hinn hefðbundni golfstraumur heldur suðurkvísl hans, er að veikjast vegna áhrifa hlýnunar jarðar á golfstrauminn.

Ef fram fer sem horfir þá er ekki endilega víst að það verði viðvarandi kuldi á þessum slóðum en ef jöklar á Grænlandi halda áfram að bráðna, sem þýðir að aukið magn af ferskvatni fer á haf út, þá getur þessi þróun haldið áfram. Kaldur sjór á þessum slóðum er ekki nýr af nálinni en þessi þróun hefur átt sér stað um tíma. 

Áhrifin verða kannski ekki jafn mikil og sýnd voru í kvikmyndinni The Day After Tomorrow frá árinu 2004 en í myndinni er reynt að útskýra fyrir almenningu hvað felist í hugtakinu loftslagsbreytingar. Aðalsöguhetjan í myndinni er sérfræðingur í loftslagssögu (paleo-climatology). Hann er ekki veðurfræðingur heldur loftslagsfræðingur sem reiknar út með flóknum ofurtölvum og GCM-líkönum að loftslag jarðarinnar muni breyta um jafnvægisástand á einungis örfáum vikum. Meðan á því stendur gengur stór og djúpur stormur yfir allt norðurhvel jarðar, að því er segir í grein sem birtist í Morgunblaðinu árið 2004.

En áhrifin verða samt sýnileg, til að mynda ef yfirborð sjávar heldur áfram að hækka við Austurströnd Bandaríkjanna og mögulega breytingar á hitastigi í allri Norður-Ameríku og Evrópu. Greinarhöfundur í Washington Post mælir með því við lesendur að þeir fylgist grannt með Norður-Atlantshafinu og fréttum af hitastigi þar.

Hér er hægt að lesa greinina í heild

AFP
AFP
AFP
Frá Svalbarða
Frá Svalbarða AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert