Halldór Davíð Benediktsson fæddist á Hólmavaði í Aðaldal 9. febrúar 1929. Hann andaðsist 9. maí 2009. Foreldrar hans voru Jónasína Halldórsdóttir, f. 15. október 1895, d. 8. nóvember 1968 og Benedikt Kristjánsson, f. 25. nóvember 1885, d. 27. september 1968. Halldór Davíð kvæntist 5. júlí 1952 Matthildi Zophoníasdóttur, f. á Læknesstöðum á Langanesi 22. nóvember 1928. Börn þeirra eru: Arnþrúður Rannveig, f. 28. apríl 1950, maki Sigurður Grétar Benónýson, Ólafía Guðrún, f. 8. júní 1953, maki Páll Þór Engilbjartsson, Halldór Benedikt, f. 20. ágúst 1950, maki Linda Sigurlásdóttir, Jónasína, f. 15. október 1961, maki Einar Axel Gústavsson, Anna Soffía, f. 14. febrúar 1967, sambýliskona Hildur Þórðardóttir, og Ester, f. 17. september 1969, maki Sigurður Lárus Sigurðsson. Halldór Davíð og Matthildur eiga 17 barnabörn og 10 barnabarnabörn. Fyrst bjuggu Halldór og Matthildur á Húsavík en fluttu til Vestmannaeyja árið 1960, en fluttu aftur til Húsavíkur árið 1977. Halldór Davíð lærði bakaraiðn og vann lengi við þau störf, var kokkur til sjós í 8 ár en vann síðan í 19 ár við Laxeldisstöðina á Laxamýri og var þar til 67 ára aldurs. Halldór Davíð var jarðsungin frá Húsavíkurkirkju 16. maí, í kyrrþey.

Margs er að minnast,margt ber að þakka eru orð sem koma í huga minn við andlát móðurbróður míns Halldórs Davíðs Benediktssonar.

Fyrstu minningar mínar af Dadda eru þegar hann á sumrin kom frá Vestmannaeyjum til Húsavíkur ásamt fjölskyldu sinni. Þá var mikil eftirvænting hjá okkur hér fyrir norðan að hitta ættingja okkar sem bjuggu svona langt í burtu. Ég var svo heppin 1975 að þau buðu mér þá unglingi, að koma með þeim í Herjólfi til Vestmannaeyja, þar sem ég átti nokkra skemmtilega daga. Samband okkar Dadda varð síðan nánara eftir að þau fluttust aftur til Húsavíkur og ég hafði opnað hárgreiðslustofu, þar sem hann og Matta urðu fastir viðskiptavinir mínir.

Þá áttum við oft skemmtilegar og góðar samræður meðan ég klippti hár hans. Ekki hefði mig grunað að það yrði í síðasta skipti nú á vordögum og á ég eftir að sakna þess að fá ekki frænda minn inn á stofuna, bjóða mér góðan dag með kossi og síðan eftir klippinguna fékk ég annan koss í kveðjuskyni.

Daddi var hæfileikaríkur, hafði unun af veiðiskap, enda alinn upp á bökkum Laxár í Aðaldal, einnig var hann músíkalskur spilaði á harmonikku og er mér efst í huga er mynduð var hljómsveit á ættarmóti fyrir nokkrum árum þar sem Daddi spilaði ásamt fleirum fyrir dansi. Hann var harðduglegur og eftirsóttur vinnukraftur en fyrst og fremst var hann ljúfur og góður maður. Ég þakka Dadda frænda fyrir samfylgdina og það sem hann var mér og mínum og bið Guð að blessa minningu hans.

Hulda Jónsdóttir og fjölskylda.

Kæri afi.
Ég á þér svo margt að þakka. Skömmu áður en þú kvaddir okkur inní eilífðina bað ég Daníel litla bróður um að leysa eitt verkefni. Ég bað hann um að nefna fimm persónur sem hann gæti hugsað sér sem fyrirmyndir sínar. Hann valdi þig. Ég spurði hann í framhaldinu, hvers vegna afi? Svarið kom um hæl: nú þú veist það, vegna þess að hann er snillingur. Svona hugsum við til þín. Líka í dag, og um ókomna tíð. Ástæðan fyrir því er einföld: þú varst sá afi sem allir vildu eiga að. Þú varst hógvær, og kenndir okkur nægjusemi. Þú kenndir okkur listina að hvíla í því sem tekið er fyrir hendur hverju sinni, og að nota kímnina þegar það á við. Aðgæsla, fyrirhyggja kemur uppí hugann einnig, og að þú kenndir okkur að höndla aðstæður með auðmýkt, ákveðni og iðjusemi. Þú sýndir ávallt góðvild í garð náungans, og þannig minntir þú okkur á náungakærleikann. Þegar ég lít aftur í tímann, sé ég hvernig þú ætíð fórnaðir af þínum tíma fyrir okkur barnabörnin. Ég heyrði þig aldrei neita okkur um leik og tíma. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur, en eftir því sem ég eldist sé ég betur og betur hve mikið þú vildir af hjartanu gefa af þér. Það var þinn einlægi vilji. Taflborðið var undantekningarlaust dregið fram ef við barnabörnin vildum tefla og veiðistangirnar gerðar klárar fyrir þaul- og skemmtisetur á bryggjupollunum heima á Húsavík við hafnarbakkann einnig. Viltu í nefið? var afafrasi sem alltaf slóg í gegn. Þú varst sannur afi og þú gafst okkur öllum óteljandi gleðistundir. Sum okkar kusu að kalla þig pönnukökuafa enda sástu til þess að allir færu saddir frá þér af gómsætum pönnukökum, þess á milli sem þú dróst harmónikkuna fram. Dugnaðarforkur varstu afi. Það vita allir sem þig hafa þekkt. Iðjusemi kenndir þú okkur í gegnum verkin þín, þú framkvæmdir erfiðisverkin án höggmæla og þannig sýndir þú okkur óbeint að á morgun segir sá lati. Þú áttir mikinn auð, en sá auður var góðmennska, dugnaður og hógværð. Fimm dætur, einn sonur, barnabörn og barnabarnabörn er líka sá auður, og allir fengu að finna fyrir kærleikanum. Sjálfur varð ég svo ríkur að vera í hópi þeirra. Þakka ég Guði fyrir að hafa fengið tíma saman með þér og ömmu heima á Húsavík, seinnihluta síðasta árs. Skyndilega var ég kominn inná heimili ykkar ömmu umvafinn góðsemd og ást, þar sem ég ólst upp fyrir um 30 árum síðan. Þannig náðum við að endurheimta minningarnar afi, ræða líðandi stund og framtíðina. Þakklátur er ég fyrir það að þú fékkst að kynnast konunni minni, mínum fyrstu skrefum í starfi læknis, og ekki minnst því að nú er harmónikkan komin í fangið á ný. Sagan endurtekur sig. Sjö ára gamall, tróð ég skeflana í Urðargerði með fyrstu harmónikkuna mína. Fyrirmyndin var afi Daddi. Megi Guð gefa þeim sem syrgja afa styrk á þessum tímum. Guð veri með þér amma mín, mömmu, Ester og Önnu, Ollý, Halldóri og Addú því þið syrgið öll mikinn missi.

Þín er sárt saknað afi, og þökk sé Guði fyrir öll þau ár sem hann gaf okkur í návist þinni. Guð veri sálu þinni náðugur og miskunnsamur.

Halldór Bjarki Einarsson.