Rigningarpasta sem gleður sálina

Ljósmynd: The Kitchn

Þegar veðrið leikur landann grátt er bara eitt í stöðunni og það er að borða sig glaðan. Því er fátt betra en girnilegt og gott ostapasta sem engan ætti að svíkja. Uppskriftin er einföld en oft er það einmitt best.

Í pastanu er notast við maísbaunir en við mælum hiklaust með því að þið skiptið þeim út fyrir uppáhaldið ykkar, hvort sem það er grænmeti eða jafnvel bara beikon.

Rigningarpasta sem gleður sálina

dugar fyrir 6

  • 300 gr. pastaskeljar
  • 2 msk. smjör
  • 2 bollar af maís
  • 60 ml rjómi
  • 1 bolli basillauf, rifin
  • 1/2 bolli fetaostur
  • rauðar piparflögur
  • salt

Aðferð

  1. Látið suðu koma upp í potti og sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Geymið 120 ml af soðvatninu eftir að pastað er soðið. Hellið vatninu af og leggið til hliðar.
  2. Bræðið smjörið á stórri pönnu. Setjið maísinn á og steikið. Hrærið reglulega. Bætið við pastasoðinu, pastanu, rjómanum og helmingnum af basillaufunum. Hrærið reglulega í þar til sósan er farin að þykkna sem ætti að gerast eftir þrjár mínútur eða svo. Setjið helminginn af fetaostinum saman við og hrærið þar til hann er bráðnaður.
  3. Takið af hellunni og kryddið með salti. Sáldrið afganginum af fetaostinum ofan á og kryddið með piparflögunum. Berið strax fram. 

Heimild: The Kitchn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert