Opnar lífrænan og sykurlausan pítsastað

"Mín uppáhalds pizza á matseðlinum, er með ferskum tómötum, ferskum basil, ferskum mozzarella, saltverkssalti og nýmöluðum svörtum pipar, virkilega vel heppnuð að mínu mati," segir Siggi. Árni Sæberg/mbl.is

Sigurður Már Davíðsson matreiðslu- og kvikmyndagerðarmaður bakar brosandi ofan í Kópavogsbúa en hann opnaði nýlega pítsustaðinn Bíóbökuna í Hamraborg við mikinn fögnuð gesta. Bíótengingin hefur því tvöfalda merkingu þar sem Siggi eins og hann er kallaður, reynir eftir fremsta megni að nota lífrænt hráefni sem kallast gjarnan BIO og er sjálfur kvikmyndagerðarmaður. „Síðan fannst okkur gaman að blanda saman bíómyndum við þemað, svolítill orðaleikur. “ segir Siggi en sannkallað bíóþema er á staðnum.

Skemmtileg stemmning er á Bíóbökunni þar sem tvö áhugamál Sigga …
Skemmtileg stemmning er á Bíóbökunni þar sem tvö áhugamál Sigga blandast saman í formi matreiðslu og kvikmynda. Árni Sæberg/mbl.is

Sigurður hefur starfað sem matreiðslumaður víða um heim meðal annars í Austurrísku Ölpunum. „Síðar leiddist ég út í kvikmyndagerð og hef verið viðloðandi þann geira undanfarin ár og er enn,“ segir bíóbakarinn en hann rekur staðinn ásamt sambýliskonu sinni Ingunni Einarsdóttur en Ingunn er úr Kópavoginum þar sem Bíóbakan er staðsett. „Hamraborg er æðisleg staðsetning. Hún er mjög miðsvæðis og svona eðlilegt íslenskt fyrirbæri, kjarni með alls konar möguleikum. Það gleður mig mikið að bæjaryfirvöld séu búin að ákveða að leggja til talsvert fé til að fegra og fínpússa svæðið, þetta er jú miðbær Kópavogs og hér er gríðarlegur uppgangur bæði í verslun og mannlífi, fyrir utan það eru hér kominn nokkur hótel og því er þetta orðin góð blanda af ferðamönnum og Íslendingum sem sækja í Hamraborgina.“

Siggi segir viðtökurnar hafa verið vonum framar. „Það er í sjálfu sér óvanalegt að lítill „take away“-pítsustaður sé að bjóða upp á skyndibita með svo háum gæðastuðli. Það er að segja allt er búið til frá grunni á staðnum og súrdeigið er 100% lífrænt, enginn sykur í neinu og ekkert ger.“

Matseðillinn er í sömu stærð og gamlar kvikmyndafilmur.
Matseðillinn er í sömu stærð og gamlar kvikmyndafilmur. Árni Sæberg/mbl.is

„Við erum mjög hrifin af Slow Food-samtökunum og reynum að vinna algjörlega eftir þeirri hugmyndafræði. Það mætti segja að við værum einhvers konar Slow Fast Food-útgáfa, við reynum að hugsa vel um umhverfið, flokkum og skilum og allur sá pakki," segir kokkurinn fjölhæfi, umhverfisvænn og alsæll í Kópavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert