Rebekka Helga Guðmann fæddist á Akureyri 22. desember 1928. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 8. júní 2015.
Foreldrar hennar voru Jón Gíslason Guðmann, f. 14.11. 1896, d. 3.9. 1958, og Guðlaug Ísaksdóttir Guðmann, f. 9.3. 1899, d. 2.11. 1968. Bræður Rebekku eru Ísak, f. 16.12. 1927, og Gísli, f. 16.12. 1927, d. 9.6. 1980. Fósturbræður þeirra eru Kristján Ísak Valdimarsson, f. 26.9. 2011, og Elvar Þór Valdimarsson, f. 17.3. 1941, d. 29.8. 2011. Rebekka giftist 14.11. 1953 eftirlifandi eiginmanni sínum, Hermanni Sigtryggssyni, f. 15.1. 1931. Dætur þeirra eru: 1) Anna Rebekka, f. 16.8. 1954, gift Björgvini Steindórssyni, f. 25.12. 1954. Börn þeirra eru: a) Birkir Hermann, f. 22.4. 1982, í sambúð með Ágústu Sveinsdóttur, f. 27.2. 1985. Dætur þeirra eru Freyja Dögg, f. 20.1. 2006, Kristjana Birta, f. 1.9. 2011, og Aníta Bríet, f. 3.9. 2013. b) María Björk, f. 2.9. 1986, í sambúð með Sverri Karli Ellertssyni, f. 8.10. 1986. 2) Edda, f. 28.9. 1960, gift Andrew Kerr, f. 17.3. 1959. Dóttir þeirra er Rebecca Elizabeth.
Eftir einn vetur í Menntaskólanum á Akureyri fór Rebekka í Húsmæðraskólann á Akureyri og lauk þar prófi. Síðan fór hún til Kaupmannahafnar og útskrifaðist þar sem sníða- og kjólameistari. Hún vann við saumaskap í fjöldamörg ár. Var ritari í Glerárskóla, kenndi á saumavélar og gegndi ýmsum félagsmála- og trúnaðarstörfum, m.a. í Kvenfélaginu Hlíf, KA og ÍBA. Var í Inner Wheel og forseti eitt kjörtímabil.
Útför Rebekku fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 18. júní 2015, kl. 13.30.

Hún elskuleg móðir mín er dáin og lífið verður aldrei samt aftur, en ég verð ævilangt þakklát fyrir að haf átt hana að í nær 55 ár.

Mamma var alin upp við forréttindi sem ekki allir nutu af hennar kynslóð. Hún kom úr stórri fjölskyldu sem var metnaðarfull og framsýn og þar var menntun í fyrirrúmi.

Mamma fór ung til Kaupmannahafnar og lærði hönnun og kjólasaum sem hún starfaði síðan við til margra ára. Ein af fyrstu minningum mínum er þegar ég sat á saumaborðinu hjá henni, hlustaði á Heiðdísi Norðfjörð lesa morgunstund barnanna og vann við að tína títuprjónana úr flíkunum sem mamma var að sauma. Fyrir henni var þetta eins og að drekka vatn, hún hristi hverja flíkina af annarri fram úr erminni og þær voru hrein snilld.

Mamma var ákaflega smámunasöm og vandvirk þegar að saumaskap kom og þegar ég fór að prófa mig áfram um níu ára aldur var ég óspart látin rekja upp og laga, en það var ekki fyrr en löngu seinna að ég kunni að meta það og þakkaði henni fyrir.

Mamma lagði mikið upp úr góðum fatnaði og hafði ákaflega gaman af að fylgjast með tískunni og var líka mjög litaglöð. Á seinni árum verslaði ég flest föt fyrir hana varð þá að skoða saumaskapinn og passa að flíkin væri vönduð og í björtum litum.

Mamma var mikill dugnaðarforkur og féll sjaldan verk úr hendi en auk vinnu sá hún um heimilið með glæsibrag. Hún var húsmæðraskólagengin og kunni vel til verka. Þetta kom sér vel þegar foreldrar mínir ráku Hótel Varðborg en þá sá hún um veitingarnar.

Heima fyrir var hollur matur í fyrirrúmi og þótt hún væri þekktust fyrir hnallþórur og hreint guðdómlegar sósur og súpur, þá erum við systur aldar upp á hafragraut, ávöxtum og grænmeti.

Pabbi átti það til að hringja heim og spyrja hvort hann gæti komið heim með nokkra gest í mat og þó oft væri fyrirvarinn lítill þá var matarborðið  alltaf hlaðið af kræsingum og gómsætum réttum. Við systur lærðum fljótt að bera á borð og sinna gestum, sem mér fannst ákaflega spennandi, sérstaklega þegar um útlendinga var að ræða.

Heimilið var gestkvæmt og hvort sem það voru ættingjar, vinir aða heilu íþróttahóparnir, þá var alltaf hægt að hola öllum niður. Ég man þegar einhver íþróttahópur var veðurtepptur í bænum og allir enduðu á flatsæng í stofunni heima í Víðimýri og að sjálfsögðu var búið að smyrja brauð fyrir alla í morgunmat.

Mamma las allar uppskriftir sem hún komst yfir og var að klippa þær út úr blöðum alveg fram á síðasta dag.

Það voru ófáar vinnustundirnar sem mamma gaf í félagsmál bæjarins. Hún aðstoðaði pabba í sínu starfi og áhugamálum, hvort sem það var við matargerð, undirbúning viðburða, vélritun bóka og bæklinga eða bara að vera tilbúin heima með allt sem þurfti svo að hann gæti sinnt starfi sínu sem best. Ósjaldan var farangri, mat og dætrunum pakkað inn í bíl og haldið af stað  á skíðamót og aðra íþróttaviðburði út um allt land.

Mamma starfaði líka í Inner Wheel klúbb Rotary og gegndi meðal annars starfi forseta í eitt ár. Mamma var lengi í barnaverndunarnefnd Akureyrar og starfaði í kvennafélaginu Hlíf.

Það gladdi okkur mikið þegar Íþrótta og tómstundarráð Akureyrar heiðraði hana fyrir störf að íþrótta, æskulýðs og tómstundarmálum.

Mamma hafði einstaka skipulagshæfileika og kom miklu í verk, setti markið hátt og krafðist mikils af sér og sínum, sem ég hef síðan notið góðs af í lífinu, þó stundum á yngri árum gat verið í augum unglings bara óþarfa vesen.

Það sjaldan að hún settist niður var hún með handavinnu. Hún saumaði út, prjónaði og heklaði og það voru margar gjafirnar sem framleiddar voru seint á kvöldin. Hún saumaði og heklaði milliverk í sængur, ekki bara fyrir þau hjónin heldur fyrir börnin og barnabörnin. Hún átti íslensk prjónasjöl á lager til að gefa þeim erlendu gestum sem heimsóttu þau og svo var heimili okkar alltaf fallega skreytt  með hinu ýmsa handverki eftir mömmu.

Mamma hafði gaman af að ferðast var alltaf vel undirbúin og kynnti sér staðhætti og sögu áður en hún fór af stað. Ég man eftir því þegar við vorum á ferðalagi um landið, þá sat hún með ferðahandbókina í kjöltunni og las fyrir okkur um alla merkustu staðina.

þegar ég flutti erlendis þá komu foreldrar mínir alltaf til okkar nokkrar vikur á ári og þá var mamma alltaf búin að finna sér bækur um þá staði sem ég bjó á og næsta nágrenni og hlakkaði mikið til að sjá þá í raun.

Mamma fylgdist alltaf með fréttum og vissi alveg framundir síðasta dag  hvað var að gerast, bæði í landsmálum og á erlendri grund.

Hún var ættfróð og áhugasöm um fólk. Stundum var fljótlegra að hringja í mömmu og fá upplýsingar, frekar en að leita að þeim.

Mamma hafði gaman af klassískri tónlist og íslenskum dægurlaga tónlist og hún hlustaði mikið á Rás 1. Sundum fannst mér sem krakka þetta vera óttalegt gól, en viti menn, sem fullorðin veit ég fátt skemmtilegra en að fara á tónleika.

Ég verð mömmu alltaf þakklát fyrir að kenna mér til verka, vinna vel og vanda allt sem ég geri. Passa upp á fjármál og skulda engum neitt. Láta fjölskylduna ganga fyrir öllu, vera fróðleiksfús, áhugasöm um líðandi stundu og kunna að meta menningu og listir.

Bless elsku mamma, við hittumst síðar og tökum upp þráðinn aftur.

Guð veði með þér.

Edda Hermannsdóttir.