Systur deila morgunverði milli heimsálfa

Auður Anna Jónsdóttir vélaverkfræðingur er morgunverðarunnandi fram í fingurgóma. Auður býr rétt utan við Seattle í Bandaríkjunum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum. Þaðan deilir hún áhuga sínum á hollum og góðum mat með yngri systrum sínum sem búa á Íslandi í gegnum Instagram á síðunni Sistersharing, eða Systur deila.

„Ég á tvær yngri systur, Ásthildi Helgu 22 ára og Elísabetu 15 ára. Þær hafa verið grænmetisætur í mörg ár. Ásthildur hefur unnið á Grænum kosti og nú á Gló og hafa þær mikinn áhuga á hollum og góðum mat. Eftir að ég flutti út fórum við að senda myndir á milli af því sem hafði heppnast vel og úr varð lítil Instagram-síða sem við höfum allar aðgang að og heldur síðan utan um myndirnar,“ segir Auður, en girnilegar morgunverðarskálar þeirra hljóta mikið lof á samfélagsmiðlum.

„Uppáhaldsmáltíð dagsins er án efa morgunmaturinn, en mér þykir afskaplega gaman að dunda mér og búa til fallegar morgunverðarskálar. Börnin taka virkan þátt og fá að setja það sem þeim þykir gott í sína skál. Litríkur og hollur morgunmatur er að mínu mati ávísun á gleði og góðan dag,“ segir Auður, sem notar meðal annars lítil piparkökuform til að fá stjörnur úr hráefninu sem hún notar í skálarnar.

Spurð um uppáhaldsmorgunverðinn á Auður erfitt með að svara en hún segir það fara eftir eftir veðrum og vindi hvað er í uppáhaldi hverju sinni. „Í sumar var mikið um suðrænar og seiðandi skálar með acai-berjum en núna þegar byrjað er að hausta þykir mér gaman að prófa kryddaðri skálar með höfrum og hnetum. Það er um að gera að prófa sig áfram og nota það sem er til í skápunum. Uppskriftir er gott að styðjast við fyrst um sinn en svo er gaman að fikra sig áfram og útfæra eftir sínu höfði. Að eiga frosna banana er ódýr og góður grunnur í hvaða skál sem er. Mangó og avókadó eru einnig góðir grunnar en mikilvægt er að blanda saman ávöxtum sem ekki eru vatnsmiklir til þess að fá góða þykkt,“ segir morgunverðarmeistarinn, en myndirnar tala sínu máli.

„Gott er að leyfa frosnum ávöxtum að þiðna stutta stund en þá þarf ekki jafn mikinn vökva á móti. Vatn og kókosvatn eru góðir kostir, en þannig njóta ávextirnir sér best að mínu mati. Ósykruð hnetumjólk hentar líka vel en gott er að lesa á fernur því oft eru þær með viðbættum sykri og sýrópi, sem er óþarfi.“

Í Bandaríkjunum er gott úrval ávaxta og grænmetis en Auður hefur tekið ástfóstri við frosin acai-ber og drekaávöxt. Ávextina kaupir hún án viðbætts sykurs í frosnum pökkum. Litla fjölskyldan saknar þó íslenska matarins inni á milli þótt IKEA sé vissulega vinur í raun.

„Ég hefði ekkert á móti því að geta keypt íslenska lambakjötið og íslenskan harðfisk. Steiktan lauk, graflaxsósu og ýmislegt kunnuglegt er hægt að fá í IKEA en við erum reyndar mjög heppin að fá reglulega góða gesti sem koma með íslenskar kræsingar,“ segir Auður, sem býður gestum sínum án efa upp á glæsilegan morgunverð.

Girnilegar Morgunverðarskálar.

Setjið öll innihaldsefni á blandara og blandið uns góð áferð næst.
Skreytið skálarnar að vild.

Suðræn Mangóskál með Kíví og Engifer

2 dl frosið mangó 

1/2 frosinn banani

1 dl vatn eða kókosvatn

safi úr 1/2 appelsínu

1 tsk túrmerik

1 cm engifer 

kanill á hnífsoddi

Drekaskál með Kókos og Berjum

2 pakkar Pitaya (Drekaávöxtur) 

1 frosinn banani

2 dl frosið mangó

2 dl vatn eða kókosvatn

Krydduð súkkulaðiskál með granóla

2 frosnir bananar

1 dl ósæt hnetumjólk að eigin vali

1-2 msk hrákakóduft 

1/2 tsk pumpkinspice (múskat kanill engifer og allspice)

örlítið hunang eða kókospálmasykur 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert