Hlaut ofsafengin endalok á Mars

Dökki bletturinn á mynd MRO er að líkindum þar sem …
Dökki bletturinn á mynd MRO er að líkindum þar sem Schiaparelli brotlenti en sá hvít fallhlífin sem sleppti geimfarinu of snemma. ljósmynd/NASA/JPL-Caltech/MSSS

Myndir bandaríska brautarfarsins Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) virðast staðfesta að evrópska lendingarfarið Schiaparelli hafi rekist á yfirborð Mars á meira en 300 kílómetra hraða á klukkustund og jafnvel sprungið. Schiaparelli átti að lenda mjúklega á miðvikudag til að undirbúa seinni hluta ExoMars-leiðangursins.

Fjarskipti á milli Schiaparelli og stjórnstöðvarinnar á jörðinni rofnuðu þegar aðeins mínúta var í að geimfarið ætti að lenda á Mars á miðvikudag eftir sjö mánaða ferðalag. Evrópska geimstofnunin (ESA) hefur enn ekki staðfest orsökina en flest bendir til þess að fallhlíf sem átti að hægja á lendingarfarinu hafi sleppt því of snemma og stýriflaugar sem áttu að taka við hafi ekki brunnið nógu lengi.

Frétt Mbl.is: Misheppnuð lending á Mars

MRO tók myndir af fyrirhuguðum lendingarstað Schiaparelli á fimmtudag og sýndu þær merki á yfirborðinu sem eru að öllum líkindum eftir söggleg endalok evrópska geimfarsins. Á þeim sést bjart fyrirbæri á stærð við tólf metra breiða fallhlífina og dökkur blettur sem varð líklega til við brotlendinguna, að því er kom fram í frétt á vef ESA á föstudag.

Áætlað er að Schiaparelli hafi hrapað úr tveggja til fjögurra kílómetra hæð og hafi því rekist á rykugt yfirborð Mars á yfir 300 km/klst.

„Það er einnig mögulegt að lendingarfarið hafi sprungið við áreksturinn, þar sem eldsneytistankar stýriflauganna voru að líkindum fullir,“ segir ESA.

Verkfræðingar og vísindamenn ESA fara nú yfir gögn sem Schiaparelli sendi móðurfari sínu Trace Gas Orbiter sem komst klakklaust á braut um Mars á miðvikudag.

Schiaparelli átti aðeins að endast örfáa daga á yfirborði Mars og gera takmarkaðar vísindaathuganir. Megintilgangur farsins var að prófa tækni sem á að nota til að lenda könnunarjeppa sem á að leita að lífi á Mars árið 2021. 

Merki um brotlendingu Schiparelli sáust á þessum myndum Mars Reconnaissance …
Merki um brotlendingu Schiparelli sáust á þessum myndum Mars Reconnaissance Orbiter. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert