Nýja árið hefst með sólarplexus

Guðrún og Jóhanna Kristjánsdætur drekka í sig orku fyrir komandi …
Guðrún og Jóhanna Kristjánsdætur drekka í sig orku fyrir komandi ár. Árni Sæberg

Systrasamlagið stofnuðu systurnar Guðrún og Jóhanna Kristjánsdætur fyrir rúmum þremur árum síðan. Það er í senn verslun og kaffihús byggt á þeirri hugsjón að víkka út hugmyndina um heilsubúð og færa nær almenningi.

„Jóhanna systir hefur verið í þessum bransa í um 25 ár og þekkir þetta út og inn. Ég hef stundum fylgt henni og horft um öxl hennar og fengið áhuga á þessum heimi. Það er mín tjáningarleið að skrifa um þetta svo ég hef einnig verið að skrifa um heilsumál og haft mikinn áhuga á þeim,“ segir Guðrún. „Það voru tímamót í lífi okkar beggja systranna og þá var bara að taka höndum saman. Úr varð Systrasamlagið. Við erum líka nógu ólíkar til þess að vinna saman,“ segir hún og hlær. „Við erum báðar með okkar kosti og galla en það sem er svo fallegt að heyra er hvað það er mikilvægt að vera tvær saman. Við höfum alltaf hvor aðra. Ef önnur okkar er ekki í góðri orku þá er hin það og öfugt. Við tölum okkur í gegnum alla hluti.“

Systrasamlagið er staðsett við Suðurströnd 10 á Seltjarnarnesi en flytur á allra næstu dögum í nýtt húsnæði að Óðinsgötu 1 í miðbæ Reykjavíkur. „Það á að fara að rífa þessa stórkostlega fallegu byggingu úti á Seltjarnarnesi sem við erum í núna, og því getum við ekki verið í þeirri orku lengur þannig að við ætlum bara að fylgja flæðinu. Þegar það opnaðist ný gátt, þá ákváðum við bara að fylgja því eftir. Þannig hugsuðu jógarnir, þetta er jógahagkerfi og við fylgjum því. En okkar bíður æðislegt rými á Óðinsgötunni.“

Framtíðin er Ayurveda

Guðrún og Jóhanna bjuggu til drykk, Sólarplexus, sem varð til út frá jógafræðunum og hefur slegið í gegn.

„Ég fór til New York fyrir nokkrum árum í Kripalu-skólann að stúdera Ayurveda-fræðin, hann er einn sá besti í Bandaríkjunum. Þarna small allt saman hjá mér og ég áttaði mig á því að það væri einhver framtíð í þessu. Jóga er stöðugt að stækka og ég vissi að Ayurveda-fræðin kæmu í kjölfarið, mataræði jóganna,“ segir Guðrún.

„Þetta hefur verið okkar leiðarljós í Systrasamlaginu, að hugsa um hvað við erum að næra í skrokknum hverju sinni. Svo fórum við að pæla í innihaldsefnunum því það snýr alltaf allt að meltingunni, þar hangir þetta allt saman, þar er krafturinn. Sólarplexusinn, drykkurinn sem við settum saman og er sannkallaður meltingarelexír og gefur kraft.“

Systurnar Guðrún og Jóhanna Kristjánsdóttir eigendur heilsubúðarinnar Systrasamlagið.
Systurnar Guðrún og Jóhanna Kristjánsdóttir eigendur heilsubúðarinnar Systrasamlagið. Eggert Jóhannesson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert