Persónuleg, heimagerð páskaegg

Áhuginn hefur sennilega tekið sér bólfestu í undirmeðvitundinni þegar Eva Rún var barn því afi hennar og amma ráku Másbakarí í Þorlákshöfn í um aldarfjórðung. „Pabbi minn og bróðir hans unnu þar líka svo ég var oft að skottast þar og var tekin með í vinnuna á nóttunni ef það vantaði pössun.“ Auðvitað gat hún ekki tekið neinn þátt í vinnunni í bakaríinu en hefur eflaust lært að meta gott bakkelsi og fallegar kökur þar og fyrir nokkrum árum spratt baksturseldmóðurinn upp og Eva Rún byrjaði að blogga.

„Svo fór þetta áhugamál á fullt fyrir tveimur árum þegar ég og Gunnar kærastinn minn fluttum í nýtt húsnæði með stóru og góðu eldhúsi. Áður bjuggum við í pínulítilli íbúð með eldhúskrók svo það fór allt á annan endann ef ég gerði eitthvað stórtækt þar en núna er þetta minna mál og ég miklu duglegri við baksturinn. Og Gunnar hefur sitt eigið herbergi til að nota meðan ég legg undir mig eldhúsið,“ segir Eva Rún og hlær. Hún segir kærastann sýna áhugamáli hennar mikinn skilning og vera nokkuð viljugan að smakka tilraunaafurðirnar. „En svo vinn ég á fjölmennum vinnustað svo ef það er mikið af afgöngum tek ég þá bara með mér í vinnuna og set inn í eldhús, og þeir hverfa mjög fljótt!“

Sjálflærður bakari og súkkulaðinörd

Það vantar svo sem ekki sjálfboðaliða til að borða afraksturinn, Eva Rún segir fjölskyldu og vini nánast í áskrift að kökum hjá sér, ef afmæli, ferming, skírn eða brúðkaup séu framundan panti þau alltaf köku hjá henni. Þá tekur við leit á netinu að hugmyndum, nýjum aðferðum og áhugaverðu hráefni til að prófa sig áfram með. „Þegar ég hef tíma þá horfi ég á myndbönd á YouTube og á þætti á borð við Cake Boss, les kökublogg eins og iambaker.net, skoða Pinterest og þess háttar.“ Eva Rún er sjálflærð að mestu, hefur einungis farið á eitt námskeið, einmitt í páskaeggjagerð hjá versluninni Allt í köku, þar sem hún segist kaupa mjög mikið af áhöldum og hráefni. „Ég keypti páskaeggjamótin þá en það leið nokkur tími þangað til ég lét vaða í að gera eggin hérna heima.“

Í fyrra gerði Eva Rún í fyrsta sinn mörg páskaegg, fyrir alla fjölskylduna. „Ég reyndi að setja uppáhaldsnammi hvers og eins í þeirra egg og leyfði yngri systkinum mínum t.d. að koma sjálf með það sælgæti sem þau vildu hafa inni í, svo setti ég nokkrar tegundir af súkkulaði fyrir framan þau og leyfði þeim að smakka og velja samsetninguna.“ Sjálf fyllti hún sitt egg af lakkrís og lakkríssælgæti og þar sem kærastinn er mest hrifinn af hlaupnammi setti hún gúmmíbirni og slöngur í hans egg. Þannig fengu allir persónuleg páskaegg. Eva Rún keypti páskaunga og annað skraut í Blómavali og límdi á svo páskaeggin hennar gáfu verksmiðjueggjunum ekkert eftir, hvorki í útliti né bragði.

Eva Rún segist reyndar ekki setja málshætti í eggin, né reynir hún að semja eigin málshætti eða vísur. „Þar endar sköpunargáfan, ég myndi frekar leita að einhverju skemmtilegu á netinu til að skrifa á miðana. Eða semja bara skemmtileg skilaboð, gefa hrós eða tjá væntumþykju. Svo væri þetta náttúrlega skemmtileg leið til að segja fréttir, t.d. af þungun, láta börn lesa það á miða úr páskaeggjunum sínum að þau eigi von á litlu systkini og svoleiðis,“ segir Eva Rún sem hefur greinilega sleppt hugmyndafluginu lausu.

Skreytingar Aðeins ímyndunaraflið setur mörk á sælgæti og skraut á …
Skreytingar Aðeins ímyndunaraflið setur mörk á sælgæti og skraut á heimagerðu eggin. Persónuleg, heimagerð páskaegg mbl.is/Eggert Jóhannesson

Omnom-þema

Í ár ætlar hún að gera enn frekari tilraunir við páskaeggjagerðina, meðal annars prófa að gera nokkurs konar netegg. „Ég sá mynd af svoleiðis á netinu, ætla að prófa að sprauta súkkulaði þvers og kruss ofan í mót, þannig að eggið verði ekki alveg heilt heldur dálítið gagnsætt. Þá gæti verið gaman að setja litríkt nammi inn í það, t.d. Smarties og þess háttar.“

Eva Rún starfar hjá Íslenska sjávarklasanum, sem framkvæmdastjóri Húss sjávarklasans niðri á Granda og í nágrenni við hana þar er súkkulaðiverksmiðjan Omnom og hefur Eva Rún kynnt sér vel framleiðslu hennar og ætlar að hafa nokkurs konar Omnom-þema í ár.

„Ég hef verið að prófa Omnom-súkkulaðið undanfarið í bakstur; þau eru með svo margar týpur af súkkulaði, nota kakóbaunir frá mismunandi löndum og þær hafa þá mismunandi eiginleika og bragð. Sumt af þessu súkkulaði er betra að nota í bakstur frekar en beint til átu, ég er t.d. búin að prófa að baka súkkulaðiköku úr Madagaskar-súkkulaðinu þeirra og það var alveg geggjað. Mér þykir þetta allt mjög spennandi því þetta er svo allt öðruvísi súkkulaði en þetta klassíska Nóa Síríus-súkkulaði sem maður getur þó alltaf gengið að vísu.“

Eva Rún er byrjuð að gera páskaeggin í ár og búin að prófa Omnom-lakkríssúkkulaðið. „Ég myndi segja að það sé frábært í eggjagerð fyrir þá sem finnst lakkrís góður en svo á ég eftir að gera egg úr súkkulaði með sjávarsöltuðum möndlum, sem ég held að verði rosalega gott en það er með söxuðum möndlum svo það verður fróðlegt að sjá hvernig súkkulaðið kemur út bráðið. Ég er mjög ánægð með hvernig er að vinna með Omnom-súkkulaðið; gott að saxa það, það bráðnar vel og er auðvelt að tempra.“ Evu Rún langar líka að búa til heil páskaegg úr hvítu súkkulaði. „Það súkkulaði er allt öðruvísi í vinnslu, temprunin er öðruvísi og dálítið meira mál. En draumurinn er að lita það eins og ég vil og búa til páskaegg í allavega litum fyrir börnin.“

Omnommigott „Ég er mjög ánægð með hvernig er að vinna …
Omnommigott „Ég er mjög ánægð með hvernig er að vinna með Omnom-súkkulaðið; gott að saxa það, það bráðnar vel og er auðvelt að tempra,“ segir Eva um sælkerasúkkulaðið. Persónuleg, heimagerð páskaegg mbl.is/Eggert Jóhannesson

Súkkulaðið þarf þolinmæði

Það sem hafa ber helst í huga við páskaeggjagerð, segir Eva Rún, er að tempra súkkulaðið rétt. Hún segist hafa verið fljót að komast upp á lagið með það og höfuðatriði sé að nota hitamæli og fylgjast vel með honum. „Og sýna þolinmæði. Það er líka alltaf hægt að bræða súkkulaði aftur; eins vandmeðfarið og súkkulaði er þá fyrirgefur það margt líka.“

Og þótt að sjálfsögðu þurfi að þrífa páskaeggjamótin vel á milli ára, þá borgar sig ekki að skola þau inn á milli meðan verið er að gera eggin. „Súkkulaðið skilur eftir sig dálítið fitulag í mótinu sem er bara betra og gefur meiri gljáa á þau að utan. Þannig að fyrsta eggið gæti orðið aðeins mattara en þau næstu en það er alveg óhætt að gera 10-20 egg í sama mótinu án þess að þrífa það á milli. Ég pússa mín bara með viskustykki ef þarf, svona eins og vínglös,“ segir Eva Rún.

Hún mælir líka með því að fólk noti mótin sem statíf meðan verið er að setja sælgæti í þau og líma samskeytin. „Maður þarf náttúrlega að byrja á því að losa þau úr mótinu en svo er gott að leyfa skelinni að hvíla í því meðan maður sprautar súkkulaðinu á kantana og þrýstir þeim svo saman með því að leggja mótin saman aftur. Þannig er maður ekki að meðhöndla þau of mikið og þrýsta á þau með fingrunum.“ En að auki finnst Evu Rún gott að nota hvíta bómullarhanska, til að ekki komi fingraför á eggin.

„Passið líka að setja ekki of mikið sælgæti inn í eggin, nema skelin sé þeim mun þykkari, því ef innihaldið er of þungt er ekki víst að skelin haldi.“ Svo bendir hún á að hægt sé að gera eitt egg úr mismunandi súkkulaðitegundum, hálft og hálft eða nota aðra tegund í fótinn, sem er steyptur sér. „Svo er hægt að gera allskonar mynstur, t.d. marmaraáferð með því að setja smávegis af hvítu súkkulaði í mótið og hella svo dökku súkkulaði yfir,“ segir Eva Rún og bætir við að þá sé alltaf gaman að sjá hver útkoman verði, því maður geti ekki stýrt því og oft komi falleg, abstrakt mynstur fram.

Góðgæti Það er vissara að vakta allt hnossgætið sem á …
Góðgæti Það er vissara að vakta allt hnossgætið sem á borðum er við páskaeggjagerðina, og Victoría Dís ljær öllu vökult auga mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alls ekki erfitt, bara að prófa

Hægt er að líma (með bræddu súkkulaði) allskonar skraut á, sem fæst í blómabúðum og föndurbúðum, en einnig er hægt að búa til sykurblóm eða hræra saman smjörkrem og þeyttar eggjahvítur og sprauta út blóm sem harðna alveg þegar þau þorna. Eva Rún hefur vanalega sett eggin í glæran poka og bundið borða utan um en einnig er hægt að pakka þeim inn í sellófan. „Það verður samt að fara gætilega með þau og eins er ekki gott að búa páskaeggin til of snemma, löngu fyrir páska, því súkkulaðið getur tekið í sig bragð í geymslu. Eggin þarf að geyma á góðum, svölum stað; ef þau er höfð í ísskáp geta þau svitnað þegar þau eru tekin út en hinsvegar, ef um er að ræða trufflur eða álíka konfekt sem inniheldur rjóma er betra að geyma slíkt súkkulaði í kæli.“

Bakstursánægja „Þetta áhugamál fór á fullt fyrir tveimur árum þegar …
Bakstursánægja „Þetta áhugamál fór á fullt fyrir tveimur árum þegar ég og Gunnar kærastinn minn fluttum í nýtt húsnæði með stóru og góðu eldhúsi. Áður bjuggum við í pínulítilli íbúð með eldhúskrók svo það fór allt á annan endann ef ég gerði eitthvað stórtækt þar en núna er þetta minna mál,“ segir Eva Rún, hér ásamt Elíasi Karli 12 ára og Victoríu Dís 5 ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

En þegar allt kemur til alls segir Eva Rún það alls ekki of erfitt að búa til sín eigin páskaegg og fólk ætti ekki að mikla það fyrir sér. Þeir sem vilji fara öruggu leiðina geti notað hjúpsúkkulaði sem ekki þarf að tempra, aðrir geti gert tilraunir með súkkulaði og bragð eftir sínu höfði. „Svo þarf bara að hella súkkulaði í mótin, velta þeim í 5-10 mínútur, hafa þau í kæli í aðrar tíu mínútur, losa þau úr, setja sælgætið í og líma saman. Eftir smástund í kæli er hægt að skreyta þau og þá er þetta komið. Þetta ferli tekur ekki nema um klukkustund, frá A til Ö.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert