Kári Þórir Kárason fæddist í Vestmannaeyjum 9. maí 1924. Hann lést á líknardeild Landspítala í Kópavogi að morgni sunnudagsins 10. maí síðastliðins. Foreldrar hans voru Kári Sigurðsson, útvegsbóndi og formaður í Vestmannaeyjum, f. í Selshjáleigu í Vestur-Landeyjum 12. júlí 1880, d. 10. ágúst 1925, og kona hans, Þórunn Pálsdóttir, f. í Vesturhúsum í Eyjafjallasveit 12. nóvember 1879, d. 5. mars 1965. Kári Þórir var 16. í röðinni af 17 systkinum. Hinn 4. apríl 1952 kvæntist Kári Þórir Önnu J. Eiríksdóttur ljósmóður frá Dröngum, f. 19. júlí 1924, dóttur hjónanna Eiríks Guðmundssonar og Karítasar Ragnheiðar Pétursdóttur Söbeck. Kári og Anna eignuðust fimm börn: 1) Þórunn Hvasshovd, f. 1951, maki Stein Hvasshovd, sonur Kári Þórir, f. 1971, d. 2002, barnabörn Alexander Máni, Sigursteinn Snær og Aþena Sól. 2) Aðalstein Freyr, f. 1954, sonur Brynjar, f. 1985. 3) Bergþór Njáll, f. 1957, maki Guðríður Jónsdóttir, börn Daníel Pétur, f. 1993 og Linda Rún, f. 1994. 4) Berglind Anna, f. 1958, maki Sigurður H. Árnason, börn Anna Margrét, f. 1985 og Atli Gunnar, f. 1988. 5) Ragnheiður Svala, f. 1963, maki Pálmi Þ. Ívarsson, börn Bergþór Smári, f. 1989, Rósanna Dröfn, f. 1993, Viktor Jarl, f. 1996, og Helena Eik, f. 1998. Kári lauk sveins- og meistaraprófi í múraraiðn frá Iðnskólanum í Reykjavík og hélt síðan til Svíþjóðar í tæknifræðinám. Hann var múrarameistari og vann sem slíkur lengst af eða þar til þau hjónin fluttust til Noregs 1980–1982. Eftir að hann kom heim vann hann hjá Fasteignamati ríkisins. Kári var í múrarameistarafélaginu og einnig var hann virkur skáti, allt til dauðadags. Hann var líkast til í elsta skátaflokki landsins, Útlögum, er stofnaður var 1942 og er enn starfandi. Einnig var hann mikill áhugamaður um bridds, var liðtækur spilari og hitti vikulega og spilaði við briddsfélaga sína. Útför Kára verður gerð frá Digraneskirkju í dag, 15. maí, og hefst athöfnin kl. 15.

Elsku afi. Þegar maður hugsar til þín þá getur maður ekki annað en minnst allra þeirra ferðalaga og lundaferða sem við fórum í saman og hvernig þú varst alltaf hrókur alls fagnaðar hvar sem þú komst. Fólk naut þess ávallt að vera í návist þinni, hlusta á sögurnar þínar, hlæja með þér og einstaka sinnum að þér, þegar þú varst búinn að drekka koníak og gast ómögulega hætt að hnerra. Þú gafst þér alltaf tíma fyrir okkur systkinin, sagðir okkur sögur og hafðir alltaf svör við öllum okkar spurningum, hvort sem þær snérust um eitthvað gáfulegt eða um karlinn á tunglinu. Við minnumst líka alltaf þess hvað þú varst glaðlyndur og þolinmóður gagnvart okkur og svo munum við auðvitað eftir skápnum góða þar sem þú áttir alltaf eitthvað sætt fyrir okkur. Þú varst alltaf bestur og algjör snyrtipinni og það sýndi sig klárlega þegar þú fórst í sund á hverjum morgni, þá tókstu ávalt með þér ruslapoka og týndir upp rusl á leiðinni. Það var líka ósjaldan sem við komum í heimsókn til þín og þú varst með sjónvarpið á fullu, eldhúsútvarpið í botni og sast svo inni í stofu að hlustaðir á útvarp sem var þar og þannig var einnig stemmningin í bíl með þér ... alltaf allt að gerast. Við munum líka vel eftir því þegar við vorum yngri og sátum í bíl með þér og ömmu. Þú varst með aðra höndina á stýrinu, vindil í hinni og ömmu við hlið þér að leiðbeina þér milli þess sem hún ýtti við þér þegar hún hélt að þú dottaðir .... já, það var sko aldrei leiðinlegt í bíl með ykkur. Svo má auðvitað ekki gleyma því hvað þú varst alltaf í góðu formi, skokkandi um strendur Spánar, alltaf í sundi og duglegur í ræktinni, enda sást vel hvað þú varst vel á þig kominn þegar þú fórst í ljónaleikinn með okkur og sýndir okkur hver var konungur frumskógarins. Það eru fleiri minningar sem við eigum um þig og finnst ómögulegt að nefna ekki. Þegar við vorum í ferðalagi eitt sumarið og þið amma voruð á Nissan fólksbílnum, en hann átti erfitt að keyra upp brekkur, og í eitt sinn dreif hann ekki upp og þú rakst hana ömmu út úr bílnum og lést hana setjast á húddið, þannig dreif bíllinn upp. Önnur minnning tengist Broddanesi er ættin fór í hina árlegu Lundaveiði. Í seinni tíð sagðist þú ekki ætla fara út í eyju með okkur. Værir orðinn of gamall en samt varstu alltaf kominn með þeim fyrstu út í eyju með háfinn á lofti.

Elsku besti afi okkar, takk fyrir allar frábæru stundirnar sem við áttum saman, þær eru ómetanlegar og hafa gefið okkur svo mikið.

Þín barnabörn,

Anna Margrét og Atli Gunnar Sigurðarbörn.