Beiðnum fjölgar um gögn notenda Google

Höfuðstöðvar Google.
Höfuðstöðvar Google.

Beiðnir ríkisstjórna um gögn notenda frá Google náðu metfjölda á síðari helmingi ársins 2015. Þetta segir í tilkynningu frá vefrisanum, þar sem fram kemur að ríkisstjórnir um allan heim hafi gert 40.677 beiðnir um gögn tengd rúmlega 81.000 reikningum hjá fyrirtækinu, frá júlí og til ársloka.

„Notkun þjónustu á okkar vegum eykst með hverju árinu og sömuleiðis hefur beiðnum um gögn notenda fjölgað,“ segir í tilkynningunni. Google segist hafa afhent gögn eða hluta gagna í 64% tilfellanna.

Bandaríkin bera ábyrgð á stærsta hlutanum, eða samtals 12.523 beiðnum. Þar á eftir fylgja Þýskaland með 7.491, Frakkland með 4.174 og Bretland með 3.497.

Eins og önnur stór netfyrirtæki hefur Google lagt áherslu á að það afhendi aðeins gögn samkvæmt lögum þeirra landa sem það starfar í, á sama tíma og það leggi sig fram við að tryggja friðhelgi einkalífs notenda sinna.

„Google er stolt af því að hafa tekið forystuna í birtingu þessara skýrslna og þannig reynt að varpa ljósi á þau lög sem gilda um eftirlit ríkisstjórna með borgurum og hvernig notast er við þau um allan heim,“ segir yfirlögfræðingur Google, Richard Salgado.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert