Úlfur Úlfur Úlfur Nr. 50; fyrsti íslenski Triple IPA-bjórinn

Valgeir Valgeirsson bruggmeistari með bjórinn.
Valgeir Valgeirsson bruggmeistari með bjórinn. Ljósmynd: Borg brugghús

Borg brugghús kynnir nú til leiks fyrsta íslenska Triple IPA-bjórinn, Úlfur Úlfur Úlfur Nr. 50.  Hann er, líkt og minni bræður hans Úlfur Nr. 3 (IPA) og Úlfur Úlfur Nr. 17 (Double IPA), fyrsti bjór sinnar tegundar frá íslensku brugghúsi. Bjórinn er þegar kominn í Heiðrúnu og Skútuvog og er væntanlegur í nokkrar aðrar Vínbúðir í dag.

„Við erum ótrúlega spennt yfir því að bjórinn sé loks að lenda á markaði. Vinnslan á honum var mjög krefjandi og óhætt að segja að hann hafi ögrað búnaði og starfsfólki okkar á flesta kanta,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari Borgar brugghúss aðspurður. 

„Úlfur Úlfur Úlfur er í stílnum Triple IPA sem merkir í stuttu máli að hann er IPA-bjór sem inniheldur enn þá meira alkóhól en bæði IPA- og Double IPA-bjórar. Þessi er 11% alkóhól að rúmmáli og er ríkur af mjúkum ávaxtatónum sem koma bæði frá gerinu sem við sérstaklega ræktuðum upp fyrir bruggunina og gríðarlegu magni af humlum sem fóru í bjórinn.“

Gríðarlegar breytingar hafa orðið á bjórmenningu Íslendinga undanfarin 5-10 ár. Fjöldi bjórstíla sem boðið er upp á hérlendis hefur margfaldast en fyrstu þrjátíu árin eftir bjórbann einkenndust nær eingöngu af neyslu ljósra lagerbjóra sem enn þá eru vinsælastir en margt hefur bæst við. Ljóst öl hefur jafnt og þétt verið að sækja í sig veðrið undanfarin ár og er sá bjórstíll hvað vinsælastur meðal neytenda svokallaðra handverksbjóra, þá yfirleitt undir nöfnunum Pale Ale og India Pale Ale (IPA). 

<div></div>

Rúmlega sex ár eru frá því að Borg brugghús kynnti til leiks fyrsta íslenska IPA-bjórinn undir nafninu Úlfur Nr. 3 en hann kom á markað í febrúar árið 2011. Flest íslensk brugghús hafa nú fylgt í kjölfarið og bjóða upp á sinn eigin IPA-bjór. Úlfur Nr. 3 var, eins og nafnið gefur til kynna, þriðji bjórinn sem brugghúsið sendi frá sér og hefur verið vinsælasti bjór Borgar nær allar götur síðan. Í dag er hann mest seldi bjór brugghússins ásamt Úlfrúnu Nr. 34, sem einnig er IPA-bjór en þó léttari og lægri í alkóhóli.

<span>Þann 1. apríl árið 2013 sendi Borg svo frá sér fyrsta íslenska Double IPA-bjórinn og bar hann nafnið Úlfur Úlfur Nr. 17.  Eins og heiti bjórstílsins og bjórsins gefa til kynna er þemað tvöfeldni, en nafn bjórsins vísar í dæmisöguna frægu um „drenginn sem kallaði Úlfur Úlfur“, auk þess sem útgáfudagurinn er þekktur fyrir sérlega óheiðarlega hegðun landsmanna. Þá er bjórstíllinn Double IPA einfaldlega tvöfalt karaktermeiri bjórstíll ein hefðbundinn IPA – meira humlabragð, meiri beiskja, meiri ákefð.</span><div></div><h3><span>Upphaf IPA-bjóra <span>–</span> Þoldi ekki siglingu frá Bretlandi til Indlands</span></h3><div><span>India pale ale-bjórar urðu til á 18. öld þegar nýlendustefna Breta var allsráðandi. Fjöldi breskra verslunarmanna og hermanna hafði komið sér fyrir á Indlandi og skip Austur-Indíafélagsins sigldu reglulega á milli Evrópu og Asíu. Skipin fóru yfirleitt drekkhlaðin til Evrópu en komu jafnan hálf eða tóm til baka. Breskir viðskiptajöfrar sáu augljós tækifæri í því að reyna að koma vörum til samlanda sinna í nýlendunum. Bjór var ofarlega á óskalista þeirra en siglingin til Indlands var allt of löng fyrir hefðbundinn bjór. George Hodgeson, eigand Bow-brugghússins, leysti þetta vandamál og notaði meira af humlum og alkóhóli í bjórinn til þess að auka geymsluþol hans. Þannig komst hann óskemmdur á áfangastað. Fyrir vikið er beiskja India pale ale öflugri en bjóráhugamenn eiga almennt að venjast en þessi bjórstíll náði engu að síður útbreiðslu og varð mjög vinsæll.</span></div><div><span> </span></div><h3><span>Indian pale ale nýtur vaxandi vinsælda um allan heim</span></h3><div><span>Á 8. áratug 20. aldar skutu minni brugghús víða upp kollinum á vesturströnd Bandaríkjanna en þar eru einnig stærstu humlaræktunarsvæði landsins. Brugghúsin urðu fljótt leiðandi í mjög humluðum bjórum og kölluðu þá IPA (India pale ale). Nú er svo komið að IPA-stíllinn er sá vinsælasti meðal lítilla brugghúsa í Bandaríkjunum og ört vaxandi um allan heim. Rómverski náttúrufræðingurinn Plinius sem ritaði alfræðirit um náttúruvísindi árið 78 e. Kr. segir frá jurt sem hann kallar Lupus Salictarius, sem útleggst á íslensku eitthvað á borð við „úlfur á meðal runna“ eða „litli úlfur“.  Þessa plöntu þekkjum við nú undir latneska heitinu Humulus Lupulus, eða humall á íslensku. Þaðan fær Úlfur nafn sitt.</span></div>
Ljósmynd: Borg brugghús
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert