Bræður safna fyrir hamborgarastað á Vesturgötu

Bræðurnir sjáu um allt frá hönnun, smíðum og eldamennsku á …
Bræðurnir sjáu um allt frá hönnun, smíðum og eldamennsku á staðnum BioBorgara sem nú er farin að taka á sig mynd á Vesturgötu. /karolinafund.is

Bræðurnir Vífill og Ýmir Eiríkssynir ætla sér að opna lífrænan hamborgarastað á Vesturgötu og leita nú til almennings til að safna fyrir því sem upp á vantar. Áhugasamir geta því keypt sér fyrirframgreiddar máltíðir á Karolínafund til að styrkja þá bræður á lokasprettinum. Staðurinn mun hljóta nafnið BioBorgari. 

Bioborgari er til húsa að Vesturgötu 12. Húsnæðið var áður verslun sem bræðurnir hafa verið að vinna við að breyta í veitingastað. Fyrir þeim var mikilvægt en lá jafnframt beint við, að fara sjálfir í gegnum allt ferlið og koma að sem flestu varðandi uppbyggingu staðarins og er það í raun hluti af heildar konseptinu. Þeir hafa m.a. sjálfir hannað, teiknað og smíðað innanstokksmuni og innréttingar. „Þetta hefur verið skemmtilegt og lærdómsríkt ferli sem gerir staðinn áhugaverðan og persónulegan, “segir á síðu söfununnarinnar á Karolinafund.

„Þá má segja að það hafi legið í hlutarins eðli að koma að sem flestu, sem kannski má tengja við uppeldið og skólagönguna. Þar höfum við kynnst því hvernig hlutir eru unnir frá grunni eins og t.d. að búa til smjör eða fara út og sækja grein til að tálga smjörhníf, gera súr og baka súrdeigsbrauð o.s.frv. Í okkar uppvexti var áhersla lögð á að vera skapandi í leik og starfi. Við ólumst upp að hluta til rétt fyrir utan bæinn og var sjálf náttúran okkar leiksvæði sem bauð upp á margt skemmtilegt og ævintýralegt. Þar nutum við mikils frelsis, lífið var leikur og er það enn. Við lærðum að meta það sem náttúran hefur upp á að bjóða og berum mikla virðingu fyrir henni. Í dag sækjum við mikið út í náttúruna til að njóta og endurnærast og er hún okkur mjög dýrmæt.“

Með BioBorgara eru þeir Vífill og Ýmir að samtvinna áhugamál …
Með BioBorgara eru þeir Vífill og Ýmir að samtvinna áhugamál sín og menntun, arkitektúr og matreiðslu /karolinafund.is

Þó BioBorgari sé skyndibitastaður liggur heilmikil vinna að baki hverjum hamborgara. Brauðið verður bakað á staðnum úr sænsku gæðamjöli, súrdeigsbrauð þar sem náttúruleg gerjun á sér stað og gerir baksturinn áhugaverðan og skemmtilegan. Þetta er lifandi en viðkvæmt ferli þar sem hinir ýmsu þættir í umhverfinu hafa áhrif og einnig þeir kraftar sem búa í náttúrunni. Súrdeigsbakstur er langtímaferli sem gerir það að verkum að brauðið verður auðmeltara og næringin nýtist betur.

Allar sósur og meðlæti vinna bræðurnir frá grunni og leyfa þannig gæðahráefninu að njóta sín. Grænmetið skipar stóran sess í matreiðsluferlinu með áherslu á ferskar árstíðabundnar afurðir. „Þegar við gerum sósuna sem einungis samanstendur af grænmeti, þá ofnbökum við fyrst allt grænmetið og þannig náum við fram sætunni. Sem mótvægi við sætuna erum við með pestó. Í pestóið notum við meðal annars sítrónur sem hafa legið í saltpækli og fermenterast í að minnsta kosti þrjár vikur, þannig getum við notað alla sítrónuna; börkinn, olíuna og ekki síst beiskjuna sem sítrónan gefur.“

Matseðillinn verður einfaldur en hann mun samanstanda af hefðbundnum hamborgara að hætti bræðranna og "special" hamborgara sem verður breytilegur eftir því hvaða hráefni er á markaðnum hverju sinni. Kjötið kemur frá þeim fáu bændum á landinu sem eru með lífræna nautgriparækt. Á borðstólnum verður einnig grænmetisborgari sem verður vegan. Jafnframt munu þeir vera með ferskt rótargrænmetissnakk sem þeir útbúa á staðnum.


Verkefnið er á lokasprettinum og vantar nú fjármuni til að geta keypt inn hráefni. Áhugasömum verðandi viðskiptavinum býðst nú að kaupa sér máltíð eða 10 máltíða kort fyrirfram og styrkja þannig projektið. Okkur hlakkar til að geta boðið upp á gæðaskyndibita í miðbæ Reykjavíkur.

Fyrir áhugasama er hægt að styrkja þá bræður hér.

Vífill við smíðar.
Vífill við smíðar. /karolinafund.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert