Elísabet Hjördís Haraldsdóttir var fædd 18. maí 1946 á bænum Bala við Barðavog í Reykjavík. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans sunnudaginn 13. september síðastliðinn. Foreldrar Hjördísar voru Sigurbjörg Hjartardóttir, húsmóðir, f. 30.1.1910 d. 17.4. 1972 og Haraldur Loftsson, beykir, f. 3.8.1893 d. 13.6.1965. Þau bjuggu á Kleppsmýrarvegi 2 í Reykjavík. Systkini Hjördísar eru 1) Jón Kristinn f. 10.6. 1947. Maki Guðný Alfreðsdóttir f. 17.1.1948 börn þeirra eru a) Sigríður Lovísa f. 27.2. 1968 b) Freydís og Freyr f. 19.09.1971. 2) Jónína Guðrún Haraldsdóttir f. 24.5.1949 börn hennar eru: a) Haraldur Þór Egilsson f. 29.10.1972. b) Ninja Sif Jónínudóttir f. 25.2. 1980. 3) Halla Vilborg Haraldsdóttir f. 3.9.1951. Systkini Hjördísar samfeðra eru: 1) Sigríður Lovísa Haraldsdóttir f. 15.9. 1916 d. 12.9.2001. Maki Gísli Ragnar Sigurðsson f. 16. 9. 1916 d. 17.5. 1995. 2) Jón Haraldsson f. 12.8. 1922 d. 29.7. 1942. 3) Guðrún Haraldsdóttir f. 4. 7. 1923. Maki Karl Óttar Guðbrandsson f. 16.10. 1919 d. 22.2. 1979. Börn þeirra eru: Guðbrandur Sævar f. 26.12. 1949, Haraldur Rúnar f. 5.10. 1954 og Guðrún Jóna f. 17.11. 1957. Hjördís giftist Sigurði Inga Tómassyni, vélstjóra, f. 1. 3. 1945. Börn þeirra eru 1) Orri, viðskiptafræðingur, f. 3.3.1979, maki Saga Ýrr Jónsdóttir f. 25.11.1980, lögfræðingur. 2) Hildur, háskólanemi f. 13.6.1984 Börn Sigurðar af fyrra hjónabandi eru 1) Agnar Þór f. 22.1. 1964 Barn: Kristín Fanney f. 5.12. 1982. 2) Unnur f. 14.7. 1967. Maki Stefán Þórir Birgisson f. 2.8.1965. Starfsferill. Að loknu grunnskólanámi hóf Hjördís störf í Iðunnar Apóteki og vann einnig um hríð hjá Félagi farstöðvaeigenda. Lengstan hluta starfsævinnar rak hún Rammamiðstöðina ásamt eiginmanni sínum. Síðustu árin vann Hjördís á 101 Hótel. Útförin fer fram frá Dómkirkjunni fimmtudaginn 24. september kl. 15.

Mig langar til að minnast samverkakonu minnar Hjöddu úr Lyfjabúðinni Iðunn. Ég hóf nám í Lyfjatæknaskólanum haustið 1974 og verklega hlutann átti ég að taka í Iðunn á Laugavegi. Þarna starfaði alveg einvalalið lyfjafræðinga og annars starfsfólks. Á þessum tíma var allt búið til í apótekunum, stungulyf, töflur, smyrsl og magamixturan góða, við hlógum nú oft mikið þegar við vorum að gera hana inn í labra, tækjabúnaðurinn var orðinn svolítið þreyttur.
Iðunn var annað tveggja fyrirtækja sem flutti inn Elisabet Arden snyrtivörur og glæsilegri leiðbeinanda var ekki hægt að fá en Hjöddu til að kenna sér á þetta dótarí, hún var án efa ein glæsilegasta kona Reykjavíkur, alltaf svo flott klædd og vel til höfð, gáfuð og skemmtileg.
Hópurinn sem þarna starfaði á þessum árum var mjög samheldinn og voru haldnar skemmtilegar grillveislur á Kópavogsbrautinni hjá Báru og ef mig misminnir ekki þá var búið til áfengi úr spíra og essensum og serverað eftir stórhreingerningu í Lyfjabúðinni, ég á alla vegana skemmtilegar myndir af svoleiðis uppákomu hvað svo sem var í glösunum hjá okkur.
Svo fór ég að læra ljósmyndun og þá var Hjödda komin með Rammamiðstöðina inn í Sóltúni og þurfi ég oft að versla við hana karton undir myndirnar mínar.
Við vorum alltaf að hittast, þegar hún var í Mími og bara út um allt, alltaf brosandi og nóg að gera, það er mikill missir af þessari konu.
Ég vil votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Edda Hersir Sigurjónsdóttir.