Stinningarkaffi innkallað

Kaffi á að hjálpa okkur að komast í gang en kannski ekki með þeim hætti sem kaffið "New of Kopi Jantan Tradisional Natural Herbs Coffee" gerir en bandaríska lyfjaeftirlitið hefur innkallað kaffið eftir að í því fannst efni sem er sambærilegt því sem finna má í stinningarlyfinu Viagra og veldur sömu áhrifum.

Efnið, desmethyl carbodenafil, veldur stinningaráhrifum en kaffið sem um ræðir er markaðssett sérstaklega fyrir karlmenn. Slík kaffi eru sögð sérlega vinsæl í Malasíu og sagði eigandi fyrirtækisins sem flytur kaffið inn þaðan að það væri jafnvinsælt þar eins og „tekíla í Mexíkó“. Kaffið hefur nú verið innkallað enda segir lyfjaeftirlitið að efnið sem um ræðir geti valdið vandræðum ef þess er neytt á sama tíma og nítrata sem eru algeng í lyfjum við sykursýki, háum blóðþrýstingi, háu kólestróli og hjartasjúkdómum. 

Jafnframt var bent á að láðst hefði að nefna mjólk í innihaldslýsingu en slíkt getur eðlilega valdið fólki með mjólkuróþol miklum vandræðum. 

Kynörvandi kaffi virðist njóta töluverðra vinsælda því samkvæmt Forbes voru tvær aðrar kaffitegundir, Cavelo Natural Herbal Coffee og Stiff Bull Herbal Coffee, innkallaðar þar sem þær reyndust einnig innihalda desmethyl carbodenafil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert