Mike Handley (Magnús Reynisson), bandarískur og íslenskur ríkisborgari, lést 10. apríl 2009 í Kaliforníu. Mike var menntaður í ýmsum háskólum í Bandaríkjunum og Frakklandi. Hann starfaði lengi í Bandaríkjunum á sviði fjölmiðlunar en stofnaði og rak fyrirtækið Ensk málstöð ehf. á Íslandi á árunum 1999-2007. Mike var ókvæntur en átti son, Magnús Magnus Magnússon, f. 17. október 1987, sem stundar nú nám í leiklist og kvikmyndaviðskiptafræði í Suður-Kaliforníuháskóla (USC). Útför hans fór fram ytra.

Á föstudaginn langa, 10. apríl sl., lést í Kaliforníu vinur minn Mike Handley (Magnús Reynisson) sem stofnaði og rak fyrirtækið Ensk málstöð ehf.  á árunum 1999-2007.

Mike var bandarískur ríkisborgari en öðlaðist jafnframt íslenskt ríkisfang. Hann var menntaður í ýmsum háskólum í Bandaríkjunum og Frakklandi.

Hann starfaði um 21 árs skeið í Bandaríkjunum á sviði fjölmiðlunar, sem kynnir í sjónvarpi, í talsetningu, markaðsráðgjöf, auglýsingum, framleiðslu sjónvarpsmynda og sem fréttamaður.  Vann hann að verkefnum fyrir ýmis þekkt fyrirtæki og stofnanir, jafnvel Hvíta húsið.

Mike ferðaðist til yfir sextíu landa en settist síðan að á Íslandi. Ensk málstöð vann að þýðingum, einkum á ensku, og að því að færa enskan texta til betri vegar. Gerði Mike þar miklar kröfur til sjálfs sín og annarra. Hann orðaði það jafnvel svo að hann vildi fremur miða við Rolls-Royce en Trabant í verkum sínum. Hann fékkst jafnframt við ráðgjöf um alþjóðlega markaðssetningu og þjálfaði stjórnendur fyrirtækja og stofnana í ræðumennsku á ensku. Þótti ýmsum einstakt að hafa mann með hans fjölbreytilegu hæfileika innan seilingar hér á landi. M.a. ráðlagði hann Magnúsi Scheving varðandi nöfn á sumum persónum í Latabæ.

Mike lætur eftir sig son, Magnús Magnus Magnússon (f. 1987), sem stundar nám í leiklist og kvikmyndaviðskiptafræði. í Suður-Kaliforníuháskóla (SCL). Er hann langt kominn með það nám.

Ég kynntist Mike er hann fluttist til Íslands. Hann var hæfileikamaður sem Íslandi var fengur að. Við ráðlögðum hvor öðrum og aðstoðuðum hvor annan. Þannig á samstarf og vinátta að vera. Ég og fjölskylda mín vottum syni hans og öðrum ættingjum samúð.

Jón Ögmundur Þormóðsson