Segir ríkisstjórn á brauðfótum

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni var ánægjuleg, þátttakan góð og skilaboðin skýr. Þjóðin sagði nei við máli sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, í umræðum á þingi fyrr í dag. 

Hann sagði ríkisstjórnina ekki hafa haft í sér afl til þess að standast þvinganir erlendra þjóða. Hann minnti á að forystumenn ríkisstjórnar vildu og ætluðu að bera ábyrgð á Icesave-lögunum eins og oftsinnis hefði fram komið í ræðustól á Alþingi.

Bjarni sagði ríkisstjórnina hafa misst allt traust almennings og atvinnulífsins og því standi hún nú á brauðfótum. Sagðist hann ekki öfunda neina þá ríkisstjórn sem fengi falleinkunn upp á 93% líkt og í þjóðaratkvæðagreiðslu helgarinnar.

„Framtíðarlíf ríkisstjórnarinnar hlýtur að velta á því trausti sem þjóðin ber til hennar,“ sagði Bjarni og tók fram að hann væri reiðubúinn að axla ábyrgð og lagði mikla áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn væri til í þingkosningar hvenær sem væri. Bjarni vísaði því að bug að stjórnarandstæðan hefði brugðist í lausn málsins.


mbl.is

Bloggað um fréttina