Vinsælasta Costco-kvartið: Vitlaust kjöt og hækkað verð

Opnun costco
Opnun costco Kristinn Magnússon

Það skal tekið fram að Matarvefurinn er sérlegur aðdáandi hópsins Keypt í Costco Ísl - myndir og verð og að sjálfsögðu fylgjumst við með því sem þar fer fram. Það sem er sérlega áhugavert er samhugurinn sem ríkir þar inni og hvað fólk er viljugt að aðstoða hvað annað. Svo er einnig magnað að sjá hvað fólk er meðvitað um vöruverð og verðlagsþróun og finnst mörgum tími til kominn að landinn vakni af værum blundi.

Okkur lék forvitni á að vita hvað væri helst í fréttum inni á grúppunni og sáum að verið er að vara fólk við röngum merkingum á nautakjöti. Hefur fólk lent í því að kaupa rándýrar og góðar steikur en í pakkningunni hefur verið allt aðra steik (og mun verri) að finna. Nokkrir könnuðust við þetta vandamál og vildu vara aðra við. Lítið mál ku vera að skila vörunni en eins og bent var á þá tekur tíma að keyra í Kauptúnið.

Eins hafa einhverjir áhyggjur af hækkandi verði á bláberjum en 680 gramma askja kostaði 597 krónur í lok júní en tveimur vikum seinna kostaði hún 999 krónur. Eru menn ekki sáttir við þessa verðlagsþróun. Sumir bentu á að verði í Costco væri ekki fast á meðan aðrir bentu réttilega á gengisþróun sem ætti að vera neytendum í hag ef vel ætti að vera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert