Kjör Trump gæti valdið Twitter vandræðum

Notendur geta nú valið að fá ekki tilkynningar um tíst …
Notendur geta nú valið að fá ekki tilkynningar um tíst sem innihalda ákveðin orð eða frasa. AFP

Frá og með deginum í dag geta Twitter-notendur dregið sig út úr samtölum á samskiptasíðunni og valið að fá ekki tilkynningar um tíst sem innhalda ákveðin orð eða frasa.

Nýjungin mun bæði gagnast þeim sem vilja nota Twitter án þess að verða varir þess ósóma sem stundum birtist þar, en einnig þeim sem vilja t.d. ekki fá tilkynningar um úrslit kappleiks sem þeir eiga eftir að horfa á.

Notendur hafa lengi kallað eftir þessum valmöguleikum en þess ber að geta að þeir ná engöngu til tilkynninga, ekki tímalína notenda.

Breytingarnar eru m.a. þáttur í viðleitni Twitter til að bregðast við ásökunum þess efnis að samskiptamiðillinn geri ekki nóg til að bregðast við áreitni. Samhliða þeim hefur fyrirtækið bætt þá möguleika sem notendur hafa til að tilkynna hatursorðræðu og þá segist það hafa bætt eigin tól og úrræði til að takast á við slíkar tilkynningar.

Að sögn fyrirtækisins hefur misnotkun, einelti og áreitni aukist á netinu á síðastliðnum árum. „Þessi hegðun fælir fólk frá því að taka þátt á Twitter, eða nokkurs staðar,“ sagði m.a. í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Leikkonan Leslie Jones varð fyrir svívirðilegu áreiti á samskiptamiðlum, m.a. …
Leikkonan Leslie Jones varð fyrir svívirðilegu áreiti á samskiptamiðlum, m.a. af hendi eins af ritstjórum Breitbart. AFP

Úrslit forsetakosninganna vestanhafs kunna að skapa ný vandamál fyrir Twitter vegna misnotkunar öfgamanna á miðlinum. Donald Trump hefur tilkynnt að Steve Bannon, stjórnarformaður fréttavefsíðunnar Breitbart, verði meðal hans helstu ráðgjafa í Hvíta húsinu en í júlí sl. eyddi Twitter aðgangi eins ritstjóra Breitbart vegna hatursáróðurs hans í garð leikkonunnar Leslie Jones.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert