Nútímapungar - frábært millimál

Ljósmynd/MyModernCookery

Fyrir þá sem eru ekki alveg að ráða við hrútspungaátið – eða sneiða hjá kjötvörum  er tilvalið að bjóða upp á eitthvað nýtt og spennandi á þorrablótinu. Ef ykkur er stórlega misboðið þá megið þið bara sleppa því að lesa lengra en fyrir ykkur hin sem eruð aðeins hressari þá er hér uppskriftin að kókoshnetu-, lime- og bláberjapungum sem eiga að keyra upp orkuna!

Höfundur þessara nútíma punga hafði þó ekki íslensk þorrablót í huga heldur var hún meira að pæla í sniðugu orkusnakki sem hægt væri að grípa með sér hvert sem er. Hún bendir á að hægt sé að leika sér með uppskriftina og skipta út bláberjum fyrir súkkulaði og vanillu fyrir lime-safann en okkur líst vel á þetta og birtum hér með – fullviss um að þessir krúttpungar eigi eftir að slá í gegn á þorrablótum landsmanna í ár.

Uppskrift:

  • ½ bolli möndluflögur
  • ½ bolli kókosflögur
  • safi og rifinn börkur af einu lime
  • ¼ bolli hungang
  • 1 bolli hafrar
  • ½ bolli hampfræ eða hörfræ
  • ½ bolli þurrkuð bláber

Aðferð:

  1. Setjið möndlurnar, kókosflögurnar, lime-börkinn, lime-safann og hunangið í matvinnsluvél og maukið uns það er orðið mjúkt.
  2. Bætið við helmingnum af höfrunum og maukið enn betur.
  3. Takið maukið í skál og bætið við hinum helmingnum af höfrunum, hampfræjunum og bláberjunum. Blandið vel saman. Á þessu stigi gæti blandan litið út fyrir að haldast ekki saman en hún mun gera það.
  4. Búið til tólf kúlur og verið óhrædd við að nota hendurnar.
  5. Geymið kúlurnar í kæli. Þær geta geymst í allt að viku.
Ljósmynd/MyModernCookery
Ljósmynd/MyModernCookery


Heimild: My Modern Cookery

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert