Kaffihúsin í Vínarborg

Hin eina sanna Sacherterta á Café Sacher, eða hvað? Deilur …
Hin eina sanna Sacherterta á Café Sacher, eða hvað? Deilur stóðu um árabil milli Café Sacher og Demel um réttinn til að nefna sína tertu „Original Sacher-Torte". Á endanum var samið um að Café Sacher héldi nafninu, en Demel kallar sína tertu Eduard Sacher-Torte, en Eduard var starfandi hjá Demel þegar hann þróaði tertuna í þá mynd sem við þekkjum hana í dag. Seinna stofnaði Eduard Hotel Sacher. Það var hins vegar faðir hans Franz Sacher, þá 16 ára gamall sem bakaði allra fyrstu Sacher tertuna fyrir Klemens Metternich kanslari Austurríkis árið 1832. Ómar Óskarsson

Kaffidrykkja hófst á Arabíuskaga á miðöldum. Þaðan breiddist siðurinn til Mið-Austurlanda og síðan til Evrópu á sautjándu öld. Fyrsta kaffihús álfunnar var stofnað í Feneyjum 1647. Sagan segir að eftir að umsátri Tyrkja um Vínarborg 1683 var hrundið hafi hermenn fundið sekki með kaffibaunum sem þeir töldu vera úlfaldafóður. Kulczycki liðsforingi í pólska hernum blandaði sér í málið þar eð hann vissi eitthvað um kaffi eftir fangavist hjá Tyrkjum. Hófst hann handa við tilraunir með brennslu og mölun baunanna og tókst að lokum að búa til kaffi. Upp frá því voru fljótlega stofnuð mörg kaffihús í Vínarborg og kaffimenningin þróaðist meira en víðast hvar í álfunni.

Algengar tegundir á lista nútímakaffihúsa í Vínarborg eru Mokka, Brauner, Kapuziner, Eiskaffee, Verlängerter og Einspänner. Einspänner er svart kaffi framreitt í háu glasi með þeyttum rjóma ofan á í þeim tilgangi að halda kaffinu heitu fyrir knapa á veðreiðum. Þar af er dregið nafnið Einspänner sem merkir hestvagn með einu hrossi. Ýmsar útgáfur af kaffi eru kenndar við keisarafjölskylduna. Af þeim má nefna Kaisermelange, sterkt kaffi blandað þeyttri eggjarauðu, rjóma, sykri eða hunangi og síðan bragðbætt með koníaki, „Maria Theresia“ sem er tvöfaldur mokka með appelsínulíkjör út í og þeyttum rjóma ofan á. En alltaf er Wiener Melange vinsælast. Melange er svipað cappuccino, en samkvæmt hefð borið fram með vatnsglasi og langri skeið, stundum á silfurbakka. Á Café Sacher og víðar tíðkast að setja þeyttan rjóma á Melange.

Wiener Melange borið fram samkvæmt hefð á Café Hawelka. Vatnsglasið …
Wiener Melange borið fram samkvæmt hefð á Café Hawelka. Vatnsglasið sykurkarið og langa skeiðin á sínum stað á bakkanum. Ómar Óskarsson

Lýðræðisklúbbar opnir öllum

Andans menn af ýmsu tagi settu svip sinn á kaffihúsin í miðborg Vínar um og upp úr aldamótunum 1900. Einn af fastagestum Café Central, hinn frægi rithöfundur Stefan Zweig, komst að orði eitthvað á þessa leið: „Kaffihús Vínarborgar eru stofnanir af sérstakri tegund sem ekki finnast annars staðar; Nokkurs konar lýðræðisklúbbar opnir öllum fyrir þann smápening sem kaffibolli kostar. Þar geta menn setið tímunum saman og spjallað, skrifað, móttekið sendibréf, spilað á spil, en umfram allt drukkið í sig dagblöð og tímarit“. Gestum hússins stóðu til boða allt að 250 dagblöð og tímarit á 22 tungumálum á þessum tíma. Vitað er að Sigmund Freud, Josip Broz Tito, Adolf Hitler, Vladimir Lenin og Leon Trotsky litu inn á Café Central í janúarmánuði 1913, ekki þó samtímis nema þeir tveir síðastnefndu sem sátu þar gjarnan að tafli. Af fastagestum hússins meðal skálda og rithöfunda auk Zweig má nefna Arthur Schnitzler, Franz Kafka, Karl Kraus og Peter Altenberg sem hélt nánast til á Central og lét senda sér póstinn þangað.

Stefan Zweig, sem var gyðingur, flutti til Englands skömmu eftir valdatöku nasista í Þýskalandi. Árið 1942 lauk hann við æviminningabók sína „Veröld sem var“. Í henni lýsir hann tilverunni í Vínarborg á tímanum fyrir heimsstyrjaldirnar. Eftir að hafa póstlagt handritið til útgefanda svipti hann sig lífi ásamt konu sinni, en þau bjuggu þá í Brasilíu. Á stríðsárunum var rekstur kaffihúsanna erfiður og mörg þeirra lögðu upp laupana. Café Central varð fyrir sprengjum bandamanna og hætti starfsemi. Eftir stríð þóttu kaffihúsin gamaldags og óspennandi.

Innréttuð eins og fyrir hundrað árum

Á seinni hluta tuttugustu aldar náðu kaffihúsin smám saman að rétta úr kútnum. Árið 1975 opnaði Café Central á nýjan leik, ekki síður glæsilegt en áður. Það þykir orðið smartara að fá sér Wiener Melange og Sacher tertu en að fara á krá að hella í sig bjór. Gömlu kaffihúsin eru innréttuð eins og fyrir hundrað árum og þjónustufólk klæðist í samræmi við það. Við innganginn fatastandur fyrir yfirhafnir. Einnig dagblöð og dagblaðaklemmur. Lýsing dempuð á kvöldin, það marrar í gömlum gólffjölum. Sums staðar er leikin píanótónlist, eða jafnvel lesið upp úr bókum. Þjónarnir eru hæfilega afundnir, eins og það sé partur af menningunni. Góðborgararnir koma til að anda að sér stemningu frá veröld sem var. Ferðahandbækurnar hlaða lofi á kaffihúsin og ferðamenn flykkjast þangað. Biðraðir myndast fyrir utan þau þekktustu seinni part dags. Þetta er eitthvað sem verður að upplifa. Asíubúar eru áberandi áhugasamir.

Kaffihús Vínarborgar eru nálægt þúsund talsins, en til að telja upp nokkur af þeim þekktari í fyrsta hverfi má nefna: Café Griensteidl við Michaelerplatz andspænis keisarahöllinni, Café Hawelka í Dorotheergasse 6, Café Sacher í samnefndu hóteli við Philharmanikastrasse 4 andspænis ríkisóperunni, Café Central við Herrengasse 14, Café Landtmann við hlið Burgtheater á Ringstrasse, hið fræga kökuhús Demel við Kohlmarkt 11 og Café Frauenhuber sem er elsta kaffihús borgarinnar í samfelldri starfsemi. Það var opnað sem veitingastaður yfirstéttarinnar við Himmelpfortgasse 6 seint á átjándu öld. Þar léku bæði Mozart og Beethoven fyrir gesti, en ekki þó samtímis. Síðan 1824 hefur verið þar kaffihús sem gengið hefur undir ýmsum nöfnum gegnum tíðina, en frá 1891 heitið Café Frauenhuber.

Glæsikaffihúsið Café Sacher í samnefndu hóteli sem er andspænis ríkisóperunni. …
Glæsikaffihúsið Café Sacher í samnefndu hóteli sem er andspænis ríkisóperunni. Hér hefur mikið af frægu fólki lagt leið sína, svo sem Herbert von Karajan, Leonard Bernstein, Placido Domingo og José Carreras. Vorið 1969 voru þau John Lennon og Yoko Ono með uppákomu á hótelinu sem þau kölluðu „Bagism“ eins og frægt var. Listinn yfir þekkt fólk sem gist hefur á Hotel Sacher er býsna langur, en meðal þeirra eru Johm F. Kennedy, Elísabet bretadrottning, Filippus prins, Rainer fursti af Monaco, Kofi Annan aðalritari S.Þ, Edward VIII bretakonungur ásamt ástkonu sinni Wallis Simpson. Ómar Óskarsson
Kökuúrvalið hjá Café Central er bara nokkuð freistandi.
Kökuúrvalið hjá Café Central er bara nokkuð freistandi. Ómar Óskarsson
Café Central nýtur svo mikilla vinsælda að algengt er að …
Café Central nýtur svo mikilla vinsælda að algengt er að sjá biðraðir langt út á götu. Ómar Óskarsson
Glæsikaffihúsið Café Sacher í samnefndu hóteli sem er andspænis ríkisóperunni. …
Glæsikaffihúsið Café Sacher í samnefndu hóteli sem er andspænis ríkisóperunni. Hér hefur mikið af frægu fólki lagt leið sína, svo sem Herbert von Karajan, Leonard Bernstein, Placido Domingo og José Carreras. Vorið 1969 voru þau John Lennon og Yoko Ono með uppákomu á hótelinu sem þau kölluðu „Bagism“ eins og frægt var. Listinn yfir þekkt fólk sem gist hefur á Hotel Sacher er býsna langur, en meðal þeirra eru Johm F. Kennedy, Elísabet bretadrottning, Filippus prins, Rainer fursti af Monaco, Kofi Annan aðalritari S.Þ, Edward VIII bretakonungur ásamt ástkonu sinni Wallis Simpson. Ómar Óskarsson
Óhætt er að segja að Café Central sé með glæsilegri …
Óhætt er að segja að Café Central sé með glæsilegri kaffihúsum. Ómar Óskarsson
Á Café Hawelka er alltaf troðið útúr dyrum. Á stríðsárunum …
Á Café Hawelka er alltaf troðið útúr dyrum. Á stríðsárunum varð að loka kaffihúsinu, því eigandinn, Leopold Hawelka var tekinn í herinn. Uppúr 1970 varð staðurinn vinsæll samkomustaður rithöfunda og listamanna. Ómar Óskarsson
Vetrargarðurinn er útbygging frá Café Landtmann.Kaffihúsið nýtur góðs af nábýli …
Vetrargarðurinn er útbygging frá Café Landtmann.Kaffihúsið nýtur góðs af nábýli við Burgtheater, ráðhúsið og aðalbyggingu Háskólans. Staðurinn var í miklu uppáhaldi hjá Marlene Dietrich, Romy Schneider og Gary Cooper. Ómar Óskarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert