Twitter skiptir bláa fuglinum út fyrir jarm-hund

Elon Musk, eigandi Twitter, tilkynnti í gær um breytinguna með …
Elon Musk, eigandi Twitter, tilkynnti í gær um breytinguna með tveimur tístum, en frekari upplýsingar hafa ekki verið veittar um ástæðuna. Hafa notendur jafnvel spurt sig hvort um sé að ræða seint aprílgabb. Samsett mynd

Samskiptafyrirtækið Twitter skipti í gær út þekkta bláa fuglinum sem hefur verið einkennismerki fyrirtækisins, en í staðinn kom mynd af hundi sem þekkt hefur verið sem einkennismerki rafmyntarinnar Dogecoin og verið innblástur fjölda jarma (e. memes). Elon Musk, eigandi Twitter, greindi frá breytingunni á sinn eigin hátt í tveimur tístum á miðlinum.



Musk hefur lengi haft tengingu við Dogecoin og ítrekað vísað til þess eða hampað rafmyntinni. Ákvörðun fyrirtækisins í gær að breyta um einkennismerki kemur þó á nokkuð áhugaverðum tíma, því aðeins tveimur dögum áður fór Musk fram á það við dómara að vísa frá 258 milljarða dala málaferlum sem fjárfestar í rafmyntinni höfðuðu gegn honum þar sem þeir telja Musk hafa aðstoðað við pýramídastarfsemi.

Ekki er enn ljóst hvort breytingin sé varanleg eða ekki, en Twitter hefur fyrir utan tísk Musk ekki tjáð sig um þau. Hafa margir notendur Twitter velt því fyrir sér hvort um sé að ræða aprílgabb sem ekki hafi tekist að koma út í tæka tíð.

Gengi Dogecoin hækkaði um rúmlega 30% í gær eftir að fyrstu fréttir bárust um breytinguna hjá Twitter. Hefur gengið lækkað aðeins síðast, en er enn um 27% yfir genginu fyrir breytinguna.

Rafmyntin var upphaflega komið á fót árið 2013 sem grín og notaðist við myndina frægu sem er af hundi af tegundinni shiba inu, en myndin hafði árin áður verið vinsæl uppspretta ýmissa jarma þar sem leturgerðin Comic sans var alla jafna ráðandi auk þess sem enskan sem notuð var var sjaldnast upp á marga fiska.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert