Ágúst jafnar mánaðargamalt hitamet

Uppþornaður bakki Yangtze-árinnar í Kína þar sem hitaviðvaranir voru gefnar …
Uppþornaður bakki Yangtze-árinnar í Kína þar sem hitaviðvaranir voru gefnar út tólf daga í röð frá miðjum ágúst. AFP

Meðalhiti jarðar í ágúst var ekki aðeins sá mesti í þeim mánuði frá því að mælingar hófust heldur jafnaði hann júlímánuð sem hlýjasti mánuður mælingasögunnar samkvæmt tölum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Tölurnar koma nokkuð á óvart því vísindamenn töldu að toppi hefði verið náð í júlí í bili.

Ágúst var 0,98°C hlýrri en meðaltal ágústmánaða árin 1951-1980. Þetta er því ellefti mánuðurinn í röð sem setur met yfir hlýindi samkvæmt tölum Goddard-geimrannsóknastöðvar NASA (GISS). Ef litið er til mælinga bandarísku haf- og loftslagsstofnunarinnar (NOAA) hafa fimmtán síðustu mánuðir allir sett met fyrir sinn mánuð ársins, að því er segir í frétt á vefnum Climate Central.

Frétt mbl.is: Ekki hlýrra frá því að mælingar hófust

Síðari hluti síðasta árs og fyrri hluti þessa árs einkenndust af veðurfyrirbrigðinu El niño sem jók á þá hlýnun sem á sér stað á jörðinni af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. El niño hefur hins vegar fjarað út og því töldu vísindamenn að júlí yrði síðasti mánuðurinn í bili sem setti hitamet enda nær meðalhiti jarðar yfirleitt hámarki sínu í þeim mánuði.

Línurit sem sýnir þróun meðalhita jarðar frá árinu 1880. Síðustu …
Línurit sem sýnir þróun meðalhita jarðar frá árinu 1880. Síðustu tveir mánuðir skera sig sérstaklega út. graf/NASA

Frávik hitastigs í ágúst var hins vegar svo mikið, enn meira en í júlí, að mánuðurinn jafnaði metið yfir heitasta mánuðinn sem var sett í júlí. Stefnir því allt í að árið 2016 verði það hlýjasta frá því að mælingar hófust.

Gavin Schmidt, forstöðumaður GISS, leggur hins vegar áherslu á að það sé langtímaþróun meðalhita jarðar sem skipti máli frekar en breytingar á milli einstakra mánaða.

„Röðun mánaða sem er aðeins breytileg upp á nokkra hundraðshluta úr gráðu er í eðli sínu viðkvæm. Við leggjum áherslu á að langtímaþróunin er mikilvægust til þess að skilja þær breytingar sem hafa áhrif á plánetuna okkar,“ segir Schmidt í yfirlýsingu vegna talnanna sem voru birtar í gær.

Frétt Climate Central

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert