Sjúklega góður núðluréttur

ljósmynd/A Pinch of Yum

Þetta telst seint vönduð fyrirsögn en hún er sérlega lýsandi fyrir þennan rétt sem við ætlum að deila með ykkur og er í miklu uppáhaldi. Um er að ræða núðlurétt með bragðmikilli sósu og til að gera gott betra eru notaðar bókhveitinúðlur en þær eru sérdeilis frábærar eins og flest núðluáhugafólk veit.

Kjósi menn heldur að nota „hefðbundnar“ núðlur er það í góðu lagi en rétturinn er í senn bragðmikill, hollur og auðveldur þannig að við mælum sterklega með því að þið gerið hann. Svo má deila afrakstrinum á samfélagsmiðlum og myllumerkja með #matur.a.mbl

Sjúklega gott núðlusalat

Krydduð hnetusósa

  • 5 msk. hnetusmjör (holla týpan)
  • 5 msk. vatn
  • 5 msk. soyasósa eða tamari (ef þið viljið hafa réttinn glútenlausan)
  • 2 msk. sesamolía
  • 2 msk. hunang
  • safi úr 1 lime
  • 1 hvítlauskgeiri
  • 60 ml chili sósa eins og Sriracha (fer eftir því hvað þið þolið sterka sósu)
  • 1 dl salthnetur

Salat

  • 450 g kjúklingabringur
  • 1 rauð paprika
  • 3-4 bollar af söxuðu rauðkáli
  • 300 g soba-núðlur
  • ferskt kóríander eða basil eftir smekk
  • saxaðar salthnetur til að sáldra yfir salatið

Aðferð:

  1. Krydduð hnetusósa: Setjið allt hráefnið í matvinnsluvél eða blandara. Setjið salthneturnar síðast til að stjórna betur hversu þykk/þunn sósan er.
  2. Kjúklingur: Steikið kjúklinginn á pönnu á miðlungsháum hita. Kryddið með salti og pipar. Þegar kjúklingurinn er gegneldaður skal setja hann til hliðar og láta kólna þannig að hægt sé að rífa hann niður
  3. Grænmeti: Saxið rauðu paprikuna, kálið og kóríander niður – eins smátt og þið viljið hafa það.
  4. Núðlur: Sjóðið núðlurnar samkvæmt leiðbeiningum.
  5. Setjið saman: Setjið allt saman í skál með nægri sósu til að hjúpa vel. Berið fram heitt eða kalt.
ljósmynd/A Pinch of Yum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert