Vængmaðurinn er engin subba - býður einnota hanska með matnum

Birgir Rúnar ásamt Vængmanninum ógurlega.
Birgir Rúnar ásamt Vængmanninum ógurlega. mbl.is/RM

Matarbíllinn The Wingman þreytti frumraun sína á Secret Solstice hátíðinni við frábærar móttökur. Má segja að matarbílar séu að slá í gegn og telst það fagnaðarefni. Kjúklingavængir eru klassískir og alltaf vinsælir og því ekki við öðru að búast en að The Wingman sé kominn til að vera. Það eru þeir Marinó Þór, Haukur Baldvinsson, Birgir Rúnar og Þórður Axel sem eru mennirnir á bak við bílinn og þeir segja að það séu ekkert nema spennandi tímar framundan.

Hvað er hugmyndin bakvið The Wingman og hvernig kom hún til?

Þetta hefur verið draumur í kannski svona tvö til þrjú ár, að opna matarvagn saman strákanir. Fyrir tæplega ári síðan þá fórum við svo að ræða þetta af einhverri alvöru og létum loks verða að. Við erum fjórir strákar sem útskrifuðumst saman úr Háskólanum í Reykjavík fyrir nokkrum árum og höfum haldið hópinn síðan.

Hvað býður Wingman upp á?

Við bjóðum upp á bæði Hot Wings og BBQ vængi sem og franskar kartöflur. Svo ætlum við að hafa Candy Floss í dessert. Við stefnum á að bjóða upp á blómkáls „vængi“ í framtíðinni. Vonandi bætast þeir við matseðilinn fljótlega. Við bjóðum öllum einnota hanska með matnum svo að það sé hægt að borða matinn á snyrtilegri hátt, sem skapar skemmtilega stemmningu.

Hvar mun vagninn starfa í sumar?

The Wingman ætlar að ferðast aðeins um landið í sumar og heimsækja nokkrar útihátíðir sem og stærri hátíðir hér á höfuðborgarsvæðinu. Einnig munum við bjóða upp á veisluþjónustu og mæta með vagninn í veislur í sumar.

Hvernig gekk undirbúningurinn fyrir sumarið?

Undirbúningurinn hefur gengið nokkuð vel. Kannski smá stress á köflum en það er bara rómantík í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert