Vísindarit varar við Donald Trump

Donald Trump hefur tekið harða afstöðu gegn loftslagsvísindum, vill leggja …
Donald Trump hefur tekið harða afstöðu gegn loftslagsvísindum, vill leggja niður umhverfisstofnun Bandaríkjanna og talað um löngu hrakin tengsl bóluefna og einhverfu. AFP

Ritstjórar vísindatímaritsins Scientific American hafa tekið það óvenjulega skref að vara sérstaklega við virðingarleysi Donalds Trump fyrir vísindum. Margir stjórnmálamenn séu andsnúnir vísindum en núverandi kosningabarátta hafi tekið andvísindahyggju á nýjar og áður óþekktar slóðir.

Í leiðara tímaritsins sem á að birtast 1. september segir að staðreyndir hafi misst verðgildi sitt í bandarískum stjórnmálum undanfarna áratugi. Margir vísindamenn úr báðum flokkum séu andsnúnir vísindum sem hafi fengið nægt vægi í umræðum um málefni eins og merkingar á erfðabreyttum matvælum, líknandi meðferðir og orkustefnu svo eitthvað sé nefnt.

„Núverandi kosningabarátta um embætti forseta er hins vegar einstök. Hún fer með andvísindahyggju á áður óþekktar slóðir,“ segir í leiðaranum. Í undirfyrirsögn hans segir að kosningabaráttan sýni hversu mikið stjórnmálaumræða í landinu hafi úrkynjast frá gildunum sem Bandaríkin voru stofnuð á, sannleikanum og gögnum.

Lýsa ekki stuðningi við frambjóðanda, en standa með vísindunum

Nú beri svo við að frambjóðandi annars af stóru stjórnmálaflokkunum til æðsta embættis þjóðarinnar hafi ítrekað og með afgerandi hætti sýnt af sér skeytingarleysi, ef ekki algera fyrirlitningu, gagnvart vísindum. Trump hafi jafnframt haft einræðislega tilhneigingu til þess að byggja stefnumótunarákvarðanir á vafasöfum fullyrðingum og persónudýrkun.

Sérstaklega benda ritstjórarnir á að Trump hafi fullyrt að loftslagsbreytingar séu kínverskt samsæri, hótað að eyðileggja Parísarsamkomulagið sem hafi tekið tuttugu ár að ná og að leggja niður umhverfisstofnun Bandaríkjanna. Þá hafi hann talað af ástríðu um tengsl á milli bóluefna og einhverfu sem hafi verið algerlega hrakin fyrir mörgum árum.

„Scientific American leggur ekki í vana sinn að lýsa yfir stuðningi við pólitíska frambjóðendur. Við stöndum hins vegar með vísindum, áreiðanlegustu leiðinni að hlutlægri þekkingu sem heimurinn hefur þekkt og gildum upplýsingarinnar sem komu þeim af stað,“ segja ritstjórarnir sem skora á pólitíska leiðtoga Bandaríkjanna til að sýna virðingu fyrir vísindalegum sannleik í orðum sem og æði.

Scientific American hefur verið gefið út í 170 ár en það kom fyrst út árið 1845. Fjöldi virtra vísindamanna hafa ritað greinar í tímaritið í gegnum tíðina, þar á meðal Albert Einstein.

Leiðari Scientific American um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert