Heimatilbúnar falafelbollur í vefjuna

Girnileg vefja með falafelbollum.
Girnileg vefja með falafelbollum. Skjáskot maedgurnar.is

Mæðgurnar Sólveig Eiríksdóttir og Hildur segja að falafelbollur séu alveg tilvaldar í vefjuna ásamt grænmeti og t.d. avókadósósu.

„Falafel er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá okkur mæðgum. Gott falafel sameinar svo listilega „juicy“ máltíð og góða næringu. Heimalagaðar falafelbollur eru einfaldar í framkvæmd og aðeins hollari en skyndibitaútgáfan, ef við veljum að baka bollurnar í ofni frekar en að djúpsteikja þær“segir Sólveig. Hér má sjá uppskrift af falafelbollum frá þeim, nánari upplýsingar fást á síðunni þeirra mæðgurnar.is

Uppskriftin

Falafelbollur

<ul> <li>2 bollar soðnar kjúklingabaunir</li> <li>2 bollar ferskur kóríander</li> <li>1 bolli smátt rifinn kúrbítur, safinn kreistur úr honum</li> <li>1 rauðlaukur, smátt saxaður</li> <li>4 msk möndlusmjör</li> <li>2 msk sítrónusafi</li> <li>1 msk sítrónuhýði</li> <li>2 hvítlauksrif eða 1 msk þurrkaður hvítlaukur (krydd)</li> <li>1 tsk chili</li> <li>1 tsk cuminduft</li> <li>1 tsk malaður kóríander</li> <li>1 tsk sjávarsalt</li> </ul>

Aðferð

  1. Rífið kúrbítinn, stráið yfir hann 1/2 tsk af sjávarsalti og látið hann standa á meðan þið finnið til restina af uppskriftinni.
  2. Setjið allt nema kúrbítinn í matvinnsluvél, en bíðið með að mauka.
  3. Kreistið vökvann úr kúrbítnum (Okkur finnst gott að setja hann í spírupoka og kreista).
  4. Bætið kúrbítnum út í matvinnsluvélina. Blandið þar til þetta er orðið að grófu deigi.
  5. Gott að nota ískúluskeið til að búa til litlar bollur. Gott að rúlla hverja bollu smá stund í lófanum áður en þær eru settar á bökunarpappír svo þær haldi forminu sem best og detti síður í sundur.
  6. Bakið við 200°C í um 20-25 mín. Snúið bollunum eftir ca 10 - 12 mín.
Heimatilbúnar falafelbollur.
Heimatilbúnar falafelbollur. Skjáskot maedgurnar.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert