Skútulíf Lífið um borð í skútunum, sem taka allt að tíu manns í einu, er þægilegt. Auðvelt er að sigla á svæðinu og leigjast skúturnar frá apríl til nóvember.
Skútulíf Lífið um borð í skútunum, sem taka allt að tíu manns í einu, er þægilegt. Auðvelt er að sigla á svæðinu og leigjast skúturnar frá apríl til nóvember. — Morgunblaðið/Jóhanna Ingvarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Guðmundsdóttir, sem er 45 ára gömul og móðir tveggja uppkominna dætra, ákvað að venda sínu kvæði í kross með því að fylgja bullandi sígaunaeðlinu, sem blundar í henni. Hún sagði Jóhönnu Ingvarsdóttur af skútulífi skipstjórans við suðurströnd Tyrklands undir tyrkneskum tónum.

Ég vissi hvorki hvað sneri austur né vestur, norður eða niður, þegar ég ákveð að fara að kynna mér siglingafræðina. Ég sat við símsvörun í fyrirtæki hér í borg. Mér fannst lífið eitthvað svo dapurlegt og leiðinlegt svo ég fékk þá skyndihugdettu haustið 2005 að skella mér í pungaprófið í Fjöltækniskóla Íslands án þess að ég hefði hugmynd um hvernig sú skrýtna ákvörðun myndi gagnast mér í framtíðinni enda var markmiðið með náminu það helst að drepa tímann á kvöldin.

Ég hafði aldrei siglt eða spáð í sjávarföllin en óhætt er að segja að líf mitt hafi tekið algjöra u-beygju eftir námskeiðið,“ segir Kristín Guðmundsdóttir, sem nú siglir eins og ekkert sé við suðurstrendur Tyrklands og tekur á móti ferðamönnum, sem vilja reyna fyrir sér í skútusiglingum, bæði byrjendum og lengra komnum í faginu.

Kolféll fyrir skútubransanum

Kristín starfar fyrir íslenska skútufyrirtækið Seaways-sailing, sem nú er farið að vinna sér sess á Tyrklandsmarkaði ekki síður en á Íslandsmarkaði þaðan sem ferðamönnum fjölgar stöðugt enda þykir sunnanvert Tyrkland einkar áhugavert siglingasvæði fyrir skútuáhugamenn.

Íslenska skútufyrirtækið er í eigu hjónanna Önundar Jóhannssonar og Sigurveigar Guðmundsdóttur, sem er systir Kristínar, en þar sem Sigurveig starfar sem flugfreyja hjá Lufthansa ákvað Kristín að sigla suður í Miðjarðarhaf með pungaprófið upp á vasann og standa skútuvaktina með Önundi mági sínum sem hugðist fara í rólega gírinn kominn á starfslokasamning eftir farsæla flugstjóratíð þegar hann kolféll fyrir Jeanneau Sun Oddyssey-skútum á London Boat-sýningunni í janúar 2006. Til að gera langa sögu stutta fjárfesti hann í þremur 45 feta skútum, sem skírðar voru Íslandssól, Sóllilja og Tobba trunta, en fyrir átti Önni, eins og hann er kallaður af vinum og vandamönnum, hlut ásamt öðrum Íslendingum í Sölku Völku, 49 feta skútu, sem er einnig í útleigu ef eigendurnir eru ekki að nota hana.

Kristín hefur fengið eldraunina í siglingabransanum hjá mági sínum Önundi sem hófst þegar glænýjum skútunum var hleypt af stokkunum í Port Napóleon í Frakklandi í júníbyrjun 2006. Við tók 1.300 sjómílna ferð eftir endilöngu Miðjarðarhafinu, frá Suður-Frakklandi til Göcek í Suður-Tyrklandi, þar sem íslenska fyrirtækið hefur bækistöðvar sínar. Kristín var einn tíu áhafnarmeðlima á skútunum þremur, en leiðin samsvarar siglingaleiðinni frá Vestmannaeyjum til Glasgow og aftur til baka og tók tíu sólarhringa.

Allir vilja þeir koma aftur

Eftir að höfn var náð í Göcek hafa skúturnar verið í leigu við góðan orðstír. Svo virðist sem þessi ferðamáti falli landanum í geð því allir þeir Íslendingar, sem komu í skútusiglingu í sumar, hafa leigt sér skútu við strendur Tyrklands á ný næsta sumar.

„Það eru auðvitað ákveðin meðmæli enda hafa menn notið sín þarna í þessu fallega og rólega umhverfi.“

Skútubærinn Göcek stendur við Fethiye-flóa þar sem er að finna ótal víkur og flóa til að varpa akkeri eða binda við bryggju. Þar er svo hægt að synda, sóla sig, snorkla, fara í könnunarferðir og gott er að enda daginn á litlum fjölskyldureknum veitingastöðum, sem eru nánast reknir í flæðarmálinu. Á undanförnum tíu árum hefur bærinn breyst úr pínulitlu fiskiþorpi í skútubæ með lúxusaðstöðu fyrir skútuáhugamenn. Skútuhöfnin þar þykir nú orðin ein af þeim vinsælustu við suðurströnd Tyrklands og ekki skemmir verðlagið á mat og þjónustu sem þykir einkar hagstætt. Göcek er aðeins 22 km austur af Dalaman-flugvelli, sem þjónar m.a. Marmaris, þangað sem Íslendingar eru farnir að sækja í stórum stíl, en samkvæmt upplýsingum Úrvals-Útsýnar er áformað að fljúga þangað tvisvar í viku næsta sumar í stað vikulega síðasta sumar.

Seldi íbúðina með búslóðinni

Í fyrstu ákvað Kristín að setja öryggið á oddinn og hún afréð því að leigja íbúðina sína á Íslandi til að eiga sér afdrep ef hana langaði að snúa heim eða líkaði ekki Tyrklandsvistin.

„En nú er ég búin að selja íbúðina með öllum húsgögnum og á ekki neitt nema bankabókina, fötin mín, reiðhjólið mitt í Tyrklandi og tvær uppkomnar dætur, sem farnar eru að búa sér. Ég setti íbúðina mína á sölu í jólafríinu og hún seldist á tveimur dögum. Ég var í vandræðagangi með hvað ég ætti að gera við húsgögnin mín svo ég spurði hvort nýi eigandinn vildi ekki bara kaupa þau líka og hann játti því. Þetta gat ekki passað betur,“ segir Kristín og hlær enda er stutt í sígaunaeðlið. „Já, það er satt enda hef ég bæði verið búsett á Spáni og á Ítalíu auk þess sem ég hef ekkert þurft að hugsa mig mikið um þegar mér hafa boðist einhver ævintýri í útlöndum, svona í gegnum tíðina. Ég get alveg verið komin upp í flugvél innan sólarhrings eða svo. Það er lítið mál enda er svo miklu skemmtilegra að lifa lífinu lifandi en hálfdauð. Nú er ég alsæl með tilveruna.

Heimamenn eru gestrisnir

Ég bý hjá ættingjum þegar ég heimsæki Ísland, en þess á milli lifi ég áhyggjulausu og skemmtilegu lífi við Tyrklandsstrendur. Þrátt fyrir að hafa farið út með hálfgerða fordóma í garð Tyrkja, og ég efast svo sem ekkert um að til séu öfgar í þeim efnum, hef ég kynnst mikilli gestrisni og hjálpsemi af hálfu heimamanna. Ég leigi litla íbúð nálægt höfninni þar sem skúturnar liggja. Fólk leigir skúturnar ýmist í eina eða tvær vikur – þær er hægt að fá bæði með og án skipstjóra – og dólar sér í Fethiye-flóanum í rólegheitum þar sem hægt er að velja úr fimm huggulegum víkum, sem bjóða upp á bryggjustæði, strandir og huggulega veitingastaði í tyrkneskum anda,“ segir Kristín, sem farin er að bjarga sér vel á tyrknesku og var í óða önn að undirbúa dömu-skútuferð þegar Daglegt líf spjallaði við hana í jólafríinu. „Skútuferðir eru nefnilega ekkert bara fyrir stráka. Þær eru allt eins fyrir okkur stelpurnar,“ segir Kristín, sem stýrir skútunum ef á þarf að halda og kennir hagvönum jafnt sem óvönum á tæki og tól áður en lagt er úr höfn.

join@mbl.is