Aalto bistró opnar aftur í dag

Sveini Kjartanssyni finnst sveitasælan í Vatnsmýrinni dásamleg.
Sveini Kjartanssyni finnst sveitasælan í Vatnsmýrinni dásamleg. KRISTINN INGVARSSON

Norræna húsinu var lokað vegna viðhalds á pípulögnum og öðru sem gerði það að verkum að öll starfsemi í húsinu lagðist niður frá áramótum. Sveinn Kjartansson, eigandi Aalto bistró í Norræna húsinu, segist hafa notað tækifæri til að mála og dytta að því sem ekki hefur unnist tími til í dagsins önn.

„Við erum með veisluþjónustu og höfum verið að sinna því og svo höfum við náð að hvíla okkur eftir annasaman desember og undirbúa nýjan matseðil sem við höfum hug á að setja í gagnið í febrúar,“ segir Sveinn sem er mörgum kunnugum en hann stýrði vinsælu matreiðslu- og mannlífsþáttunum Fagur fiskur sem voru sýndir á RÚV fyrir nokkrum árum. Frumleg og skapandi matreiðsla Sveins vakti mikla athygli og fékk fyrri þáttaröðin Edduna.

Grænmetisréttirnir á Aalto þykja afbragðsgóðir og gullfallegir.
Grænmetisréttirnir á Aalto þykja afbragðsgóðir og gullfallegir.

Fyrir tæpum þremur árum opnaði Sveinn veitingahúsið Aalto Bistro í Norræna húsinu. Staðurinn er nefndur eftir arkitekt hússins, hinum víðfræga finnska Alvar Aalto enda er Norræna húsið einstakur minnisvarði um þennan einstaka arkitekt. Ekki einasta hannaði hann bygginguna, heldur eru velflestir innanstokksmunir; borð, stólar, lampar, loftljós og jafnvel hurðarhúnar, hönnun þessa einstaka arkitekts. Sveinn hefur haldið merki Aaltos á lofti á veitingastað sínum með því meðal annars að bera fram girnilega rétti sína á borðbúnaði úr smiðju Alvars Aaltos, sem framleiddir eru af finnska fyrirtækinu Ittala. 

Aalto er vinsælt veitingahús en það vekur athygli að meginþorri …
Aalto er vinsælt veitingahús en það vekur athygli að meginþorri gesta eru Íslendingar.

Gestir eru í meira lagi Íslendingar 

Sveinn segist leggja áherslu á fiskrétti á veitingahúsinu í bland við nýstárlega vegan-rétti. Spurður um hvernig gangi að reka veitingahús fyrir utan miðbæinn segir hann það ganga mjög vel. „Veitingahúsið er vel sótt þrátt fyrir að vera aðeins burtu frá miðbænum. Við fáum til okkar marga Íslendinga í bland við erlenda ferðamenn auðvitað, en aðallega eru okkar viðskiptavinir Íslendingar.“

Sveinn segir staðsetninguna í raun vera mun meiri kost enda sé hálfgerð sveitastemmning sem fylgi því að horfa yfir Vatnsmýrina. „Staðsetninginn er auðvitað einstök og útsýnið er fallegt og það er einhver sveitasæla í Vatnsmýrinni þó að við séum í 101.“

Veitingahúsið er einnig hið fínasta kaffihús en ekki mörg veitingahús bjóða upp á kaffi og bakkelsi yfir daginn. Í raun loka mörg veitingahús eftir hádegismat til þess að undirbúa kvöldtörnina. „Í síðdeginu er gott að koma við og fá sér ilmandi kaffi með úrvali af heimabökuðum kökum og tertum. AALTO Bistro er síðan opið á fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöldum fyrir rómantískan kvöldverð með einstöku útsýni yfir fuglafriðlandið i Vatnsmýrinni og yfir ljósum prýdda miðborgina,“ segir Sveinn, hæstánægður með að geta boðið gesti velkomna á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert