Ferðamannastaðir Big Ben og Lundúnaaugað kunna að vera með þekktari kennileitum Lundúna, en borgin hefur líka upp margt annað að bjóða.
Ferðamannastaðir Big Ben og Lundúnaaugað kunna að vera með þekktari kennileitum Lundúna, en borgin hefur líka upp margt annað að bjóða. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
London er borg fjölmenningar og margbreytileika og innan marka hennar leynast ógleymanlegir staðir sem geta auðveldlega farið fram hjá gleggstu ferðamönnum. Bókmenntafræðingurinn Arnhildur Lilý Karlsdóttir býr í London.

London er borg fjölmenningar og margbreytileika og innan marka hennar leynast ógleymanlegir staðir sem geta auðveldlega farið fram hjá gleggstu ferðamönnum. Bókmenntafræðingurinn Arnhildur Lilý Karlsdóttir býr í London. Hún fór á stúfana með Guðrúnu Huldu Pálsdóttur og saman leituðu þær uppi nokkrar faldar gersemar stórborgarinnar.

Arcola theatre

Arcola er sjálfstætt starfandi og metnaðarfullt leikhús. Í því er aðeins eitt hráslagalegt salarrými, en andrúmsloftið er listrænt og spennandi. Í Arcola er allt á náttúruvænum og vinalegum nótum.

Lestarstöð: Dalston Kingsland á 2. svæði (e. zone).

Sjá: http://www.arcolatheatre.com/

Angel Islington

Angel Islington er borgarhluti sem ber með sér blöndu af smábæjarsamfélagi og stórborginni og ætti því að henta vel þeim sem vilja ráfa um. Þarna eru margir staðir til að neyta matar og drykkjar, sem og matarmarkaður með dýrindis brauðum, ólífum, pylsum og fleiru. Svo kallaðir „second hand“ markaðir sem sérhæfa sig í notuðum fatnaði og varningi bjóða gestum líka upp á tækifæri til að gera kjarakaup. Þarna er sannarlega hægt að gleyma sér.

Lestarstöð: Highbury and Islington

á 2. svæði.

Sjá: http://www.angelislington.net/

BAPS Shri Swaminarayan Mandir

Þetta fagurlega hannaða hindúamusteri er það fyrsta sinnar tegundar í Evrópu. Það var byggt af indverskum myndhöggvurum og síðan flutt í 26.300 fínlega löguðum hlutum til Bretlands og reist í útjaðri stórborgarinnar á tíunda áratugnum. Sögulegt augnayndi fyrir alla þá sem nenna að gera sér ferð á staðinn.

Lestarstöð: Neasden á 3. svæði.

Sjá: http://www.mandir.org/

Bermondsey-antíkmarkaðurinn

Fyrir þá morgunhressu er antíkmarkaðurinn á Bermondsey torgi nokkuð sem vert er að kíkja á. Markaðurinn er eingöngu haldinn á föstudagsmorgnum og hefst kl. 4 árla morguns. Hann er mekka stóru antiksala borgarinnar sem kaupa þar sjálfir inn dýrgripi fyrir verslanir sínar.

Lestarstöð: London Brigde á 1. svæði.

Sjá: http://www.bermondseysquare.co.uk/antiques.html

Blackheath

Blackheath má best lýsa sem þorpi í borg. Þar er hægt að rölta um litlar götur á milli vinalegra pöbba, kaffihúsa. Síðan er hægt að taka stefnuna yfir „heiðina“ til Greenwich Park og koma þar öfugum megin að hinum vinsæla ferðamannastað, Greenwich og ganga beint að sjálfri Greenwich tímalínunni. Í Blackheath er stórkostlegt útsýni yfir Greenwich, Millenium höllina, fjármálahverfið Canary Warf og Isle of Dogs.

Lestarstöð: Blackheath á 3. svæði.

Sjá: http://en.wikipedia.org/wiki/Blackheath

Buenos Aires café

Í borg þar sem kaffihúsakeðjur á borð við Costa og Starbucks ráða ríkjum getur lítið kaffihús með sjarma og karakter verið vandfundið. Slík kaffihús er þó að sjálfsögðu að finna í borginni og er Buenos Aires café gott dæmi um slíkt. Þjónustan er bæði alúðleg og persónuleg og þar er hægt að finna margvíslegt góðgæti úr frönsku og argentínsku eldhúsi. Einnig er gaman að sitja með rjúkandi kaffi í góðum sófa eða úti þegar vel viðrar.

Lífræna kaffihúsið Broca fyrir utan lestarstöðina í Brockley (20 mín frá Greenwich) er líka vel heimsóknarinnar virði.

Lestarstöð: Greenwich á 2-3. svæði.

http://www.thebestof.co.uk/greenwich/29933/1/1/the_best_of.aspx

Gordons wine bar

Rómantíkin svífur yfir vötnum á Gordons Wine Bar, elsta vínbar Lundúna. Hann er staðsettur í hvelfdum kjallara þar sem lágt er til lofts, gólfið ójafnt, tunnur notaðar sem borð og kertaljósum komið fyrir í flöskum. Þarna er hægt að fá vín og huggulega ostabakka með pylsum, baguette brauði og paté á meðan að dreypt er á vínglasi fjarri mannflauminum fyrir utan.

Lestarstöð: Charing Cross

eða Embankment á 1. svæði.

Sjá: http://www.gordonswinebar.com/

The Horse Hospital

Eins og nafnið bendir til var þetta myrka hús eitt sinn spítali hinna konunglegu hrossa. Síðan 1993 hefur þar verið stafrækt framúrstefnuleg listamiðstöð sem geymir grasrótarmyndlist, ljósmyndasýningar og sýningar á lítt þekktum neðanjarðarkvikmyndum.

Lestarstöð: Russel Square á 1. svæði.

Sjá: http://www.thehorsehospital.com/

The Somerset House

Fallegt sögufrægt hús sem gaman er að skoða. Sýningar er snerta hina ýmsu kima listalífsins eru þar ávallt í gangi og Courtauld Gallery sem er í hluta hússins geymir mörg af þekktari verkum listasögunnar. Við Somerset House er einnig að finna útibíó og boðið er upp á ýmis konar listasmiðjur fyrir alla aldurshópa. Á góðum sumardegi er notalegt að fara þangað með með nesti og góða bók og eyða tíma í miðgarði hússins sem breytt er í skautasvell yfir vetrartímann.

Lestarstöð: Temble eða Embankment

á 1. svæði.

http://www.somersethouse.org.uk/

gudrunhulda@mbl.is