Tryggvi Ólafsson fæddist á Vatnsskarðshólum í Mýrdal 7. desember 1924. Hann andaðist á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Hjallatúni í Vík 5. mars 2013. Tryggvi var sonur hjónanna Sigurbjartar Sigríðar Jónsdóttur, f. 3. janúar 1894 í Reynisholti í Mýrdal, d. 18. júní 1979 á Skeiðflöt, og Ólafs Grímssonar, f. 24. febrúar 1897 á Skeiðflöt, d. 13. nóvember 1943 á Skeiðflöt í Mýrdal. Bróðir Tryggva er Eyþór, f. á Skeiðflöt 20. janúar 1936. Tryggvi ólst upp á Skeiðflöt og hlaut hefðbundna barnaskólamenntun ásamt veganesti góðra foreldra sinna. Hann starfaði alla tíð við búið á Skeiðflöt, fyrst með foreldrum sínum, en við fráfall föður síns árið 1943 tók hann við búforræði ásamt móður sinni og var síðar í félagsbúi með Eyþóri bróður sínum og fjölskyldu hans. Einnig kom hann að sjósókn, ásamt mörgum tilfallandi samvinnuverkefnum eins og tíðkaðist til sveita. Tryggvi hafði mikinn áhuga á búskap og þótti vænt um sinn búpening sem hann sinnti jafnan af alúð. Hann var verklaginn og vinnusamur og féll sjaldan verk úr hendi. Einnig var hann laghentur þegar kom að viðgerðum og smíðum og nýtti vel það efni sem til var hverju sinni. Tryggvi var mikill náttúruunnandi og sunnudagarnir oftast notaðir til ferðalaga með börnin á heimilinu. Hann var veðurglöggur og spáði mikið í veður og tíðarfar. Síðustu æviár sín dvaldist hann á Hjallatúni í Vík. Tryggvi verður jarðsunginn frá Skeiðflatarkirkju í dag, 16. mars 2013, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það er aðfangadagskvöld, pakkarnir undir trénu eru heillandi en samt er mesti glansinn á stórum brúnum strigapokum.  Innihaldið er eitthvað sem Tryggvi frændi var búinn að vera að bauka við í kjallaranum á kvöldin og reynist vera forláta heimasmíðaðir sleðar.  Mikil var eftirvæntingin, morguninn eftir, að bruna niður snævi þaktar brekkurnar við bæinn, okkur krökkunum til mikillar gleði.

Núna, áratugum seinna þegar við kveðjum okkar kæra föðurbróður er erfitt að koma að í fáum orðum öllum þeim góðu minningum sem lifa með okkur.

Rekandi félagsbú með Eyþóri og Huldu foreldrum okkar,  seinna með Eyþóri og Sæunni, og búandi undir sama þaki má segja að Tryggvi hafi frekar verið auka pabbi heldur en frændi.  Hlutverk sem hann sinnti af alúð og gagnkvæmri væntumþykju.

Ekki vorum við há í loftinu þegar við fórum að fylgja í fjós og fjárhús og með árunum til allra þeirra verka er búinu fylgdu.  Ennþá búum við að þeim lærdómi og gjöfult veganestið mun fylgja okkur alla tíð.

Á vorin í sauðburði var Tryggvi í essinu sínu, og voru það oft langir vinnudagar hjá þeim bræðrum. Tryggvi hafði yndi af því að vasast í sauðfé og þekkti yfirleitt allar sínar kindur og það var alltaf jafn gaman að sjá hann tölta út á túnið, kalla, og hjörðin kom hlaupandi til hans og fylgdi honum heim í fjárhús.

Á sumrin voru dagarnir stundum lengi að líða þegar við röltum um túnið að raka dreifar, eitthvað sem okkur þótti tilgangslítið þá, en var einmitt gott dæmi um nýtni og hirðusemi þeirra bræðra að enginn tugga mátti fara til spillis eða daga uppi á túnunum.

Eftir á að hyggja var frítíminn þó nægur og okkar hagur með besta móti.

Gaman gat svo verið að fylgjast með þeim vinum stundum mæla sér þvert um geð, eingöngu til að atast í hinum eða einfaldlega vera sammála um að vera ósammála í ákvarðanatöku eða málefnum líðandi stundar.

Rófurækt var mikil á Skeiðflöt og haustin fóru í upptöku og setu yfir himinháum rófubingjum.  Þar var mikið skrafað og margar sögur sagðar, bæði um liðna tíma eða uppátækin hjá nágrönnunum.

Þetta skilaði svo góðum vasapening til okkar krakkana sem þótti mikill fengur.

Alltaf biðum við svo eftir alvöru frosti þegar vetraði því þá biðu nýskerptir skautarnir á snaganum.  Tryggvi var þrælfimur á skautum og fór reglulega með okkur í ferðir á vötnin í nágrenninu.  Einn veturinn smíðaði hann svo skautasleða, setti á hann segl og tók Dyrhólaósinn á meiri ferðinni eða notaði til að ferja yngstu fæturna heim þegar þreytan náði yfirhöndinni.

Þótt áhugi Tryggva væri flestum stundum við bústörfin, þá gaf hann sér samt tíma til að sinna öðrum hugarefnum.  Spilamennska, lestur góðra bóka, ferðalög og útivist.  Hann smíðaði allskyns dót handa okkur krökkunum ásamt ýmsum öðrum hlutum sem að gagni máttu koma við bústörfin, útihús og kofa sem risu stundum meir af áhuga heldur en þörf.  Enda kölluðum við þá jafnan Tryggvaskála.

Ævintýralegasti smíðisgripur Tryggva var vafalaust fleyta, eða tvíbytna, sem hann smíðaði úr timbri og tómum plastbrúsum undan maurasýru. Fleki þessi, sem mönnum þótti æði glannalegur, var sjósettur í fyrstu á lóninu fyrir neðan bæinn, en síðan á Dyrhólaós og hafði þá verið keyptur utanborðsmótor á græjuna. Ekki var þetta látið duga, heldur var næsta skref að fara út á sjó og róa til fiskjar. Reyndist þetta hin mesta happafleyta en spaugilegt þótti þeim bræðrum þegar togari úr Vestmannaeyjum taldi þá vera skipbrotsmenn og gaf þeim svo fullfermi af fiski með því skilyrði að þeir drifu sig í land.  Þessi ævintýri kyntu svo undir sjósóttinni að fljótlega festu þeir bræður kaup á plastbát sem einnig var notaður í sjóróðra frá sandströndinni upp á gamla móðinn eða til skemmtisiglinga þeim og okkur til ómældrar ánægju.

Það má með sanni segja að ævintýraþrá og uppátækjasemi Ólafs afa hafi gengið í erfðir.

Eitt af því sem stendur upp úr í minningunni um Tryggva eru allir þeir bíltúrar og ferðalög sem hann fór með okkur systkinin ásamt þeim krökkum sem voru í sveit á Skeiðflöt á hverjum tíma. Farkosturinn var gamli Gipsy og var oft þétt setinn bekkurinn. Þótt oftast væri ferðast innan sveitar, þá tókst yfirleitt að uppgötva eitthvað nýtt í hvert skipti, hvort sem það var niðri í fjöru eða uppi á hæstu fjallatindum. Ung að árum höfðum við klifið flest markverðustu fjöllin í Mýrdalnum og kynnst allri þeirri náttúru sem sveitin hefur upp á að bjóða.

Árstíðarferðir á fýlaveiðar eða í berjamó voru svo fastir liðir, bæði af áhuga og elju að draga björg í bú.

Eftir stendur minning um hógværan öðling sem var svo stór partur af okkar uppvexti og lífi, partur sem að þú, elsku Tryggvi, sinntir svo vel, að það verður seint fullþakkað.

Sigurlaug Guðmundsdóttir, Sigurður Ólafur Eyþórsson, Halldór Ingi Eyþórsson, Reynir Örn Eyþórsson.