Margrét Albertsdóttir fæddist í Hafnarfirði 20. maí 1926. Hún lést 19. október 2012. Foreldrar hennar voru Albert Erlendsson verkamaður, f. 8. maí 1896, frá Ketilvöllum í Laugardal, og María Ingibjörg Þórðardóttir, f. 28. nóvember 1894, frá Kröggólfsstöðum í Ölfusi. Margrét var elst 5 systra, hinar eru Ólafía, f. 9.5. 1930, Erla, f. 27.7. 1932, d. 28.12. 1991, Kristín Árný, f. 2.1. 1941, og Ingveldur, f. 11.5. 1943. Margrét giftist 31. desember árið 1950 Steingrími Benediktssyni húsasmíðameistara, f. 28.5. 1929. Foreldrar hans voru Benedikt Helgason bóndi, f. 2.10. 1877, d. 28.4. 1943, og Guðrún Þorláksdóttir, f. 11.12. 1886, d. 18.4. 1973. Margrét og Steingrímur eignuðust fimm börn: 1) Albert Már, f. 6.4. 1949, maki Ester Jóhannsdóttir, saman eiga þau Maríu Ósk, f. 22.5. 1978, maki Hermundur Sigurðsson, dætur þeirra eru Aníta Ester og Elísa Ósk, sonur Alberts af fyrra sambandi er Jón Vífill, f. 3.3. 1973, kvæntur Guðrúnu Fanneyju Júlíusdóttur, börn þeirra eru Styrmir Davíð, Elma Lilja og Guðrún Friðrikka. 2) Benedikt Rúnar, f. 25.5. 1950, maki Kolbrún Sigurðardóttir, þau eiga fimm dætur, Margrét, f. 4.5. 1971, maki Pétur Hafliðason, saman eiga þau Benedikt og Snædísi Björk, auk þess á Pétur son frá fyrra sambandi Hafliða Þór. Jenný Ýrr, f. 30.4. 1974, maki Ágúst Þórhallsson, dóttir þeirra er Kolbrún Elma. Hlín, f. 6.5. 1981, maki Gísli Þór Jónsson, börn þeirra eru Flóki og Steinunn. Guðrún, f. 13.3. 1984, maki Steinn Sigurðsson, dóttir þeirra er Hrefna Líf. Selma Benediktsdóttir, f. 23.6. 1988, í sambúð með Eiríki Magnússyni. 3) Sigrún, f. 25.1. 1952, maki Ólafur S. Vilhjálmsson þau eiga þrjú börn, Steingrím Þór, f. 10.10. 1974, Berglindi, f. 4.6. 1977, og Margréti, f. 27.5. 1985. 4) Steingrímur Grétar, f. 14.11. 1954, maki Kristín Þ. Þórarinsdóttir, börn Steingríms af fyrra hjónabandi eru Jóhanna Sigríður, f. 4.10. 1976 , dóttir hennar er Kristín Ösp. Hjörtur Snær, f. 29.11. 1980, dóttir hans er Sóley Birta. Yngsti sonur Steingríms er svo Garðar Hrafn, f. 15.7. 1986. Auk þess á Kristín Þórarin Ragnar, Sævar og Stellu Sólveigu frá fyrra hjónabandi. 5) Björk, f. 23.11. 1962, maki Gústaf Bjarki Ólafsson, þau eiga þrjú börn, Örnu Rún, f. 1.4. 1987, í sambúð með Axel Kaaber, Ólaf, f. 27.3. 1989, og Steingrím, f. 17.3. 1995. Margrét ólst upp á Selvogsgötu 10 í Hafnarfirði. Steingrímur og Margrét bjuggu allan sinn hjúskap í Hafnarfirði og var Margrét heimavinnandi húsmóðir lengst af, eða þar til barnahópurinn var uppkominn. Margrét verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 26. október 2012, og hefst athöfnin kl. 15.

Mig langar í örfáum orðum að minnast Margrétar tengdamóður minnar eða Möggu eins og hún var alltaf kölluð. Magga var ein af þessum dugnaðarkonum sem fæddust á fyrri hluta síðustu aldar. Hún fæddist í Hafnarfirði, ólst þar upp, og ef frá eru talin nokkur ár sem hún bjó í Reykjavík sem ung kona, bjó hún ekki annars staðar allt til dánardags. Magga hlaut ekki mikla menntun frekar en margir jafnaldrar hennar, enda varð hún að byrja að vinna snemma. Hún hefði þó eflaust ekki haft mikið fyrir því að læra enda gáfuð og með afbrigðum minnisgóð.

Kynni okkar Möggu hófust fyrir rúmum 30 árum síðan þegar ég kynntist Björk dóttur hennar og fór að venja komur mínar að heimili fjölskyldunnar á Smyrló.

Magga gekk alltaf ákveðið til verks og ég man það eins og það hafi gerst í gær, hvernig hún í þessari fyrstu heimsókn minni til kærustunnar, spurði mig glettnislega um allt mögulegt milli himins og jarðar. Tilgangurinn var jú auðvitað að reyna að komast að því hvort að ég væri nógu góður fyrir dóttur hennar. Ég virðist hafa svarað nógu vel fyrir mig, að minnsta kosti náðum við Magga fljótlega vel saman og fór vel á með okkur alla tíð síðan. Það er ekki ónýtt að hafa átt svona góða tengdamóður og þessir sígildu tengdamömmu-brandarar áttu engan veginn við í mínu tilfelli, svo mikið er víst.

Fyrir mig Reykvíkinginn var það líka ómetanlegt að geta komið að máli við hana og fræðst um innfædda Gaflara og aðra Hafnfirðinga þegar ég hóf störf í firðinum.

Eins og allir vita sem þekktu hana Möggu þá var hún fyrirmyndar húsmóðir og fannst manni oft á tíðum að maður væri ofdekraður tengdasonur, þegar hún bar á borð fyrir mann kvöldmatinn alveg sama hversu seint maður kom úr vinnunni, er ég bjó hjá tengdaforeldrum mínum um tíma.

Við hjónin urðum þeirrar ánægju aðnjótandi að fá Möggu og Steina í heimsókn til okkar á námsárunum þegar við bjuggum í Danmörku og var virkilega gaman að ferðast með þeim þar og margt nýtt sem fyrir augu bar. Henni fannst síðar einnig mjög gaman af því að ferðast í sólina með manni sínum. Eitt ferðalag hennar stendur þó upp úr í mínum huga en þá kom Magga ein til Danmerkur, það var í fyrsta og eina sinn sem hún fór ein til útlanda. Þetta var árið 1989 þegar Ólafur eldri sonur okkar Bjarkar fæddist. Ástæðan var sú að ég var nýfarinn í námsferð til Tyrklands þegar hann fæddist og ekki væntanlegur heim fyrr en hálfum mánuði síðar. Henni fannst hún þurfa að vera hjá dótturinni og barnabörnunum þar sem hún gat orðið að liði og lét það ekki stoppa sig þótt að aflokinni flugferð til Kaupmannahafnar tæki við lestarferð til Horsens á Jótlandi.

Þetta er bara eitt lítið dæmi um trygglyndi hennar og hversu mjög hún bar hag fjölskyldunnar fyrir brjósti, en velferð barna sinna, barnabarna og langömmubarna var henni efst í huga. Hún fylgdist vel með öllu alveg framundir það síðasta, ekki síst öllu sem snerti fjölskylduna og mundi vel eftir afmælum og öðrum merkisdögum.

Þau hjónin bjuggu sér sitt annað heimili, sumarbústaðinn Röðul í Hraunborgum. Heimsóknir okkar þangað voru margar í gegnum tíðina, á árum áður oft að afloknum reiðtúr í Grímsnesinu og var þá oft gott að fá að gista. Börnin okkar eiga margar góðar minningar þaðan, en þau fengu oft að vera með ömmu og afa í sveitinni. Magga var dugleg að finna upp á einhverju skemmtilegu fyrir krakkana og má þar nefna tombóluferðir á Minni-Borg, sundferðir og fleira skemmtilegt. Það voru því ætíð glaðir krakkar sem komu heim og höfðu frá mörgu skemmtilegu að segja frá dvölinni hjá ömmu og afa.

Magga hélt vel utanum stórfjölskylduna og skapaði margar hefðir. Ein sú dýrmætasta var að hittast um hverja páska í bústaðum og snæða saman páskalambið, fara í gönguferðir og gera ýmislegt skemmtilegt saman, að ógleymdu jólaboðinu. Það er ekki lítið mál að halda slíkum hefðum við í svona stórri fjölskyldu.

Nú er komið að leiðarlokum. Ég þakka elsku Möggu fyrir hlýjuna og gleðina sem hún veitti okkur fjölskyldunni og bið góðan Guð að geyma hana.

Eftir lifir minningin um einstaka konu.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Gústaf Bjarki Ólafsson.