Svona mun Jamie‘s Italian á Hótel Borg líta út

Gylltisalurinn verður opnaður á hliðunum svo hægt er að horfa …
Gylltisalurinn verður opnaður á hliðunum svo hægt er að horfa inn í eldhús. Takið eftir loftinu - það er friðað og er í raun stórkostlegt málverk þó það sjáist ekki á myndinni. Jamie's Italian / mbl.is

Framkvæmdir á veitingarými Hótels Borgar munu hefjast á næstu dögum en stefnt er að því að opna veitingahús að hætti Jamie Olivers þar í maí. Veitingahúsið er hluti af ítalskri keðju stjörnukokksins sem ber nafnið  Jamie‘s Italian. Þrívíddarteikningar af útliti staðarins eru tilbúnar og lofa góðu eins og sést á meðfylgjandi myndum.

Jón Haukur Baldvinsson, einn eigenda veitingahússins, segir að framkvæmdir hefjist um helgina en mikill undirbúningur hefur farið í hönnun staðarins.  Hótel Borg stendur í sögufrægu húsi og skiptist í fremra veitingarými, Gyllta salinn svokallaða og Karolínustofu þar sem hinn víðfrægi Skuggabar var á árum áður. „Jamie Oliver leggur mikið upp úr staðsetningu og húsnæði staðanna sinna en hann er sjálfur mjög hrifinn af veitingarýminu á Hótel Borg. Loftið í Gyllta salnum er friðað og því munum við leitast við að raska húsinu og persónueinkennum þess sem minnst,“ segir Jón Haukur sem er ánægður með útkomu hönnunarvinnunnar.

Þrívíddarmyndir af veitingarrýminu lofa góðu. Gólfefnið og loftið er það …
Þrívíddarmyndir af veitingarrýminu lofa góðu. Gólfefnið og loftið er það sama og var áður. Jamie's Italian / mbl.is

„Yfirhönnuður veitingahúsanna hefur fylgt hönnuninni á staðnum hérlendis eftir allan tímann og við erum mjög ánægðir með útkomuna. Opið verður úr Gyllta salnum inn í eldhús svo fólk getur fylgst með matreiðslumönnunum að störfum. Það er einnig hugmynd að vera með langborðin í eldhúsinu, svokallað „chef‘s table“ þar sem gestir geta setið og fengið stemninguna beint í æð.“

Önnur vinna við staðinn gengur vel og komin góð heildarmynd bæði á útlit og starfsemi. „Matseðillinn er að verða klár, búið er að ráða í flestar  stöður og þetta gengur allt samkvæmt áætlun,“ segir Jón sem bendir áhugasömum á að enn sé þó verið að ráða en upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu staðarins. 

Jón Haukur og félagar stefna á að opna í maí …
Jón Haukur og félagar stefna á að opna í maí á þessu ári. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert