Þreföld súkkulaðisprengja

Þessi súkkulaðikaka er kannski ekki sú fljótlegasta en Snorri lofar …
Þessi súkkulaðikaka er kannski ekki sú fljótlegasta en Snorri lofar því að hún sé hverrar mínútu virði. Snorri Guðmundsson

Snorri Guðmundsson, matarbloggari á Snorrieldar.is, elskar súkkulaði - og við elskum Snorra. Þessi súkkulaðikaka er kannski ekki sú fljótlegasta en Snorri lofar því að hún sé hverrar mínútu virði.

„Um helgar þykir mér (eins og svo mörgum öðrum) fátt skemmtilegra en að eyða góðum tíma inni í eldhúsi og baka eitthvað gott ofan í mig og mína.  Það er bara eitthvað svo rosalega afslappandi við að dunda sér í rólegheitum við bakstur þegar maður þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru yfir daginn.“

Þessi þrefalda súkkulaðisprengja varð til einn góðan sunnudaginn og vakti mikla lukku hjá fjölskyldunni, enda öll mikið fyrir súkkulaði.

Stökkur súkkulaðibotn, silkimjúkt súkkulaði-mousse, bragðmikið súkkulaðiö-ganache með kaffi og hlynsírópi og svo toppuð með ferskum jarðarberjum.

Er þetta ekki bara málið?

Þessi uppskrift er rétt rúmlega passleg fyrir 1 stk köku gerða í 24X2.8CM formi

- Botninn -
195 grömm all purpose hveiti
113 grömm ósaltað smjör við stofuhita
65 grömm flórsykur
3 matskeiðar kakóduft
1/8 teskeiðar salt
1 egg / lauslega hrært

  1. Hrærið smjörið í hrærivél þar til það er orðið mjúkt, bætið sykrinum næst við og hrærið vel saman. Bætið að lokum egginu saman við og hrærið þar til öllu er vel blandað saman og blandan er orðin "létt og fluffy".
  2. Í annarri skál, hrærið saman vel saman hveitið, saltið og kakóduftið og bætið svo út í hrærivélarskálina og hrærið þar til öllu er vel blandað saman og deigið farið að mynda bolta í skálinni.
  3. Skafið deigið úr skálinni á borðið og myndið úr því flatan disk.  Pakkið deiginu svo þétt og vel inn í matarfilmu og setjið inn í ísskáp í 30-60 mín.
  4. Stillið ofninn á 205° og takið deigið úr ísskápnum, úðið kökuformið/kökuformin lauslega með matarolíu og dreifið smá hveiti í þau og yfir vinnuborðið.
  5. Fletjið deigið út og setjið það varlega í kökuformið. Þjappið því vel í kantana og látið svolítið af deiginu lafa út fyrir formið.  Rennið kökukeflinu svo yfir formið til að skera aukadeigið snyrtilega frá.
  6. Stingið svo sirka 3/4 leið í gegnum botninn út um allt með gaffli áður en þið bakið botninn, en að stinga svona í botninn hleypir gufunni út þegar hann bakast og hjálpar til með að botninn lyftist ekki upp í ofninum og verði því ójafn.  
    Önnur leið til að hindra að botninn lyftist upp er að "blindbaka" botninn í stað þess að stinga í hann. 
  7. Bakið við 205° í 5 mín, lækkið svo hitann í 180° og bakið í aðrar 15 mín eða "blindbakið" við 205° í 10 mín, lækkið svo hitann í 180°, fjarlægið baunirnar/hrísgrjónin (hvað svo sem þið eruð að nota til að blindbaka) og bakið í aðrar 15 mín eða þar til botninn er fullbakaður. 
  8. Fjarlægið botninn úr ofninum og leyfið að kólna áður en þið fjarlægið hann úr forminu.

- Súkkulaði mousse -
130 grömm dökkt súkkulaði / skorið smátt
1/4 bolli rjómi / til að hita
3/4 bolli rjómi / til að þeyta
1 gelatín blað

  1. Setjið gelatínblaðið í skál með köldu vatn í að minnsta kosti 3 mín.
  2. Þeytið 3/4 bolla af rjóma í kaldri skál og setjið til hliðar.
  3. Bræðið súkkulaðið yfir "double boiler"  eða í 10 sek atrennum í örbylgjuofni.
  4. Hitið 1/4 bolla af rjóma í örbylgjunni 2x í 15 sek, kreistið svo vatnið úr gelatínblaðinu og hrærið vel saman við rjómann.
  5. Hærið rjómanum því næst saman við bráðna súkkulaðið í 3 atrennum.  Súkkulaðið stífnar mögulega aðeins upp til að byrja með en það lagast auðveldlega þegar allur rjóminn er kominn út í og búið að hræra það vel saman.
  6. Blandið þeytta rjómanum svo varlega saman við blönduna í 3 pörtum.
  7. Fyllið kökubotninn sirka 3/4 leið með súkkulaði mousse-inu og setjið inn í frysti í 30-40 mín áður en súkkulaði ganache-inu er bætt ofan á.

- Súkkulaði & kaffi-ganache -
130 grömm dökkt súkkulaði / skorið smátt
3/4 bolli rjómi
1 matskeið instant kaffi
3 matskeiðar hlynsýróp
1 gelatínblað

  1. Setjið gelatínblaðið í skál með köldu vatni í að minnsta kosti 3 mín.
  2. Setjið rjómann, kaffið og hlynsýrópið í pott, hærið við og við og hitið þar til rjóminn er við það að fara að krauma.
  3. Takið af hitanum, kreistið vatnið úr gelatínblaðinu og hrærið vandlega saman við.
  4. Hellið ganache-inu í skál/könnu og látið ná stofuhita áður en þið hellið yfir kalda kökuna og setjið inn í ísskáp til að kólna í að minnsta kosti 2 tíma.

Skreytið kökuna svo með ferskum jarðarberjum, sköfnu súkkulaði og jafnvel smá flórsykri og þeyttum rjóma.

mbl/www.snorrieldar.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert