Stallman með fyrirlestur hér á landi

Rich­ard Stallm­an.
Rich­ard Stallm­an. Ljósmynd/Facebook

Banda­ríski eðlis­fræðing­ur­inn Rich­ard Stallm­an held­ur fyrirlestur hér á landi á mánudag um netöryggi og friðhelgi einkalífsins (e. Free Software: For your Freedom and Privacy). Fyrirlesturinn fer fram í stofu M101 í Háskólanum í Reykjavík og er aðgangur ókeypis.

„Hann ætlar að halda fyrirlestur um netöryggi og friðhelgi einkalífsins og breytta stöðu þess í síbreytilegum heimi,“ segir Eyþór Máni Steinarsson, skipuleggjandi fyrirlestrarins, í samtali við mbl.is.

Stallman hefur verið einn helsti baráttumaður heimsins í stafrænu frelsi. Hann hef­ur unnið brautryðjenda­störf á sviði hug­búnaðar og hug­mynd­ir hans um frjáls­an hug­búnað og frelsi ein­stak­lings­ins eru grund­völl­ur svo­nefnds Free/​Open-Source hug­búnaðar.

Eyþór segir að Stallman sé risi á sviði netöryggismála. „Hann er maðurinn sem ber eiginlega ábyrgð á því að frjáls hugbúnaður er enn eitthvert dæmi í dag. Hann er 64 ára gamall og er búinn að vera í bransanum endalaust og er lykilleikmaður í netfrelsismálum.

Stallm­an skrifaði fyrsta svo­nefnda GPL leyfið og skrifaði einnig marg­ar af fyrstu út­gáf­um svo­nefnds GNU hug­búnaðar. Dæmi um hug­búnað sem er gef­inn út und­ir GPL leyf­inu er Lin­ux kjarn­inn og stærst­ur hluti þess hug­búnaðar, sem keyr­ir und­ir GNU/​Lin­ux stýri­kerf­inu.

Síðar stofnaði hann „the Free Software Foundation" sem síðan þá hefur staðið vörð um frelsi og friðhelgi einstaklinga í hinum stafræna heimi. Í dag nota milljónir einstaklinga og þúsundir fyrirtækja og stofnana allskonar útfærslur af GNU stýrikerfinu.

Stallman mun á fyrirlestrinum fjalla um markmið og hugmyndafræði hugbúnaðarfrelsishreyfingarinnar (e. the Free Software Movement), núverandi ástand og sögu GNU stýrikerfisins. Einnig mun hann tala um hættuna sem steðjar að friðhelgi einkalífsins vegna þróunar stafrænnar tækni og hvað við getum gert til þess að koma okkur á rétta braut, eins og segir í kynningu viðburðarins á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert