1. mars 2005 | Aðsend grein á mbl.is | 4217 orð

Og tónlistin tapar

Guðmundur Hafsteinsson fjallar um málefni Tónlistarskólans í Reykjavík: "Langbesti kosturinn í stöðunni er að láta TR ganga inn í LHÍ og þar verði höfuðstaður framhalds- og háskólanáms í tónlist í landinu."
ÞEGAR þau miklu tíðindi gerðust í íslensku tónlistarlífi að tónlistardeild Listaháskóla Íslands var stofnuð árið 2001 voru margir sem verið höfðu einlægir áhugamenn um framgang tónlistarkennslu á Íslandi - og sumir til áratuga hinir einu frumkvöðlar að stofnun formlegs tónlistarháskóla - vonsviknir, slegnir og uggandi. Tónlistarskólinn í Reykjavík (TR), einn hinna þriggja listaskóla sem lögðu grunninn að Listaháskóla Íslands (LHÍ), var sniðgenginn. Leiklistarskóli Íslands og Myndlista- og handíðaskóli Íslands runnu inn í LHÍ, en TR var haldið utan við stofnunina og þeirri reynslu sem þar hafði safnast saman og framvindu náms sem vaxið hafði við íslenskar aðstæður var hafnað í veigamiklum atriðum. Menn voru vonsviknir að sjá ekki tekið utan um það nám sem byggt hafði verið hér upp, það borið áfram, styrkt og bætt; menn voru slegnir yfir þeirri óvirðingu sem var sýnd stofnun á virðulegum aldri sem átti stærstan hlut íslenskra stofnana í að reisa upp íslenskt tónlistarlíf; og menn voru uggandi yfir því að starfsemi sem var lífræn heild - námið í TR - skyldi slitin í sundur. Þessu fór fram þrátt fyrir mótmæli stéttarinnar og það án þess að þeir sem réðu ferðinni hefðu fyrir ákvörðunum sínum haldbær málefnaleg rök.

Áhyggjur manna voru ekki ástæðulausar. Tíminn hefur staðfest að forsendur tónlistardeildar LHÍ voru illa ígrundaðar og að ótvíræður afturkippur hefur orðið í klassískri tónlistarmenntun á háskólastigi eftir að hún var flutt úr TR í LHÍ. Einnig er það tónlistarumhverfi sem menntunin býr við í LHÍ mun fábrotnara, fámennara og þróttminna en það var í TR áður en niðurbrot þeirrar stofnunar hófst.

Tónlistarskólinn í Reykjavík - framhalds- og háskóli

Tónlistarskólinn í Reykjavík var framhalds- og háskóli í einni stofnun. Hann greindist í: a) framhaldsskóla; b) þrjár háskóladeildir í beinu framhaldi af framhaldsskólanum, en þær voru: Hljóðfærakennara-/söngkennaradeild, hljóðfæraleikara-/söngvaradeild og tónfræðadeild; c) tónmenntakennaradeild. Hún hafði nokkra sérstöðu þar eð hún var alfarið kostuð af ríkinu og inntökuskilyrði í hana voru lítið eitt önnur en í hinar háskóladeildirnar.

Í skólanum voru nokkuð á þriðja hundrað nemendur, þar af að jafnaði rúmt hundrað í háskólanámi. Þorri þeirra nemenda sem voru í háskólanámi lauk kennaraprófi í hljóðfæraleik, söng eða tónmennt. Allnokkrir sérhæfðu sig í hljóðfæraleik og söng og luku svokölluðu einleikara-, einsöngvara- eða burtfararprófi. Voru þeir sá hluti nemenda sem mest bar á og mestur ljómi stafaði af, ekki hin breiða fylking í háskólanum, heldur efnilegustu og færustu flytjendurnir. Þá þreytti allnokkur hluti nemenda síðastnefnd próf til viðbótar kennaraprófum. Skólinn útskrifaði 297 með einleikara-, einsöngvara- eða burtfararpróf og 251 með tónlistarkennarapróf.

Tónfræðadeild veitti sérmenntun á sviði greina er tengjast skilningi og tökum á innviðum tónlistar, svo sem hljómfræði, kontrapunkti, formfræði, hljóðfærafræði, raf- og tölvutónlist, tónheyrn, tónbókmenntum og hljómsveitarstjórn. Þangað sóttu menntun sína einkum þeir sem hugðust leggja fyrir sig tónsmíðar. Langflestir sem komið hafa fram á sviði tónsköpunar undanfarin 15-20 ár hafa dvalið lengri eða skemmri tíma í tónfræðadeildinni, og bróðurparturinn lauk þaðan prófi. Úr tónfræðadeild útskrifuðust 48.

Tónmenntakennaradeild skólans menntaði tónlistarkennara fyrir grunnskóla landsins, tónmenntakennara. Á rúmlega fjörutíu ára ferli sínum skilaði hún miklu framlagi til íslensks tónlistarlífs. Hafa tónmenntakennarar auk tónlistarkennslu í grunnskólum stundað kennslu í tónlistarskólum og iðkað önnur tónlistarstörf með miklum sóma. TR útskrifaði 208 tónmenntakennara.

Þetta var háskólahluti TR. Í honum var tölulega u.þ.b. helmingur nemenda skólans en umfang háskólastarfseminnar var langt umfram helmingur af starfi skólans, svo fyrirferðarmikið er háskólanám í eðli sínu. Í háskólanum var kennt á átján hljóðfæri auk söngs og tónsmíða. Þessu fylgdu 36 heilsársnámskeið í hinum ýmsu fögum er tengjast tónlistarþjálfun og tónlistarskilningi að viðbættu öllu því er þótti vera nauðsynlegur undirbúningur fyrir tónlistarkennslu.

Framhaldsskólinn hafði að jafnaði rúmt hundrað nemenda. Þangað komu þeir að loknu 4. stigi í hljóðfæraleik eða 2. stigi í söng og lærðu auk sinnar sérgreinar almennar tónfræðigreinar svo sem tónheyrn, hljómfræði, tónlistarsögu og kontrapunkt. Nemendur luku framhaldsskólanum yfirleitt með 7. stigsprófi og tilskildum tónfræðigreinum og áttu þess þá kost að fara í háskólann.

Í skólanum var starfrækt hljómsveit af sinfónískri stærð, blandaður kór, tvær strengjasveitir, blásarasveit auk fjölda minni hljóðfæraflokka og er þá ótalin öll sú starfsemi þegar tveir leika saman.

Árlegir opinberir tónleikar á vegum skólans voru frá 25 og fóru upp í 49 þegar mest lét á síðasta áratug áður en skólinn var klofinn í sundur. Bar þar hæst lokapróf einleikara, en Tónlistarskólinn átti um langt skeið samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands um að einleikara- og einsöngvaraefnin lykju hluta af sínu prófi á opinberum tónleikum með henni. Tónleikar hljómsveitar skólans voru í það minnsta tvennir og kór, strengjasveitir og blásarasveit voru hver með eina eða tvenna tónleika. Þá var og fluttur á vegum skólans mikill fjöldi frumsaminna tónverka nemenda tónfræðadeildar. Auk alls þessa voru ótal tónleikar innan skóla ár hvert.

Tónlistarskólinn gekkst árlega fyrir gestanámskeiðum í hljóðfæraleik og söng og fyrirlestrum um tónfræðileg efni. Langoftast voru fengnir heimskunnir listamenn og kennarar sem leiðbeinendur við slík tækifæri.

TR á besta safn nótna, hljóðritana og bóka um tónlist og tónfræðileg efni sem finnst á Íslandi til almennra útlána og telur safnið um 20.000 titla. Það hefur nýst fyrir nemendur TR og annarra skóla en einnig hefur almenningur getað leitað til þess. Hefur það að mestu leyti orðið til fyrir örlæti velunnara skólans.

Tónlistarskólinn í Reykjavík var einn íslenskra tónlistarskóla aðili að Tónlistarháskólaráði Norðurlanda og Evrópusambandi tónlistarháskóla. Var námið í skólanum byggt upp með hliðsjón af þeirri reynslu sem þar var fyrir hendi. Má í þessu sambandi nefna það fyrirkomulag að hafa saman háskóla og framhaldsskóla, þ.e.a.s. aðfaranám háskólastigs með háskólastiginu. Á þessa skipan leggja margir erlendir háskólar mikla áherslu vegna þeirra miklu kosta sem fylgja sterku sambandi við neðri stigin þegar leggja á grunn að ævistarfi í tónlist. En þessi tilhögun er einkar mikilvæg fyrir hinar smávöxnu íslensku aðstæður, því að hér á landi getur tónlistarháskóli ekki í náinni framtíð orðið svo stór að hann geti haldið uppi starfsemi sem slíkri stofnun er nauðsynleg til að geta staðið undir nafni.

Þörf fyrir háskólamenntað fólk á sviði tónlistar hér á landi er brýnust hvað snertir tónlistarkennslu. Styrkur skipulags TR fólst í fyrsta lagi í því að gera menntun kennara hátt undir höfði og sameina öflugt kennaranám á háskólastigi í hljóðfæraleik, söng og tónmennt sérhæfðu háskólanámi í hljóðfæraleik og söng. Þannig myndaðist álitlegur hópur um háskólanámið allri starfseminni til góða, bekkjakennslu, samspili, samsöng og leik í hljómsveitum. Í öðru lagi fékk skólinn traust og nokkurn frið til að sameina að miklu leyti kvikasta hluta framhaldsstigsins, og þar með þann hluta sem stefnir að háskólanámi í tónlist með sömu góðu áhrifunum fyrir það, sterkari bekkjum ásamt meiri og betri tónlistariðkun í öllum greinum starfseminnar. Í þriðja lagi unnu þessi tvö námsstig saman þar sem tók til leiks í hinum ýmsu hljómsveitum, samleik og samsöng. Öll þessi starfsemi í heild skapar samfélag tónlistarskóla. Gæði skólans velta ekki síst á því að þetta samfélag geti mætt hinum ýmsu þörfum þjálfunarinnar og verður fjölbreytni þeim mun mikilvægari sem ofar kemur í námsstigann.

Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda einstaklinga sem sótt hafa sér tónlistarmenntun til TR frá því skólinn tók til starfa árið 1930. Tölur um árlegan fjölda nemenda gefa þó ástæðu til að ætla að það sé á bilinu sex til átta þúsund persónur. Prófi úr háskóladeildum skólans luku 810. Er ekki neinum blöðum um það að fletta að við Tónlistarskólann hafa flestir af fremstu tónlistarmönnum landsins - kennarar, flytjendur og tónskáld - hlotið grunnmenntun sína og margir lokið sínu fyrsta háskólaprófi. Í þau 74 ár sem skólinn hefur starfað hafa kennarar hans jafnan lagt mikið af mörkum til uppbyggingar tónlistarlífs í landinu. Auk þess að stunda kennslu hafa þeir annast margvíslegan tónlistarflutning, samið tónverk og stuðlað að almenningsfræðslu í fjölmiðlum. Þessu til staðfestingar má nefna að 83% íslenskra hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru fyrrverandi nemendur TR og 80% félaga í Tónskáldafélagi Íslands sömuleiðis. Benda allar líkur til að síst minna hlutfall þeirra vel á sjötta hundrað Íslendinga sem nú stunda hér tónlistarkennslu séu fyrrverandi nemendur stofnunarinnar, svo sem tölur um þá er lokið hafa prófum úr háskóladeildunum bera með sér (um 700 manns hafa atvinnu af tónlistarkennslu á Íslandi; þar af eru um 18% af erlendum uppruna).

Námið í Tónlistarskólanum óx upp í samvinnu skólastjóra, deildastjóra og kennara og hafði skólinn ótvíræða forystu um umbætur á sínu sviði. Nutu aðrir góðs af sporum sem þar voru stigin til framfara. Var þess gætt að skólinn tæki í þjónustu sína vel menntaða tónlistarmenn sem komu heim að loknu námi erlendis. Þannig var tryggt að endurnýjun og úrbætur héldust í hendur við varðveislu og stöðugleika. Á þeim rúmu sjö áratugum sem skólinn á að baki fór Jón Nordal tónskáld með skólastjórn í 33 ár. Mótaðist starfsemin mjög undir viturri forystu hans. Horfði hann ávallt fram á veginn en tók mið af aðstæðum hverju sinni og stýrði svo að til gæfu mætti verða fyrir tónlistarþroska þjóðarinnar. Aldrei var hávaði eða auglýsingaglamur í kringum starfsemi skólans, því síður skrum eða sýndarveruleiki. Skólinn skilaði af látleysi sínu stóra dagsverki og má með sanni segja að hagur tónlistarinnar hafi verið hagur skólans.

Undan þessum giftusamlegu námsháttum þurfti helst að frelsa íslenska tónlistaræsku, þennan öx berandi akur að uppræta. En hvað hefur tekið við?

Fámenni tónlistardeildar

Í tónlistardeild Listaháskóla Íslands er einungis 61 nemandi á núverandi skólaári. Þetta fámenni er þrátt fyrir að opnaðar hafi verið nýjar námsbrautir, þrátt fyrir að nemendum hafi verið hleypt þar inn með spilakunnáttu sem telst á framhaldsstigi, þrátt fyrir að nemendur séu teknir inn með mun minni tónfræðikunnáttu en var á háskólastigið í TR og þrátt fyrir að einhverjir hafi verið teknir inn án nokkurrar slíkrar þekkingar. Þetta eru 50-60% af þeim fjölda sem var alla jafna í háskólanáminu í TR og svipaður fjöldi og var þar í kennaradeildunum einum sér.

Í LHÍ eru nú sjö í kennaranámi. Verði þetta fámenni í kennaranámi til frambúðar mun taka vel á þriðja hundrað ár að mennta sama fjölda tónlistarkennara og nú eru að störfum á Íslandi.

Sú útgáfa af kennaranámi sem LHÍ býður er í megindráttum rýrð útlegging af þeirri útgáfu sem var í TR. Kennaranemar fá ári skemur að æfa kennslu undir leiðsögn reyndra kennara en var í TR, kennslufræði hvers hljóðfæris er ári styttri og hin almenna kennslufræði er eins árs nám í stað tveggja og ekki sérsniðin að þörfum tónlistarkennara. Skilningsleysi á mikilvægi kennaramenntunar og hringlandaháttur í viðtöku hennar hefur einkennt störf tónlistardeildar LHÍ. Er það hin líklegasta skýring á dræmri aðsókn að kennaranáminu.

Bókasafn LHÍ er á frumstigi. Það er ekkert íhlaupaverk að byggja upp vel grundvallað safn og víðtækt. Munu nemendur LHÍ vafalaust leita um ókomin ár til bókasafns TR sem hingað til.

Kennsluskrá tónlistardeildar lýsir fjölbreyttu og áhugaverðu vali tónfræðanámskeiða. Þó er sá mikli ljóður á að nokkur þau námskeið er töldust til framhaldsnáms í TR - námskeið í undirstöðugreinunum tónheyrn, hljómfræði og kontrapunkti - eru hluti af háskólanámi LHÍ. Þetta jafngildir beinum afslætti af því sem nemendur þurfa að kunna til að komast á háskólastigið og hefur að sjálfsögðu áhrif á alla meðtöku þekkingar í deildinni og kunnáttustuðulinn að henni endilangri.

Tónlistardeild sem hefur einungis um tuttugu hljóðfæranema og kennir á fáein hljóðfæri getur alls ekki haldið sinfóníska hljómsveit innan sinna banda, heldur ekki blásarasveit og tæplega strengjasveit án þess að leita sífellt út fyrir skólann um aðstoð. Fyrir slíka deild er jafnvel erfitt að flytja flest þau dýrðarverk sem teljast til stofutónlistar Vesturlanda. Ekki er heldur að vænta mikils kórstarfs í svo fámennum skóla og er fráleitt að hann geti óstuddur staðið fyrir flutningi nokkurra stærri kórverka, jafnvel ekki minni heldur. Og samt hefur kórsöngur verið talinn einn nauðsynlegasti þáttur tónlistarháskóla. Þessi staða tónlistardeildar er afar bagaleg og stór afturför frá því sem var í TR. Samleikur í hljómsveit og minni flokkum er ein sú hollasta næring sem tónlistarskóli getur veitt. Svo er einnig um kórsöng. Fátækt sem þessari fylgir skólabragur sem hlýtur að vera allt annað en æskilegur.

Þegar tónlistardeild LHÍ gengst fyrir flutningi stærri tónverka er leitað til annarra skóla til að bæta úr þeim mikla skorti sem þar er. Má ýkjulaust segja að um helmingur hljóðfæraleikara við þau tækifæri sé nemendur TR. Jafnvel hefur borið við að nær allir hljóðfæraleikararnir hafi verið úr þeirri stofnun. Að sjálfsögðu fara þessir atburðir fram undir merkjum LHÍ. En er furða þótt þeir sem til þekkja spyrji sig til hvers TR hafi verið klofinn eða hvorum megin háskólinn sé þá stundina. Nemendurnir að miklu leyti úr TR, stjórnendur og kennarar báðum megin, en peningarnir heita Listaháskóli Íslands.

Ennþá er starfrækt sinfónísk nemendahljómsveit við Tónlistarskólann í Reykjavík og er hann eini tónlistarskólinn hér á landi sem hefur til þess efnivið. En vissulega hefur þessi merka starfsemi sett niður við aðskilnað framhalds- og háskólastigsins og er það mikill skaði.

Hinir smáu íslensku staðhættir

Það er oft haft á orði að bekkir í skóla megi ekki vera of stórir. Það stendur heima. Þeir geta hæglega orðið of stórir og fer það eftir eðli námsins og aldri og þroska nemenda hvenær farið er yfir kjörstærð. Hitt er svo annað mál að þeir geta líka orðið of litlir, farið niður fyrir ákjósanlegustu stærð. Þá myndast ekki sú góðkynjaða innri spenna og heilbrigt kapp sem örvar nemendur og eflir til dáða. TR mátti ekki minni vera til þess að skólastarfið - hljómsveit, hljóðfæraflokkar, samleikur, og ekki síður bekkjakennslan - héldi krafti sínum. Þó voru þar á bilinu 100-120 manns í háskólanámi og annað eins á framhaldsskólastigi. Í tápmiklum tónlistarháskóla býr afar margbrotin starfsemi sem byggist að stórum hluta á því að nemendur sér virkjaðir til samvinnu undir leiðsögn reyndra listamanna. Það liggur í augum uppi að tónlistarháskóli með einungis 61nemanda og þar af ekki nema um tuttugu í hljóðfæranámi er pínlega mjósleginn og öldungis ófær um að uppfylla þær kröfur sem gera verður til slíkrar stofnunar.

Þá er og annar veikleiki sem leiðir af forsendum tónlistardeildar LHÍ. Þar sem fáir tónlistarnemar á Íslandi öllu komast á háskólastig verður skóli sem einskorðar sig við þann áfanga ávallt fremur lítill í hinum smáu staðháttum. Því er sú freisting fyrir hendi að hleypa nemum of snemma í háskólanámið til þess einvörðungu að halda því gangandi, til þess að einhver sé þar yfirleitt. Þessi tilhneiging er mun síður fyrir hendi þegar skólinn er stærri; þá er engin hætta á að hann verði neyðarlega mannfár eða allt að því hverfi séu deildir lítt sóttar eða jafnvel lokaðar tímabundið. Við núverandi aðstæður seilist LHÍ inn á framhaldsskólastigið til að bólstra nemendafjölda. Hefði verið ólikt hreinna og beinna að taka það hlutverk einfaldlega að sér líka, hafa framhaldsdeild áfasta við háskólann, enda samvera þessara tveggja námsstiga með alla burði yfir núverandi fyrirkomulag. Slík sambúð átti að vera ein meginforsenda LHÍ svo vel sem hún hafði gefist í TR. Við hinar íslensku aðstæður er það eina leiðin til að reka háskólanám af skynsemi.

Hafa ber í huga að framhaldsstigið er afar breitt eins og önnur skólastig. Sem eðlilegt er skilur mjög mikið að þá nemendur sem á þessu stigi eru. Í því sambandi má nefna aldur, hæfileika, ástundun og ekki síst markmið með tónlistarnáminu. Það er því beinlínis rangt að láta svo sem að tónlistarnemendur á framhaldsstigi standi allir í svipuðum sporum og að þeim sé alls staðar jafn vel borgið, að allir skólar geti sinnt þörfum allra nemenda jafn vel. Að sama skapi er óskynsamlegt að stefna að því að allir tónlistarskólar, eða margir, sinni framhaldsstiginu á jafnan og líkan hátt. Slík stefna mun einungis leiða til þess að enginn geti sinnt þessu stigi svo vel sem þeir nemendur eiga skilið sem setja markið hæst. Að auki verður það ólíkt kostnaðarsamara að reka metnaðarfullt framhaldsnám í örsmáum einingum víða; mun það ennfremur aldrei skila sama faglega árangri sakir annmarka smæðarinnar. Tónlistarnám er þess eðlis að úrslitum ræður að sá sem hyggst ná langt í listinni fái allra bestu aðstæður til að þroskast þegar kallið kemur, helst frá unga aldri. Á þetta ekki síst við um hljóðfæraleik. Það er því mikils misst verði ekki hægt að unna neinum að gegna hinu mikilvæga hlutverki framhaldsskóla í tónlist, þótt slíkur skóli megi að sjálfsögðu ekki koma í veg fyrir að aðrir skólar kenni á framhaldsstigi. Hlutverki framhaldsskóla af þessum toga hefur TR gegnt auk þess sem hann var háskóli. Þangað hafa lagt leið sína flestir þeir nemendur sem vildu af alvöru og eljusemi verja miklum tíma til tónlistarinnar og gangast undir meira og strangara nám en annars staðar gerðist. Ekki sakar að minna á, að samtímis því sem TR sameinaði framhalds- og háskólastigið, þá döfnuðu og þroskuðust aðrir íslenskir tónlistarskólar ört. TR kom sem sé ekki í veg fyrir framfarir hjá þeim. Þvert á móti sá hann þeim fyrir sífellt betur menntuðum kennurum og var öðrum skólum í mörgu til fyrirmyndar um kennsluhætti. Öllum kemur til góða að framhalds- og háskólastigið sé í þeim farvegi sem skilar tónlistinni mestu; viðgang almennra tónlistarskóla mun það allra síst hefta að hér sé kröftugur framhalds- og háskóli í greininni, heldur efla þá sem fyrr, enda samvinna og aðstoð við hina almennu tónlistarskóla ein af skyldum slíkrar stofnunar.

Frá því að tónlistardeild LHÍ tók til starfa hefur TR staðið á krossgötum. Háskólaárgangarnir hafa horfið einn af öðrum úr TR og var útskrift þeirra að mestu lokið í vor er leið. Jafnframt hafa háskólanámskeiðin verið lögð niður hvert af öðru. Með nemendunum hafa horfið þeir fjármunir sem nýst hafa háskólastiginu en einnig framhaldsstiginu. Komu þeir bæði frá Reykjavíkurborg og frá ríkinu. Haustið 2003 hrifsaði borgin mikla fjármuni af skólanum. Eins og ljóst mun vera af fréttum frá þeim tíma er skólinn í uppnámi eftir það reiðarslag og þar með sá sérstaki og mikilvægi hluti framhaldsstigsins sem þar hefur átt sinn helsta vettvang í landinu. Er með ólíkindum að stofnun sem fóstrað hefur flesta helstu tónlistarmenn þjóðarinnar að meira eða minna leyti í hálfan áttunda áratug skuli ítrekað sæta slíkri meðferð. Að störfum er nefnd á vegum ríkis og sveitarfélaga sem móta á reglur um stöðu framhaldsskólastigsins og fjárhagslegan stuðning við það. Undirritaður óttast að ekki fáist afdráttarlaus stuðningur við að gefa framhaldsstiginu fastan sess, eins konar þyngdarmiðju, og halda þann sess af myndarskap. Væri það vondur afleikur, ekki síst í ljósi þess sem á undan er gengið. Og tónlistin tapar.

Höfuðvitleysa

Höfuðvitleysan í þessu máli var að taka ekki TR eins og hann lagði sig inn í LHÍ. Þá hefði verið hægt að halda sömu kröfum fyrir háskólastigið, framhaldsskólinn verið áfastur, kennaranámið ekki hrunið saman og skólinn þannig orðið stærri og fjölbreyttari og þjónað sínu hlutverki betur. Leikur einn hefði verið að bæta við þeim námskeiðum sem ný eru í LHÍ.

Aldrei hafa verið færð nein rök fyrir því að ástæða hafi verið til að sniðganga TR við stofnun Tónlistardeildar LHÍ, hvað þá að fyrir því væru færð rök sem vægju svo þungt að eftir þeim bæri að fara. En hafi verið ástæða til að útiloka TR, þá var önnur stórvitleysa að stofna tónlistarháskóla án þess að hafa áfasta framhaldsdeild við háskóladeildina. Það er hinn versti dragbítur og mun eflaust koma að því fyrr eða síðar að tónlistardeild LHÍ æski þess að fá slíka fornámsdeild.

Fari svo að enginn skóli verði gerður að setri framhaldsstigsins, þá er það enn önnur stórvitleysan í fræðslumálum tónlistar í landinu.

Útilokun TR úr Listaháskóla

Um áratuga skeið lögðu skólastjórar TR að stjórnvöldum að skólinn yrði gerður að ríkisskóla og að háskólanámið hlyti fullgildingu. Var það stutt þeim rökum að skólinn hefði til þess alla burði: að kennarar skólans væru mjög vel menntaðir og hefðu margháttaða reynslu í list sinni, bæði heima og erlendis; að nýútskrifaðir nemendur skólans hlytu fullt eða hátt mat til háskólanáms á framhaldsstigi við erlenda háskóla og stæðu sig almennt afar vel, hvort heldur væri sem háskólanemendur erlendis eða sem tónlistarmenn og kennarar heima; að skólinn hefði skilað þeim skerfi til samfélagsins að þetta hlyti að teljast eðlilegt. Að baki þessari beiðni bjó draumur um svigrúm til að geta gert enn betur: að hægt væri að styrkja námið enn frekar og auka fjölbreytni þess; að íslenskir tónlistarnemar á framhalds- og háskólastigi fengju nám sitt á sömu kjörum og aðrir íslenskir námsmenn fengju sambærilegt nám; að skólinn fengi húsnæði sem hentaði starfseminni; að kennarar fengju umbun fyrir störf sín til jafns við aðra framhalds- og háskólakennara og að háskólaprófin frá skólanum fengju fulla viðurkenningu ríkisins. Það leikur vafi á að nokkrar af þessum hugsjónum hafi náð fram að ganga utan ein, að viðurkenning ríkisins hefur fengist á því að í landinu eru próf sem teljast fullgildar háskólagráður í tónlist.

Oftar en einu sinni voru lög um skólann albúin þess að fara fyrir Alþingi, en öfl úr ýmsum áttum, helst innan úr stéttinni, lögðust gegn þeim og ferlið stöðvaðist.

Myndlista- og handíðaskóli Íslands og Leiklistarskóli Íslands voru í lok níunda áratugarins í svipuðum sporum og TR að leita eftir viðurkenningu ríkisins á háskólakennslu sinni og þátttöku ríkisins í eflingu hennar. Þessir þrír skólar tóku höndum saman og hófu viðræður við ríkið um framgang málsins. Þær viðræður leiddu til stofnunar LHÍ. Eftir að stofnskrá LHÍ hafði verið samþykkt og rektor ráðinn að stofnuninni var TR útilokaður sem beinn stofnaðili, en Myndlistaskólinn og Leiklistarskólinn hurfu inn í LHÍ. Það var mjög ómaklegt og óverðskuldað að sá skóli sem lengst hafði átt viðræður við ríkið um háskólastigið, elsti listaskóli landsins, skyldi leikinn svo grátt. Stóð hann þó fyllilega jafnfætis Myndlistaskólanum og Leiklistarskólanum. Þó er öllu verra að sú ákvörðun að skilja að framhalds- og háskólanám í tónlist skyldi færa hvor tveggju námsstigin til verri vegar og hið síðarnefnda niður um nokkur þrep í leiðinni. Skólarnir báðir, LHÍ og TR, líða mikið fyrir þessa ráðstöfun og þeir mest sem síst skyldi: nemendur sem sækja háskóla- og framhaldsnám nú og um komandi framtíð.

Á neikvæðar afleiðingar aðskilnaðar þessara tveggja námsstiga, auk ýmiss annars er betur þótti mega fara í skipulagi tónlistardeildar LHÍ, var bent áður en deildin tók til starfa. Menn létu þá gagnrýni sem vind um eyrun þjóta. Nú ætti að vera öllum ljóst, sem á annað borð vilja af því vita, að hin nýja tilhögun jafnast engan veginn á við þá sem fyrir var.

Ekki er um seinan

Enn eru öll sund opin. Ekki má una við að smávaxin og lítils megnug háskóladeild hokri þetta ein og sér. Það má heldur ekki gerast að framhaldsstigið fái enga þyngdarmiðju, ekkert fast setur, og það verði deyft út með því að dreifa því til jafns um allar jarðir. Langbesti kosturinn í stöðunni er að láta TR ganga inn í LHÍ og þar verði höfuðstaður framhalds- og háskólanáms í tónlist í landinu. Það mun hámarka hagkvæmni og árangur kennslu á þessu sviði. Næstbesti kosturinn, en mun síðri, er að gera TR að ríkiskostuðum framhaldsskóla án allra heimskulegra takmarkana, svo sem þeirri að nemendur verði að vera á framhaldsskólaaldri eða ganga í framhaldsskóla til þess að stunda framhaldsnám í tónlist. Aðgangur að slíku námi á að hlíta kröfum tónlistarinnar eingöngu og standa öllum til boða á sömu kjörum sem standast þær kröfur.

Samhliða stofnun fornámsdeildar við tónlistardeild LHÍ ætti að gera hið ýtrasta til að efla og breikka námið í háskóladeildinni. Til viðbótar við það sem áður hefur verið drepið á má nefna hið augljósa, þ.e. að leita eigi leiða til að gera það fýsilegt fyrir Söngskólann í Reykjavík að ganga inn í LHÍ og með sama hætti eigi ritmísk tónlist og spunatónlist eindregið að fá þar sitt verkstæði.

Miðað við núverandi forsendur LHÍ mun sá skóli alls ekki geta staðist erlendum skólum snúning vegna fæðar nemenda, fábreytni og þróttleysis sem af smæðinni hlýst. Þá ýta núverandi forsendur LHÍ undir það að skólinn seilist inn á framhaldsskólastigið til að auka nemendafjölda. Er afar sárt til þess að hugsa að loksins þegar stofnaður er tónlistarskóli með forskeytinu "há" hér á landi þá skuli hann grundvallaður á forsendum sem geri honum nauðsynlegt til þrifnaðar að færa inntökukröfur á háskólastigið niður frá því sem áður var. Slíkur afsláttur jafngildir lækkun á námsstaðli á landinu. Afstaða og skilyrði þess aðilja er stjórnar háskólanáminu leiðir beint út og hefur áhrif á landsvísu. Sé slakað á kröfum eru það skilaboð um að skólarnir á neðri stigum þurfi síður að standa sig, að háskólinn geti tekið af þeim ómakið. Tónlistarmenntun er afar ung á Íslandi; þótt Íslendingar hafi gert margt gott á þeim vettvangi á undanförnum áratugum fer því fjarri að þeir standi svo hátt að þeim beri ekki að bæta sig og gera gott betra.

Undirrituðum hefur orðið nokkuð langrætt um þau miklu og margháttuðu spjöll er hann telur hafa orðið er háskólanám var klofið frá framhaldsnámi í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Ekki er hann þar með að segja að ekkert gott muni leiða af tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Þaðan mun mest góðu stafa. En það er ekki vegna þess að vel og viturlega hafi verið stofnað til deildarinnar, heldur vegna þess að þar eru prýðilegir kennarar að kenna efnilegu fólki kröfuhart og göfugt fag. Aftur á móti er það miklum mun minna gott en hefði verið, ef hugsjónir þeirra sem unnu að framgangi listaháskólamálsins hefðu fengið ráðrúm, og glatað tækifæri er það til glæstrar uppbyggingar tónlistardeildar LHÍ, öllu tónlistarlífi Íslands til heilla, nema til komi breytt stefna.

Nú verða allir sem láta sér annt um viðgang tónlistarinnar að leggjast á eitt um að þessi mál fái farsæla lausn. Ábyrgð valdhafa og áhrifamanna er mikil. Þetta á líka við um þá mörgu ágætu kennara er léð hafa tónlistardeild LHÍ krafta sína og þar með stutt núverandi námstilhögun. Án þátttöku þeirra hefði þessi skipan ekki komist á og án þeirra verður henni ekki viðhaldið. Láti þeir ekki til sín taka með afgerandi hætti, verji þeir ekki uppeldisstöðvar tónlistarinnar, hverjum er þá til að dreifa? Framganga þeirra getur skipt sköpum.

Guðmundur Hafsteinsson fjallar um málefni Tónlistarskóla Reykjavíkur

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.