Línu-Trüffle frá ömmu Dóru

Dóru Welding þekkja eflaust margir enda einstaklega fim í eldhúsinu …
Dóru Welding þekkja eflaust margir enda einstaklega fim í eldhúsinu og ekki skemmir húmorinn og gleðin í kringum hana. Hér er hún með barnabarni sínu, Díönu Marín Rúnarsdóttur. Eggert Jóhannesson

Ástríðukokkurinn og lyfjatæknirinn Dóra Welding er skreytingarglöð amma af Seltjarnarnesinu. Hún segist elska svartasta skammdegið, jólaljósin, greniilminn, stússið, baksturinn, skrautið og stemmninguna sem svífur svo ljúflega í loftinu. „Þessi mánuður er svo stútfullur af töfrum að hver dagur glitrar og maður tímir varla að fara í háttinn á kvöldin, eina sem lokkar mann í rekkju er vitneskjan um sveinka,“ segir Dóra kát. „Það sem er ómissandi á jólunum er þessi tilfinning, gleði og hamingja sem býr innra með manni, maður gæti verið staddur einn einhvers staðar í óbyggðum en samt fundið jólin innra með sér.“

Dóra segir jólabúðinginn sinn, Línu-Trüffle frá ömmu Dóru, minna sig svo á ömmu sína og því sé hún ákveðin hefð á heimilinu. „Eina skiptið í lífi mínu sem maður sá hana með vín var þegar hún dassaði svo fimlega úr sérríflöskunni yfir makkarónurnar og útbjó þennan ljúffenga jólaeftirrétt af sinni alkunnu snilld og allir biðu eftir honum allan aðfangadag. Rjómablandan, keimurinn af líkjörnum og ávextirnir gera kvöldið fullkomið,“ segir Dóra.

„Þetta er dásamlega góður og hátíðlegur eftirréttur sem amma Dóra gerði öll árin sem ég ólst upp hjá henni, minnir mig endalaust á hana, hún notaði sérrí en ég prófaði Amaretto og það var nú alls ekki síðra, sérríbragðið er samt sem áður einstaklega gott með makkarónubragðinu.

Dásamlegt Línu-Truffle að hætti ömmu Dóru.
Dásamlegt Línu-Truffle að hætti ömmu Dóru. Eggert Jóhannesson

Línu-Trüffle frá ömmu Dóru

4 stk. makkarónuvínarbrauð

1 pakki Royal-karamellubúðingur

3-4 dl Amaretto-líkjör eða sérrí

1 peli rjómi

1 stór dós niðursoðnir, blandaðir kokteilávextir

1 stór þroskaður banani

1 lengja Toblerone-súkkulaði

Síríus mjólkursúkkulaði til að bræða yfir

Fjórum stykkjum af makkarónuvínarbrauðum (ég kaupi hjá snillunum í Björnsbakaríi) mulin og raðað í botn í skál, hellt yfir vel og vandlega sérrí eða Amaretto og látið drekka í sig í góðar 30 mínútur. Rjómi þeyttur og búðingurinn einnig, láta búðinginn aðeins stífna áður en honum er blandað saman við rjómann. Skiljið örlítið eftir af rjómanum til að enda á efsta laginu. Þetta raðast síðan lag eftir lag, ávextirnir (þerra þá aðeins með pappír), sneiðar af banananum, dass yfir af bræddu súkkulaði, rjómablandan, ávextirnir, bananasneiðar og saxað Toblerone; enda síðasta lagið á hreinu rjómarestinni og Toblerone saxað vel yfir. Látið standa í ísskáp í 3-4 klst. áður en borið er fram. Ótrúlega einfaldur, fallegur og sparilegur hátíðardesert sem ættir á að rekja til Kaupmannahafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert