Benedikt Bjarni Kristjánsson fæddist í Reykjavík 26. september 1935. Hann lést 7. maí 2009. Benedikt Bjarni kvæntist 17. febrúar 1958 Bergþóru Gunnbjörtu Kristinsdóttur, f. 17. febrúar 1933. Börn: 1) Svava, f. 16. des. 1954, gift Guðmundi Birgi Salómonssyni, þau eiga þrjú börn og þrjú tengdabörn, barnabörn eru þrjú og eitt á leiðinni. 2) Ágúst, f. 10. maí 1956, kvæntur Sigríði Margréti Sigurðardóttur, þau eiga þrjú börn og tvö tengdabörn og eitt barnabarn. 3) Gréta, f. 2. des. 1958, gift Kristjáni Knútssyni, þau eiga fimm syni. 4) Ásta, f. 4 maí 1960, gift Sigmari Arnari Steingrímssyni, þau eiga þrjú börn og tvö tengdabörn. Benedikt Bjarni var bifreiðarstjóri hjá SVR og Bifreiðastöðinni Bæjarleiðum. Útför Benedikts Bjarna fór fram frá Árbæjarkirkju 18. maí, í kyrrþey.

Sunnudaginn 3. maí fékk ég þá erfiðustu hringingu sem ég hef fengið, afi þinn er orðinn það veikur að hann mun að öllum líkindum ekki ná sé aftur. Þetta er eitthvað sem maður átti ekki von á því að hann afi var sá mesti baráttumaður sem ég hef þekkt, en fimmtudaginn 7. maí gafst hann upp á veikindum sínum. Afi er sá maður sem alltaf kom manni til að hlæja ef manni leið illa og var ég ekki nema nokkurra ára þegar ég var grátandi út á ganginum í Þykkvabænum þegar afi kom inn og fór að syngja fyrir mig hver var að grenja og eftir smá tíma var ég skellihlæjandi í fanginu á honum. Og þegar ég ætlaði í skrúðgöngu sem ekki var á dagskrá þá var það auðvitað hann sem kom og tók mig upp í bílinn og fór með mig út að borða á sumardaginn fyrsta þegar ég var 6 ára gömul, og fór ég með honum og ömmu alla þá daga þangað til ég varð 18 ára. Hann hafði einstakt lag á því að láta fólk hreyfa sig vel, til að mynda þegar hann bauð mér á KFC, en þá var staðurinn bara í Hafnafirði, og til þess að fá að borða varð ég að labba þangað með honum, ég hef aldrei verið eins þreytt, en þetta var mjög skemmtileg ferð. Afi var sá sem kenndi manni allt sem maður þurfti um landafræði og held ég að hann hafi þekkt allt okkar land eins og lófann á sér, og umhverfisvernd var honum mikið kappsmál og eins gott að við gengjum vel um landið okkar. Þegar ég kynntist manninum mínum tókstu hann strax sem eitt af þínum börnum og urðuð þið mjög góðir vinir strax. Það að dóttir mín hafi fengið að njóta þess að vera með þér í 5 ár er mér mjög mikilvægt og ekki voru fáar sundferðirnar sem við fórum og þú naust þín að horfa á litla kafbátinn þinn þar, og á jólunum þegar ekki mátti á milli sjá hvort þú eða Svava Björg væri spenntari að opna pakkana. Þú hafðir alltaf tíma til þess að hjálpa öllum þínum afkomendum og fylgifiskum ef einhver þurfti á að halda og alltaf var hægt að treysta á að enginn væri skilinn útundan.

Þín verður sárt saknað á mínu heimili og munum við passa að bumbubúi fái að heyra allt um það hver þú varst. Kveð ég þig með bæninni sem Svava Björg fer með áður en hún fer að sofa til að minna langafa á að passa sig og fylgjast með hvað hún er að gera.

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum).

Bergþóra Guðmundsdóttir.