Jólalegt hnetubuff

Guðrún Bergman gaf nýverið út bókina Hreint mataræði. Bókin hefur greinilega átt vel við því aðeins eru eftir örfá eintök á lager. Guðrún er alsæl með viðtökurnar en hún gefur bókina út sjálf. Spurð um jólalega uppskrift úr bókinni segir hún hnetubuffið vera klassískt en um leið hátíðlegt. „Mér datt í hug þessi uppskrift að hnetubuffunum, því þau eru þannig að það er hægt að frysta þau og eiga tilbúin þegar t.d. kemur að jólum - eða ef einhver gestur í jólaboðinu er grænmetisæta - og hafa þá tilbúinn rétt fyrir hann. Sósuna þarf hins vegar að gera sama dag og hennar er neytt," segir Guðrún en uppskriftin birtist upphaflega í bók eftir Guðrúnu og Guðríði Hannesdóttur, Eldað undir Jökli.

Guðrún Bergmann hefur lengi barist fyrir því að fólk hugi …
Guðrún Bergmann hefur lengi barist fyrir því að fólk hugi betur að eigin heilsu og hreinu mataræði. Árni Sæberg


Buffin urðu að klassískum grænmetisrétti á matseðli okkar þegar við fórum að reka Hótel Hellna. Hér eru þau að sjálfsögðu í glútenlausri útgáfu. Þyki buffin heldur bragðlítil er bara að bíða eftir sósunni, því hún er svo sannarlega mikilvæg með þessum rétti.“

Buffin:

  • 2 msk. sykurlaust möndlusmjör (má nota kasjúhnetu- eða jarðhnetusmjör en möndlusmjörið finnst mér best)
  • 4 msk. rísmjólk eða rísmjólk með kókos 
  • 3 egg
  • 1 meðalstór smátt saxaður rauðlaukur
  • 1 bolli heilar hafraflögur 
  • 1 tsk. kjúklingakrydd 
  • ½–1 tsk. fínt himalajasalt
  • bragð- og lyktarlaus kókosolía eða steikingarolía 
  1. Blandið saman í góðum blandara sykurlausu möndlusmjöri, hrísgrjónamjólk og eggjum.
  2. Saxið laukinn smátt og setjið hann ásamt höfrum og kryddi í hrærivélarskál.
  3. Hellið eggjablöndunni rólega saman við meðan hrært er.
  4. Látið deigið standa í u.þ.b. 1 klst. áður en buffin eru steikt, til að hafrarnir dragi vel í sig vökvann. Það gæti þurft að bæta örlítið meiri mjólk út í deigið fyrir steikingu.
  5. Hitið olíu á pönnu og setjið deigið á hana með meðalstórri skeið. Steikið buffin við miðlungshita og gætið þess að þau ofsteikist ekki, því þá er hætta á að þau þorni.

Þegar búið er að steikja buffin er gott að raða þeim í eldfast mót, setja álpappír yfir og halda þeim heitum í 100°C heitum ofni meðan sósan er útbúin.

Sósan:

  • 2–3 msk. bragð- og lyktarlaus kókosolía eða steikingarolía 
  • 1 lítill rauðlaukur, mjög fínt saxaður
  • 3 pressuð hvítlauksrif
  • örlítið af cayenne-pipar
  • 4 msk. möndlusmjör  (má nota kasjúhnetu- eða jarðhnetusmjör)
  • 2–3 msk. glútenlaus tamarisósa (smakkið ykkur áfram því hún er bragðmikil)
  • 1½–2 msk. nýpressaður sítrónusafi
  • 1 tsk. Sweet Like Sugar-strásæta eða 5 stevíudropar
  • 4 dl sykurlaus rísmjólk 
  • fínt himalajasalt eftir smekk
  1. Hitið olíuna í litlum potti. Steikið lauk og hvítlauk við miðlungshita í 2–5 mínútur.
  2. Takið pottinn af hellunni og blandið hnetusmjöri, tamarisósu, sítrónusafa, hrásykri og kryddi út í hann og hrærið vel saman.
  3. Þynnið sósuna með rísmjólk, setjið pottinn aftur á helluna og hrærið í þar til sósan jafnast. Verði hún of þunn má láta sjóða aðeins upp á henni og þá þykknar hún.

Hugmynd! Berið buffin og sósuna fram með góðu blönduðu grænmetissalati, salatsósu og hýðishrísgrjónum eða kínóa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert