Grilluð pizza með fíkjum, gráðosti og sultuðum lauk

Ljósmynd: Feasting at Home

Grillaðar pizzur eru stórkostleg uppfinning. Brauðið verður sérlega stökkt og gott auk þess sem grillkeimurinn smýgur í gegn sem gerir bragðið algjörlega truflað. 

Það er því ekki að ástæðulausu sem við birtum þessa uppskrift enda fara hér saman nokkrar stórsleggjur í matargerð. Fíkjur og gráðost þarf vart að kynna og sultaður laukurinn stendur alltaf fyrir sínu. Þetta er því eins skothelt og hugsast getur og við segjum því bara: Verði ykkur að góðu!

Grilluð pizza með fíkjum, gráðosti og sultuðum lauk

  • 1 rauðlaukur, skorinn í þunna hringi
  • 2 msk. ólífuolía
  • ögn af salti
  • 2 msk. balsamik edik
  • ögn af pipar
  • 1 tsk. sykur eða hunang
  • 450 gr. pizzudeig, skipt í tvo eða fjóra hluta
  • 1 hvítlauksgeiri, maukaður
  • 1 bolli rifinn mozzarella
  • 1 bolli mulinn gráðostur 
  • 8 fíkjur, skornar í ferninga
  • handfylli af klettasalati

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 220 gráður eða setjið grillið á (eða kveikið upp í kolunum).
  2. Látið deigið hvíla á hveitilöguðu yfirborði í 20 mínútur. 
  3. Í stórri pönnu skal steikja laukinn í olíunni á meðalháum hita í 3 mínútur. Hrærið stöðugt í. Lækkið hitann og saltið. Haldið áfram að steikja laukinn í 10 mínútur eða svo eða þar til laukurinn fer að „karamellast“ og mýkjast. Bætið þá við balsamik-ediki, sykri og pipar. Eldið í 3-4 mínútur til viðbótar uns vökvinn hefur soðið töluvert niður. Setjið til hliðar.
  4. Skiptið deiginu upp í 2-4 hluta og fletjið út.
  5. Ef þið ætlið að grilla deigið skulið þið setja það beint á heita grindina og grilla í 2-3 mínútur eða þar til komin eru falleg grillför. Snúið þá við og grillið á hinni hliðinni. Ef baka á pizzuna mælum við með að þið forbakið deigið fyrst og setjið síðan áleggið ofan á.
  6. Nuddið maukaða hvítlauknum á pizzubotnana. Skiptið ostinum í tilhlýðilegan fjölda og setjið á pizzurnar, setjið fíkjurnar og laukinn ofan á og setjið aftur á grillið eða í ofninn til að klára eldunina.  
  7. Þegar pizzurnar eru tilbúnar skal bera þær fram en skellið fyrst smá klettasalati yfir þær. 

Heimild: Feasting at Home

Ljósmynd: Feasting at Home
Ljósmynd: Feasting at Home
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert