Ekki bara spínat og tómatar í öll mál

Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur.
Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur. mbl.is

Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur halda úti blogginu Veganistur, þar sem þær deila uppskriftum af girnilegum mat. Systurnar eru báðar grænkerar, eða vegan, sem þýðir að þær neyta aðeins matvæla sem koma úr plönturíkinu. Þær sakna alls ekki afurða úr dýraríkinu, enda borða þær meira en nóg af gómsætum mat líkt og þær segja sjálfar frá.

Hvers vegna ákváðuð þið að taka út dýrafurðir, og hvernig báruð þið ykkur að?

„Í fyrstu ákvað ég að verða vegan aðallega vegna þess að ónæmiskerfið mitt hrundi þegar ég var unglingur,“ segir Helga María. „Ég fékk einkirnissótt og náði mér eiginlega aldrei. Sumarið 2011 kynntist ég svo vegan lífsstílnum af nokkurskonar tilviljun og ákvað sama kvöld að gerast vegan og hef ekki snúið aftur. Það fyrsta sem ég gerði var að skrá mig í hópinn Íslenskar grænmetisætur á Facebook og þar spurði ég að öllu sem ég vildi vita varðandi lífsstílinn. Mér fannst þetta strax mjög spennandi og þetta var alls ekki erfitt að mínu mati,“ bætir Helga við.

Haustið sem Júlía Sif byrjaði í menntaskóla fluttist hún síðan inn til systur sinnar og gerðist grænkeri sama dag. „Við eyddum miklum tíma í að elda saman svo ég átti ekki erfitt með þetta. Ég var vön að fá mikla magaverki eftir máltíðir og vegan matarræðið hefur hjálpað mér heilmikið hvað það varðar,“ segir Júlía.

Hvernig er að vera grænmetisæta, eða vegan, á Íslandi?

„Þegar við gerðumst vegan fyrst var úrvalið af mat ekkert svakalega mikið. Við lærðum því að elda flest frá grunni og spá í hráefnunum sem okkur þykir alltaf mjög skemmtilegt. Veitingastaðir voru ekkert alltof duglegir í því að komast til móts við grænkera landsins því á þeim tíma var ekkert gefið að fólk vissi hvað orðið „vegan“ þýddi. Maður þurfti því ansi oft að fara á sömu veitingastaðina og það má segja að Grænn kostur hafi verið annað heimili Helgu þegar hún var í menntaskóla. Í dag hefur úrvalið hinsvegar aukist gríðarlega. Það er eiginlega hlægilegt að hugsa til baka og átta sig á því hversu margt hefur breyst á svona stuttum tíma. Nú er hægt að fá allskonar vegan vörur í öllum helstu matvörubúðum landsins og veitingastaðir eru alltaf að auka við úrvalið hjá sér.“

Systurnar segjast ekki hafa fundið fyrir fordómum, þó að fjölskyldumeðlimum hafi í upphafi þótt skrýtið að þær skyldu taka með sér nesti í veislur og matarboð.

„Ég var svo heppin að þegar ég gerðist vegan var ég í MH og þar voru frekar margar grænmetisætur og flestum þótti ekkert skringilegt að tileinka sér þennan lífstíl. Hinsvegar man ég hvað fjölskyldunni minni þótti furðulegt þegar ég fór að mæta með minn eigin mat í veislur,“ segir Helga. „Með tímanum fór þeim að finnast þetta meira spennandi og oft fékk ég að heyra að maturinn minn væri bara ansi girnilegur.“

Júlía samsinnir því að hún hafi ekki fundið fyrir miklum fordómum þegar hún gerðist grænkeri. „Það er þó alltaf einstaka manneskja sem er rosalega upptekin af því hvað þetta sé nú mikið rugl. Helga hafði verið vegan í rúmlega ár áður en ég tók upp lífstílinn svo fjölskyldan var löngu hætt að fetta fingur út í það að maður mætti með nesti í jólaboðin. Þó er amma dugleg að fullvissa mig um það að hún muni nú ekkert klaga í Helgu þó ég stelist til að fá mér kökusneið hjá henni,“ bætir Júlía við kankvís.

Systurnar segja ekkert mál að gera vel við sig án …
Systurnar segja ekkert mál að gera vel við sig án þess að neyta dýraafurða. Helga María Ragnarsdóttir

Ekki eintómt kál

Hefðbundinn dagur hjá Helgu byrjar iðulega á stóru vatnsglasi og hafragraut með möndlumjólk. „Hádegismaturinn er síðan annað hvort smoothie eða jafnvel afgangur frá kvöldmat gærdagsins, í millimál fæ ég mér hrökkbrauð með hummus, döðlur, ávexti eða eitthvað annað sem þægilegt er að grípa í. Kvöldmaturinn er svo yfirleitt bara það sem mér dettur í hug. Ég er mikið fyrir kássur, súpur og mat sem er fljótlegur og mettandi.“

Svipað er upp á teningnum hjá Júlíu. „Ég á einnig alltaf frosin grænmetisbuff og bollur sem þægilegt er að grípa með sér ef þörf er á. Millimálin hjá mér eru síðan yfirleitt brauð með hummus eða lárperu, ávextir eða smoothie. Kvöldmaturinn er mjög mismunandi eftir því í hvernig skapi ég er. Við erum duglegar að setja inn myndir af því sem við eldum á Instagram-síðuna okkar, svo þar er hægt að fylgjast með okkur,“ bætir Júlía við að lokum.

Systurnar segja algengan misskilning að grænmetisætur fái ekki nægt prótein úr fæðunni og þjáist af kalkskorti. Þá segja þær einnig algengan misskilning að grænmetisætur þurfi að neita sér um allt sem er gott og borði því bara spínat og tómata í öll mál, sem gæti ekki verið fjarri sanni.

„Við erum báðar duglegar að baka pönnukökur um helgar. Svo hefur úrvalið af vegan sælgæti aukist gríðarlega, þá aðallega í Nettó. Þar eru fjölmargar tegundir af vegan mjólkursúkkulaði, hlaupi og öðru góðgæti. Skyndibitastaðir landsins hafa verið að auka úrvalið af mat til muna og nú er til dæmis hægt að panta sér pítsu með vegan osti og áleggi, ásamt ostafylltum brauðstöngum á íslensku Flatbökunni. Bike cave er einnig vinsæll fyrir borgarana og kokteilsósuna sína. Síðan er það Vinyl sem er fyrsti og eini vegan veitingastaðurinn á landinu og þar er hægt að fá ótrúlega gómsætan mat. Það er því ekki hægt að segja að grænkerar geti ekki gert vel við sig,“ bæta systurnar við.

Margir eru forvitnir og geta vel hugsað sér að hætta, eða minnka, neyslu á dýraafurðum. Hvar ráðleggið þið fólki að byrja?

„Við mælum með því að fólk skrái sig í hópinn Vegan ísland á Facebook. Þar er hægt að spyrja um hvað sem er og fá góð ráð. Einnig er sniðugt að skoða uppskriftarsíður og finna sér einfaldar og góðar uppskriftir og prófa sig áfram,“ segja systurnar að lokum.  

Helga María og Júlía eru báðar mikið fyrir karrírétti, og þótti því upplagt að láta uppskrift af einum slíkum fylgja með.

Gómsætur karríréttur

1 lítil sæt kartafla
2 gulir laukar
1 msk rifið engifer
1 pressaður hvítlauksgeiri
1,5 bolli linsubaunir
1 lítri grænmetissoð (Við sjóðum yfirleitt vatn í hraðsuðukatli og blöndum grænmetiskrafti frá Sollu útí það)
1 tsk túrmerik
2 tsk garam masala
Salt og pipar eftir smekk.

1. Byrjið á því að skera niður grænmetið, setja í pottinn ásamt örlitu vatni og leyfa grænmetinu að mýkjast aðeins í nokkrar mínútur. Ef þið viljið steikja það uppúr olíu er það ekkert mál, við reynum bara að nota olíu sem minnst.

2. Á meðan grænmetið hitnar aðeins er gott að skola linsubaunirnar í sigti og leyfa þeim að liggja í bleyti í smá stund.

3. Eftir nokkrar mínútur skuluð þið bæta linsubaununum, grænmetissoðinu, engifer, hvítlauknum og kryddinu útí og leyfa þessu að malla í um það bil tuttugu mínútur.

Ef ykkur finnst ekki nóg krydd þá er ekkert mál að bæta því útí. Betra að byrja á því að setja minna en meira.

Hægt er að fylgjast með systrunum á Facebook, Instagram og Snapchat undir nafninu Veganistur.

Systurnar kunna vel að meta góða karrírétti.
Systurnar kunna vel að meta góða karrírétti. Helga María Ragnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert