Hallgrímur H. Einarsson fæddist 30. júní 1942. Hann lést á heimili sínu hinn 10. maí síðastliðinn. Foreldrar hans voru Guðfinna Hallgrímsdóttir og Einar Sigurðsson. Eiginkona Hallgríms er Kristbjörg Vilhjálmsdóttir. Börn þeirra eru: 1) Vilhjálmur, kvæntur Ingu Kolbrúnu Hjartardóttur, þau eiga tvö börn, Töru Margréti, í sambúð með Jóhannesi Helgasyni og Arnar Inga. Vilhjálmur átti fyrir hjónaband Söndru, sem á soninn Birki. 2) Sigríður Rut, í sambúð með Páli Arnórssyni, þau eiga eitt barn saman, Andreu. Sigríður átti fyrir soninn Andra Má. Hallgrímur átti fyrir dótturina Önnu Sigurlínu og soninn Hauk Davíð. Hallgrímur verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í dag, 15. maí, kl. 13.

Nú er pabbi farinn frá okkur og skilur eftir stórt tómarúm sem samt sem áður er fullt af dásamlegum minningum. Það er erfitt að setja saman í fá orð það sem ég og fjölskylda mín höfum átt með honum í gegnum tíðina, enda minningabrunnurinn stór.

Við fengum báðir einstakt tækifæri til að kynnast hver öðrum. Fyrir utan það að vera sonur hans, þá unnum við saman hjá fjölskyldufyrirtæki okkar, Bílrúðunni, frá því að ég var aðeins 18 ára gamall, allt þar til 1997, en þá höfðum við unnið saman í hvorki meira né minna en 16 ár. Eftir að leiðir okkar skildu hvað vinnustað varðar þá þjöppuðum við okkur saman fjölskyldulega og nutum yndislegra samvista eftir það, oftast í Barðavoginum þar sem hann og mamma höfðu búið sér til óaðfinnanlega paradís.

Það er nú ekki hægt að minnast á pabba nema að rifja upp að hann var alls ekki latur til verka, ekkert verk var of stórt fyrir hann eða fyrirhafnarmikið og oftast þurfti að ljúka þeim á undraskömmum tíma. Þetta sást vel á hreiðrinu þeirra í Barðavoginum sem hann nánast reif alveg niður þannig að lítið stóð eftir nema skelin af húsinu og hann endurbyggði það nákæmlega eins og hann og mamma vildu hafa það. Hann lýsti því reyndar yfir við það tækifæri að hann ætlaði sér að dunda sér við uppbygginguna í 10 ár eða svo, en við sem þekktum hann vissum betur. Innan skamms var húsið fullt út úr dyrum af iðnaðarmönnum og fjölskyldumeðlimum og húsið stóð fullbúið fáum augnablikum síðar.

Pabbi var einstaklega hjálpsamur þegar kom að því að hjálpa til við verklegar framkvæmdir hjá öðrum. Hann hefur náttúrulega hjálpað okkur systur minni og fjölskyldum oftar en einu sinni við að koma okkur upp húsnæði og mig grunar að hann eigi heiðurinn af ófáum verkum víðsvegar um Barðavoginn. Hann sparaði sér aldrei neina fyrirhöfn og fór oft ótroðnar slóðir í þeim efnum. Hann kenndi mér til verka og nú er ég alls óhræddur við að taka hús í nefið eins og hann gerði.

Pabbi var nú ekki mikið fyrir að segja sögur af sjálfum sér. En stundum var sá gállin á honum að hann var að rifja eitthvað upp með sjálfum sér og deildi því þá með okkur hinum. Þannig var maður að kynnast honum smám saman alla lífsleiðina.

Pabbi var eins og bestu pabbar eiga að vera. Þrátt fyrir að vera dálítið dulur þá var hann alltaf til staðar þegar á bjátaði og hughreystingar var þörf. Fyrir honum voru hlutirnir aldrei sérstaklega flóknir og eftir samveru með honum þá leið manni ávallt betur.

Eftir að pabbi hætti að vinna sneri hann sér í auknum mæli að því að njóta lífsins í Barðavoginum. Hann fór að gefa fólki í kring um sig frekari gaum og það var notalegt að heimsækja mömmu og pabba í Barðavoginn. Síðustu ár hafa mamma og pabbi verið okkar bestu vinir og við átt margar frábærar stundir saman. Þar var oft mikið brallað, mikið um veisluhöld enda þau hjónin þekkt fyrir mikla gestrisni.

Ferðalög erlendis voru eitt af helstu áhugamálunum og ferðuðust þau víða. En þau áttu sér alltaf sinn uppáhaldsstað, Kanaríeyjar. Þau ferðuðust reglulega þangað og fórum við fjölskyldan með þeim í nokkur skipti. Síðasta ferðin var farin í mars í fyrra og þá tókum við fyrst eftir því hvað heilsu pabba var farið að hraka mikið. Síðan þá hrakaði heilsu hans hægt og bítandi þar til um síðstliðin áramót þegar hann fór á lokastig með sinn hjartasjúkdóm sem hafði hrjáð hann frá fertugsaldri.

Síðustu orð pabba voru jæja börnin mín, skömmu áður en hann dó. Pabbi dó á sunnudaginn, heima á uppáhalds staðnum sínum, umvafinn uppáhalds fólkinu sínu þegar hann sofnaði í hinsta sinn. Er hægt að hafa það betra?

Pabbi, þín er sárt saknað og ég er fullur þækklætis fyrir þann tíma sem við áttum saman sem feðgar, vinir og vinnufélagar.

Vilhjálmur Hallgrímsson.

Í dag kveðjum við kæran vin okkar Hallgrím Einarsson. Á þessum erfiðu tímamótum í lífinu leita ýmsar minningar á hugann, því víst er margs að minnast eftir nærri hálfrar aldar kunningsskap og vináttu.

Halli, eins og við kölluðum hann alltaf í okkar hópi, var einstakur dugnaðarforkur og laghentur með eindæmum, engan þekktum við sem gat gengið til hvaða verks sem var og leyst þau af þvílíkum hagleik að hver lærður iðnaðarmaður væri fullsæmdur af.

Ýmsar góðar minningar eigum við frá reglubundnum matarveislum Evudætra og Adamssona til margra ára og ferðalögum sem við fórum í og má þar sérstaklega nefna ferðina sem við fórum til Flórída og siglinguna um Karabískahafið haustið 2001.

Halli var traustur vinur vina sinna og ávallt reiðubúinn að rétta hjálparhönd þegar á þurfti að halda.

Nú er hann horfinn á braut að sinni, eftir löng og afar erfið veikindi sem hann tókst á við af miklu æðruleysi ásamt konu sinni, sem var hans stoð og stytta í þessum erfiðleikum.

Ekki er vafi á að það var erfitt hlutskipti fyrir mann sem var jafn athafnasamur og Halli og helst aldrei féll verk úr hendi, að verða smátt og smátt ófær til þeirra verka sem áður voru honum svo auðveld og veittu honum svo mikla ánægju, en hann bar gæfu til að sætta sig við hlutskipti sitt og var sáttur við að nú væri komið að endalokum í þessu lífi.

Við kveðjum nú vin okkar með söknuði en jafnframt þakklæti fyrir samfylgdina og vináttuna og óskum honum velfarnaðar á nýjum sviðum, í fullvissu um að við eigum eftir að hittast á ný.

Kæra Krissa og fjölskylda, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan guð að leiða ykkur og styrkja.

Kristín og Gretar, Arnbjörg og Sveinbjörn.