Súkkulaði-, hnetusmjörs- og bananahristingur

ljósmynd/minimalist baker

Góðir blandarar prýða núorðið flest heimili og þá er ekki úr vegi að skella í einn góðan hristing eða svo. Þessi elska er að mestu búin til úr banönum og trixið er að frysta hann áður en hristingurinn er gerður þannig að hann minni helst á ís.

Þessi hristingur er kjörinn sem millimál fyrir krakkana eða jafnvel sem morgunverður en þá mælum við með að sett séu hör- eða hampfræ út í hann til að auka næringargildið.

En auðveldur er hann og það tekur um það bil 3 mínútur og 26 sekúndur að búa hann til.

Súkkulaði-, hnetusmjörs- og bananahristingur

  • 1 stór banani, sem búið er að afhýða, skera og frysta
  • 2 msk. saltað hnetusmjör, veljið holla týpu
  • 1-2 döðlur, steinhreinsaðar
  • 1 msk. kakó
  • 240-360 ml möndlumjólk
  • klaki (valfrjálst)

Valfrjálsar viðbætur

  • 1 msk. kakónibbur
  • 1 msk. hör- eða hampfræ
  • Súkkulaðisósa til að setja innan í glasið
  • Þeyttur kókosrjómi (eða venjulegur)

Aðferð

  1. Setjið öll hráefnin í blandarann fyrir utan möndlumjólkina. Bætið mjólkinni smám saman við og stýrið því hversu þykkan eða þunnan þið viljið hafa hristinginn. Því meiri mjólk, því þynnri verður hann og öfugt.
  2. Smakkið til og stillið hristinginn af eftir smekk. Ef þið viljið hafa hann sætari skuluð þið setja fleiri döður, meira kakó til að fá súkkulaðibragð og meira hnetusmjör ef þið viljið hafa hann saltari.
  3. Við mælum með að þið drekkið hristinginn strax en hann geymist í sólarhring í kæli. Hægt er að búa til íspinna úr afganginum.
ljósmynd/minimalist baker
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert