Súkkulaði- og hnetusmjörskökur

Þessar smákökur eru hættulega góðar.
Þessar smákökur eru hættulega góðar. Ljósmynd/Ásdís Ragna

„Nú er allt komið á fullt í jólabakstrinum á mínu heimili og það er eitthvað svo notalegt að fá sér einn góðan tebolla og narta í smáköku með á góðum degi. Þessar kökur eru í algjöru uppáhaldi hjá mér og ég þarf eiginlega að vara ykkur við hvað þær eru góðar og þær klárast yfirleitt fljótt, hvort sem það er mamman, börnin eða eiginmaðurinn sem stelst í eina og eina köku,“ segir Ásdís Ragna Einarsdóttir grasalæknir.

„Þetta eru í raun klattar og ég er auðvitað búin að tvista upprunalegu uppskriftina til og gera hollari útgáfu sem kemur einstaklega vel út. Ég á það til að skipta hráefnum út í uppskriftum og nota oft 50/50 t.d. eins og hér er 200 g af smjöri og þá nota ég 100 g smjör og 100 g kókósolíu. Eins nota ég 50/50 hlutföll af kókóspálmasykri á móti helming af erythrioli og minnka þannig sykuráhrifin í kökunum en fæ samt svona „crunchy“ áferð með því að nota kókóspálmasykurinn (þær brúnast ekki eins vel með því að nota eingöngu erythriol en megið auðvitað nota bara erythriol ef viljið). Svo nota ég sjálf glútenlausa hafra því mér finnst þeir fara betur í maga. Ég nota yfirleitt sykurlaust súkkulaði t.d. frá dökkt frá Balance, 70% frá Valor (No added Sugar-týpuna) eða 75% frá Naturata á móti slatta af rúsínum, fer eftir í hvernig stuði ég er hvort ég hef rúsínur eða bara súkkulaði. Gætuð t.d. alveg notað saxaðar pekan- eða valhnetur í staðinn fyrir rúsínur. Ef þið viljið er líka hægt að nota möndluhveiti í staðinn fyrir heilhveiti/spelt ef viljið hafa þær glútenlausar.“

200 g smjör / kókósolía

140 g lífrænt hnetusmjör

160 g erythriol / kókóspálmasykur

200 g rúsínur / saxað súkkulaði

120 g lífrænt heilhveiti / gróft spelt

250 g haframjöl

1 tsk matarsódi

2 stór egg

1 tsk vanilla

1/4 tsk salt

* Hitið ofn í 180°C

* Bræðið smjör, hnetusmjör og pálmasykur / erythriol við lágan hita og takið svo af hellu

* Hrærið egg og vanillu út í með sleif

* Bætið rúsínum og/eða súkkulaði og haframjöli + rest af þurrefnum út í stóra skál og hrærið

* Búið til hæfilega stóra klatta og setjið á bökunarpappír og bakið í 15 mín.

HÉR er hægt að lesa bloggið hennar Ásdísar Rögnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert