Sveinn Peter Jakobsson jarðfræðingur fæddist í Reykjavík 20. júlí 1939. Hann lést 12. júlí 2016.
Foreldrar hans voru Jakob Sveinsson frá Hvítsstöðum í Álftaneshreppi á Mýrum, yfirkennari við Austurbæjarskóla, f. 19.7. 1905, d. 4.9. 1983, og Ingeborg Vaaben Mortensen, hjúkrunarkona frá Vester-Aaby á Fjóni, f. 24.8. 1905, d. 5.1. 1994. Bróðir hans er Steinar Bendt, verkfræðingur, f. 16.12. 1935.
Árið 1967 giftist Sveinn Guðríði Hannibalsdóttur bankaritara, f. 15.12. 1937. Þau skildu 1969. Dóttir þeirra er Hulda Þóra, yfirmaður áætlanagerðar við Aberdeen-háskóla í Skotlandi, f. 20.6. 1966; maki Arnar Árnason mannfræðingur, f. 26.6. 1966. Börn þeirra: Hrafnkatla, f. 25.1. 1993, sagnfræðingur, Hörn, f. 13.7. 1996, nemi við Edinborgarháskóla, og Grímnir, f. 6.2. 2004.
Árið 1972 kvæntist Sveinn Gunnu Hofdahl lögfræðingi, f. 26.1. 1951. Þau skildu 1978. Börn þeirra: Thordis Hofdahl, f. 14.5. 1974, grunnskólakennari í Hellerup Skole í Kaupmannahöfn; maki Nikolaj Hjelm Kaplan verkfræðingur; sonur þeirra er Johan, f. 30.11. 2011; og Elisabeth Hofdahl, f. 29.9. 1975, menntaskólakennari í Gladsaxe Gymnasium í Kaupmannahöfn; sonur hennar er Niels Jakob, f. 26.2. 2006.
Sveinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1960 og lauk mag.scient-prófi í jarðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1969.
Sveinn vann hjá Náttúrugripasafni Íslands, síðar Náttúrufræðistofnun Íslands, allan sinn feril frá 1969. Hann var forstöðumaður stofnunarinnar 1972-1974, 1981-1983 og 1990-1994, og deildarstjóri jarðfræðideildar 1969-1994. Hann stundaði rannsóknir við Geologisk Museum í Kaupmannahöfn 1977-1978 með styrk frá Rannsóknasjóði Danmerkur og lauk dr.scient-prófi frá Kaupmannahafnarháskóla 1980. Hann var stundakennari í bergfræði við jarðfræðiskor Háskóla Íslands og tók þátt í ýmsum nefndum og félögum tengdum náttúrufræðum, þ.ám. í stjórn Surtseyjarfélagsins 1972-2009, í stjórn Norrænu eldjallastöðvarinnar 1973-1993, var varaforseti í stjórn Ferðafélags Íslands 1980-1987 og formaður fagráðs fyrir Náttúruvísindi og umhverfisvísindi hjá Rannsóknasjóði Íslands 2003-2005.
Sérgreinar Sveins voru berg- og steindafræði. Hann jók steinasafn Náttúrufræðistofnunar af mikilli elju með innlendum og erlendum sýnum. Sveinn var mikill áhugamaður um Jónas Hallgrímsson, bæði sem ljóðskáld og náttúruvísindamann og skrifaði fjölmargar greinar og flutti fyrirlestra um framlag hans til þróunar náttúruvísinda á Íslandi.


Meðal stærstu rannsóknaverkefna Sveins var bergfræði Reykjanesskaga og Vestur-gosbeltisins og bergfræði Suðurlands-gosbeltisins, þ.m.t. Vestmannaeyja. Eftir lok Surtseyjargossins stóð hann ásamt öðrum fyrir borun gegnum gjóskuhaug Surtseyjar sem m.a. leiddi í ljós að myndun móbergs úr basaltgleri er ferli sem nánast er lokahnykkur af gosinu sjálfu og hafa rannsóknir hans leitt til uppgötvana á nýjum skammlífum steindum.


Útför Sveins fer fram frá Háteigskirkju í dag, 22. júlí 2016, klukkan 13.

Engan hef ég þekkt sem var sjálfum sér eins nógur og Sveinn Jakobsson, engan sem eirði sér jafn vel í eigin félagsskap og hann. Kannski var það vegna þess að sá félagsskapur var ríkur af mörgu því besta sem lífið hefur upp á að bjóða.

Sveinn bjó hús sitt fallegum og fágætum munum. Á veggjunum voru myndir eftir suma af helstu málurum landsins og gömul landakort sem hann hafði safnað víða að. Hillur voru fullar af mörgum merkustu bókum sem skrifaðar hafa verið bæði á íslensku og erlendum málum. Skápar geymdu tónlist af ýmsu tagi, íslensk þjóðlög, evrópska klassík og amerískan jass. Af kvikmyndum valdi hann helst þær sígildu, ekki síst verk Charlie Chaplin; Nútímann og Einvaldinn.

Mannsandinn er kynjað orð, og kannski úrelt, en það fyrirgefst kannski að nota það hér. Það var einsog Sveinn legði sig fram við að kynnast sem mest sem flestu af því besta sem mannsandinn hefur skapað í menningu, menntun og lærdóm. Það var sem slíkt væri honum skylda, skylda sem honum var samt ljúft að rækta. Í því hafði Sveinn, held ég, félagsskap af þeim sem höfðu skapað listaverkin og lærdóminn sem hann sótti í. Þó Sveinn væri oft útaf fyrir sig, var hann alltaf í góðum félagsskap.

Með þessu er þó ekki einu sinni hálf sagan sögð. Sveinn hvatti þá, sem honum fannst hann bera einhverja ábyrgð á, til þess að finna þennan sama félagsskap, rækta þessa sömu skyldu. Það er hvatning sem fólk heyrir kannski misvel, en oft betur eftir því sem það eldist. Sveinn sá það líka sem hlutverk sitt að auðga mannsandann, auka á menningu og lærdóm. Ekki skal ég segja neitt um listsköpun Sveins þó var hann mikill listamaður en hitt er engum vafa háð að hann er með merkustu jarð- og náttúrufræðingum Íslands og hefur landið þó alið af sér marga slíka. Aðrir eru betur til þess fallnir að leggja nákvæmt mat á framlag Sveins til sinna fræða og hefur það reyndar nú þegar verið gert. Hitt þykist ég vita að það að leggja sitt fram hafi verið Sveini nánast heilög skylda. Einu sinni var birt skrá yfir þá fræðimenn íslenska sem mest er vitnað í. Sveinn var þar ofarlega á lista. Hann hafði auðvitað ekki orð á því sjálfur, hann var hógvær með fádæmum, en við dóttir hans létum hann vita að við hefðum tekið eftir þessu. Sveinn var nógu pjattaður, eins og einn vinur hans hefur orðað það, til þess að þykja vænt um það. Ekki það að Sveinn væri í raun hégómagjarnari en menn almennt og sennilega minna en við flestir. Það var frekar að í þessu væri honum staðfesting á því að til einhvers hefði verið unnið, starfið hefði haft tilgang. Og það var ekki síst starfið sem gaf lífinu tilgang, en ekki bara starfið eitt. Tilgangur þess var í raun framlagið til framtíðarinnar, að leggja sitt af mörkum í lærdóm og list og í því að kenna þeim, sem hann bar ábyrgð á, að njóta þess og gera slíkt hið sama.

Sveinn var ekki maður sem flíkað tilfinningum sínum ekki einu sinni við sína nánustu. En áhrif hans á þá eru mikil. Sveinn var smekkmaður. Hann var líka sælkeri og lífsnautnamaður, lífsnautnamaður í hófi. Góður matur og kannski sérstaklega góðar kökur glöddu hann. Ís með heimalagaðri súkkulaði sósu þótti honum góður. Oft drakk hann sérríglas, og jafnvel glös, á kvöldin. Fáa þekki ég sem hafa blandað gin og tónik betur en Sveinn og hef ég þó dvalið lengi í landi þar sem millistéttin drekkur gin og tónik frekar en móðurmjólkina. Sveinn hafði gaman af því og vildi gjarnan að hans fólk tæki þátt í því að njóta þessara lystisemda lífsins með honum. Mikilvægi þess að njóta hins góða í lífinu var nokkuð sem hann vildi kenna sínu fólki.

Sveinn hefur loki sínu starfi, auðgað mannsandann, eflt lærdóm og menningu. Hann er orðinn hluti af þeim félagsskap sem við getum öllu leitað til, hvort sem við erum út af fyrir okkur eða með öðrum. Hann á sinn sess í eilífðinni, svona eins og hún nú er. Tilgangi lífsins er náð.

Arnar Árnason