Sævar Snæbjörnsson fæddist í Ólafsvík 1. maí 1936. Hann lést á Landspítala við Hringbraut 9. júní sl. Foreldrar hans voru Ásta Vigfúsdóttir, f. 10. okt. 1903, d. 16. okt. 1977 og Snæbjörn Eyjólfsson, f. 6. ágúst 1897, d. 19. ágúst 1973. Hálfsystkin Sævars sammæðra voru Guðrún, f. 30. jan. 1930, d. 10. nóv. 2003, Ragna, f. 18. nóv. 1932, d. 4. mars 1997, Bergur, f. 27. sept. 1931, d. 1. júní 1996 og Guðbjartur, f. 13. des. 1939, d. 30. maí 1957. Hálfsystkin samfeðra eru Eyjólfur, f. 4. júní 1928, d. 25. apríl 1988, Ellen Þóra, f. 6. maí 1935, d. 23. maí 2002, og Búi, f. 9. ágúst 1928. Sævar kvæntist 18. okt. 1961 Huldu Gunnarsdóttur frá Kolbeinsstöðum, f. 7. mars 1940. Foreldrar hennar voru Gunnar Ólafsson, f. 28. apríl 1909, d. 28. jan. 1997 og Inga S. Björnsdóttir, f. 18. okt. 1921, d. 4. mars 2007. Sævar og Hulda eignuðust 2 dætur: a) Ingunn, f. 18. júní 1961, dóttir hennar er Hulda Kristín, f. 13. apríl 1985, í sambúð með Arnari Loga, f. 10. sept. 1982, sonur þeirra Viktor Smári, f. 21. júlí 2008. b) Birna, f. 7. ágúst 1962, gift Guðmundi Kristinsyni, f. 12. maí 1960, þau eiga þrjú börn, Guðmund Sævar, f. 9. maí 1984, Gunnar Björn, f. 25. feb. 1986 og Kristinn Einar, f. 30. okt. 1994. Sævar vann hjá Bæjarútgerð en var lengsta starfsferil sinn hjá Halldóri Jónssyni heildverslun. Útför Sævars fór fram frá Kópavogskirkju 18. júní, í kyrrþey.

Foringinn er fallinn.
Full eftirvæntingar og tilhlökkunar bjuggum við okkur undir endurfundi, til að halda upp á 50 ára útskriftarafmæli frá Varmalandi. Þar bundust vináttubönd sem aldrei rofnuðu og af og til hafa skólasysturnar hist með mönnum sínum og einnig við, karlarnir, höfum orðið góðir kunningjar og vinir. Mitt í undirbúningnum, fáum dögum fyrir samveruhelgina langþráðu, var hann kvaddur brott, foringinn sem af okkar karlann hálfu hélt utan um þennan samstíga hóp, alveg frá upphafi. Hann sagðist hafa orðið til fyrir slysni, í fallegum hraunbolla, í Búðahrauni á Snæfellsnesi og fæddist í Ólafsvík á baráttudegi verkalýðsins. Alla ævi hefur verið flaggað um allt land á afmælisdaginn hans! Í Ólafsvík hóf hann búskap með Huldu sinni, í litlu húsi sem stendur þar í fallegu túni, í miðjum bænum. Ólafsvík og Snæfellsnesið er það töfraland sem átti hug hans og hjarta alla tíð. Það var dýrlegt að fara með Sævari um Snæfellsnesið, njóta leiðsagnar hans og upplifa með honum ljúfar endurminningar þaðan, frá morgni lífsins.
Þau Hulda fluttust fljótlega hingað suður og bjuggu nær allan sinn búskap í Reykjavík og Kópavogi. Þar uxu dætur þeirra úr grasi við ást og umhyggju.
Sín bestu manndómsár vann Sævar hjá Halldóri Jónssyni, stórkaupmanni. Hann sinnti þessu starfi af kostgæfni og var Halldóri allt í senn: trúr starfsmaður góður vinur og hjálparhella. Á sama hátt sýndi Halldór honum traust og trúnað. Sævar var þarna mikils metinn og mikilvægur. Hann unni starfi sínu, fyrirtækið og samstarfsfólkið átti hug hans allan, jafnt í vinnutíma sem í frítíma. Undanfarin ár hafa verið Sævari og allri fjölskyldunni erfið. Hann stríddi við mikil veikindi sem lögðust á hann af sívaxandi þunga. Þrátt fyrir það hélt hann reisn sinni og glæsimennsku til hinsta dags. Hann hélt líka sínu ljúfa geði og umhyggju. En allt í einu var hann allur.
Það hefði ekki átt að koma á óvart þegar hann andaðist, aðfaranótt 9. júní, en gerði það samt. Það er alveg ljóst að hópurinn sem hélt upp á 50 ára útskriftarafmælið á dögunum, verður ekki samur í framtíðinni, þegar Sævars nýtur ekki lengur við. Hann var foringinn í hópnum. Hann lagði á ráðin. Hann hafði samband og fylgdist með hvernig félögunum liði. Hann huggaði og gladdi. Hans verður sárt saknað og honum verða ævinlega þakkaðar ótal góðar samverustundir.
Sævar var kvaddur hinn 18. júní í Kópavogskirkju af nánustu fjölskyldu og vinum. Það var hjartnæm stund og í hans anda. Honum fylgja þakkir fyrir áralanga vináttu og góðar óskir inn í framtíðina sem bíður okkar allra.
Blessuð veri minning hans.

Örn Erlendsson

Þegar Sævar og Hulda buðu okkur í skötu rétt fyrir jólin í fyrra datt okkur ekki í hug að þetta væri síðasta skötuveislan sem Sævar tæki þátt í. Vissulega var heilsuleysið að angra hann en á þessu kvöldi var hann ódauðlegur, líkt og við öll hugsum um eigið líf á jörðu hér. Svona á lífið líka að vera. Það er engra hagur að hugsa um dauðann um of, hann kemur víst þegar hann er tilbúinn og þangað til er mikilvægt að lifa í núinu. Gleðjast á góðra vina fundi. Njóta augnabliksins lifandi. Taka á móti gjöfum annara um leið og maður gefur gjafir til baka. Með sögum og skoðunum, með hlátri og hryggð, með bjartsýni og áhyggjum, með alvöru og léttúð. Þetta var það sem við gerðum meðan við gæddum okkur á skötu og skelfilega góðu rúgbrauði rétt fyrir jólin í fyrra. Þarna var Sævar í essinu sínu. Sævar lék á als oddi, stoltur af heimilinu og henni Huldu sinni. Stoltur af svölunum sem hann hafði gert að útistofu og hinum svölunum hvar hann framleiddi harðfiskinn sinn. Stoltur af afkomendunum öllum. Stoltur, og hann mátti alveg vera það. Hann hafði skilað sínu og gott betur, bæði börnum og barnabörnum, svo ekki sé minnst á barnabarnið sem sannarlega var augasteinninn hans, skilað þeim gleði og hamingju í svita síns andlits.
Með Sævari er horfin ein af hetjum okkar smávaxna samfélags, hvar munar um sérhverja sál. Samfélags sem á lífstíð Sævars reis frá örbirgð til alsnægta fyrir sakir manna á borð við hann sem af fórnfýsi og örlæti byggðu upp mannvænlegt þjóðfélag fyrir börnin sín. Við sátum í útistofunni á svölunum rétt fyrir jól í fyrra og spjölluðum. Hann var dálítið meyr um leið og hann var þakklátur fyrir lífshlaupið sitt. Að sjálfsögðu ósáttur við sumt, eins og gjarnt er um okkur öll. Hryggðin sigraði samt aldrei gleðina og í hvert sinn sem Huldu bar á góma eða hún kom í gættina ljómuðu augun af stolti. Við gætum vissulega rakið ævihlaup Sævars og mært hann fyrir afrekin í réttri tímaröð, það finnst okkur kannski vera réttur annara en okkar, sem fengum leyfi að kynnast honum og Huldu í gengum hana Ingunni okkar.
Elsku Ingunn, Hulda og fjölskyldan öll megi megi minningin um góðan dreng sefa sárustu sorgina ykkar.

Faðir og vinur alls, sem er,
annastu þennan græna reit.
Blessaðu, faðir, blómin hér,
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley, sérðu mig?
Sofðu nú vært og byrgðu þig.
Hægur er dúr á daggarnótt.
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt!

(Jónas Hallgrímsson.)

Hvíldu í friði snillingur.

Barði Valdimarsson

Elsku besti afi minn.

Nú ertu kominn til Guðs og verður því í því hlutverki að fylgjast með okkur. Það koma upp svo endalaust mikið af minningum að maður veit ekki hvar maður á að byrja.

Það var mjög erfið stund þegar mamma hringdi í mig um nóttina og sagðir mér að þú værir dáinn og hvort ég vildi ekki koma og hitta þig. Auðvitað vildi ég það og það var gott að fá að koma til þín þar sem öll fjölskyldan var saman komin. Það var svo mikil kyrrð yfir öllu.

Ég er búin að eiga svo yndislegar stundir með þér og auðvitað ömmu og ég á alltaf eftir að geyma þær í hjarta mínu. Alveg frá því að ég var pínulítil og var að syngja fyrir þig og allt þar til 2 dögum áður en þú fórst, en það var í síðasta sinn sem við hittumst. Mér er alltaf minnisstætt þegar þú sagðir mér frá því að þegar ég var örugglega um þriggja ára og var að syngja fyrir þig og ég svæfði þig. En það átti nú að vera öfugt. Kom svo fram og sagði ömmu að þú værir bara sofandi. Það var alltaf svo gaman að koma til ykkar ömmu, yfirleitt biðu manns rjúkandi pönnukökur sem ömmu einni er lagið og svo spjallaði maður um heima og geima við ykkur. Það var svo gott að tala við þig og þú gast alltaf sagt mér allt, enda töluðum við mikið saman. Þér fannst gaman að ferðast og á ég margar minningar um sumarbústaðaferðir, veiðiferðir og ferðir í Stykkishólm. Kolaportaferðirnar standa líka upp úr, en það var eitthvað sem ég gerði nánast bara með ykkur ömmu. Við vorum alltaf að leita að sömu styttunni, en hún er ekki enn fundin.

Eftir að Viktor Smári fæddist er óhætt að segja að hann hafi verið þitt aðalnúmer. Maður sá þig hressast eftir hverja heimsókn til hans, eða þegar við komum til ykkar ömmu. Amma sagði líka alltaf að sá gamli yrði í sæluvímu það sem eftir væri dagsins þegar við hittum þig. Þú varst svo stoltur af honum og hafðir svo gaman af því að fylgjast með honum stækka og svo fannst þér alltaf jafn merkilegt þegar hann gerði eitthvað nýtt, sama hversu lítið það var eins og það að grípa í puttann þinn. Ég á eftir að sjá til þess að hann muni eftir honum langafa sínum og sýna honum myndir þegar hann verður eldri. Ég er einnig alveg viss um að þú hafir byrjað á að heilsa upp á hann þegar þú lést. Okkur mömmu fannst svo mikið glott á þér og á sama tíma var Viktor Smári heima hjá pabba sínum og brosti og hló uppúr svefni.

2 dögum áður en þú fórst þá baðstu um að föstudaginn næsta (19.júní) myndum við hittast heima hjá mér og grilla, í tilefni 50 ára trúlofunarafmæli ykkar ömmu þann dag og þar sem mamma átti afmæli daginn áður. Við gerðum það og borðuðum úti á palli í sólskini og góðu veðri. Ég veit þú varst hjá okkur og fylgdist með að við værum með nóg að borða, þó þú hefðir líklega ekki haft áhuga á sósunum sem voru á borðinu.

Elsku afi minn það er svo erfitt að kveðja þig. Við munum passa uppá hvert annað, svo þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur. Amma er í góðum höndum hjá okkur.

Hvíldu í friði

Þín afastelpa,

Hulda.

Úti er þetta ævintýr.

Yfir skuggum kvöldið býr.

Vorsins glóð á dagsins vöngum dvín.

Þögnin verður þung og löng

þeim, sem unnu glöðum söng

og trúað hafa sumarlangt á sól og vín.

(Tómas Guðmundsson.)

Hann elsku Sævar frændi hefur nú kvatt okkur og er það okkur ljúft að fá að minnast hans í örfáum orðum. Hann Sævar var einstakur maður í okkar augum, hann var þessi glettni og reffilegi frændi sem var oft á tíðum stríðinn en um leið svo einlægur og hlýr og lét sér annt um okkur, fylgdist með því hvað við vorum að bardúsa og sýndi okkur mikla væntumþykju. Það var alltaf gott að tala við Sævar og hann gaf sér alltaf tíma til að hlusta og spjalla við okkur. Honum þótti líka gott að geta leitað til okkar og við veittum honum fúslega alla þá aðstoð og hjálp sem við mögulega gátum, hvort sem það var að mála herbergi eða íbúð eða veita ráð um hvernig væri best að gera góða sósu með gæs fyrir félagana í matarklúbbnum fræga. Honum fannst gott að borða góðan mat og þótti það heldur erfitt að halda sér frá góðgætinu hin síðari ár þegar hann mátti ekki lengur borða það sem hann vildi. Þær voru nokkrar veiðiferðirnar sem við fórum í saman og nutum þess að vera í góðum félagsskap og hlusta á góðar sögur, honum þótti t.d. mjög gaman að segja okkur sögur og ekki síst að segja okkur frá ýmsum fróðleik t.d. um Ólafsvík. Hann var mikill grúskari og safnað ýmsum minjum um heimahagana, s.s. ljósmyndum og bókum og fræddi okkur um langömmur og langafa og ýmsa aðra forfeður sem honum var umhugað um að við þekktum til. Hann smalaði okkur saman í veislu til að borða sviðalappir og söltuð svið einu sinni við mikinn fögnuð okkar strákanna og erum við staðráðnir í að gera það aftur, þó ekki væri nema til þess eins að minnast frænda okkar og þeirra skemmtilegu stunda sem við áttum með honum og fjölskyldu hans.

Elsku Hulda, Ingunn og Birna, okkar innilegustu samúðaróskir og megi guð styrkja ykkur.

Elsku Sævar, guð geymi þig.

Bergþór, Árni, Gyða og Júlíus Ingi

Við systur viljum gjarnan minnast Sævars frænda okkar og fósturbróður sem er nú falliNn frá. Sævar var um fermingu þegar hann kom inn á heimilið hjá okkur systrum í Ólafsvík og var hjá okkur allt þar til að hann kynntist henni Huldu. Hann í raun ólst upp með okkur eins og bróðir og það var alltaf sterkur strengurinn á milli okkar. Honum fylgdi léttleiki og gleði og hann var alltaf mjög blíður og góður við okkur systur. Hann vildi gera allt fyrir alla, var mjög félagslyndur enda var oft mikið fjör þegar hann var að fara á böllin, það var slegið upp balli í stofunni heima og spilaði Sævar á harmonikkuna og vinur hans Elli á munnhörpu. Við burstuðum spariskóna hans áður en hann fór á böllin og við munum vel eftir því hvað okkur fannst hann flottur og voru stoltar af því að eiga svona myndarlegan frænda. Eftir að hann flutti suður og fór að vinna sem sölumaður þá kom hann alltaf við hjá okkur systrum og færði okkar ýmsar gjafir. Sævar hjálpaði pabba mjög mikið og var mjög duglegur og iðinn á allan hátt. Eftir að við fluttum í bæinn þá var áfram alltaf mikill samgangur á milli okkar fóstursystkinanna eins og Sævar kallaði okkur, í hans augum vorum við systurnar hans af Berninni og hann sýndi það alltaf að honum þætti mjög vænt um okkur og okkar fjölskyldu og að honum stóð alls ekki á sama um okkur og okkar afkomendur. Það er mikill missir að honum fósturbróður okkar en við eigum margar góðar minningar um hann, t.d. frá veiðiferðum og ýmsum gleðistundum sem við fjölskyldurnar höfum átt saman. Það var alltaf gott að vera í návist hans því honum fylgdi svo mikil hlýja og hann var góður áheyrandi. Hann og Hulda voru höfðingjar heim að sækja og var það alltaf ljúft að eiga með þeim góðar stundir. Það var oft mikið hlegið og borðað og ekki spillti fyrir ef hann greip til harmonikkunnar. Við söknum frænda okkar og fósturbróðurs og viljum þakka honum allar ljúfar stundir og létta lund í gegnum tíðina. Að lokum vottum við Huldu og nánustu fjölskyldu og vinum okkar innilegustu samúð og biðjum guð um að blessa þau og styrkja.

Þóra og Sigurbjörg Árnadætur