Varað við þjófnaði í Costco

Kristinn Magnússon

Fáir hópar standa jafnöfluga neytendavakt og Costco-hópurinn Keypt í Costco Ísl. – myndir og verð og virðist ekkert lát á vinsældum hans. 

Við rákumst á áhugaverða umræðu þar sem kona nokkur kvartaði undan því að hafa keypt pakkningu með sex eftirréttum í en þegar á reyndi voru einungis fjögur stykki í kassanum. Var hún að vonum óánægð og lét vita.

Við tóku háværar umræður þar sem margir deildu sambærilegri reynslu á meðan aðrir sögðust alltaf hafa fengið sín sex stykki. Sumir veltu því fyrir sér hvort um framleiðslugalla væri að ræða, aðrir bentu henni á að tala við verslunina þar sem hún tæki vel í kvartanir sem þessar og tæki þær alvarlega.

Kom þá annar félagi hópsins fram og sagði að þetta væri að öllum líkindum þjófnaður en sjálf hefði hún séð fólk fjarlægja ýmsar vörur úr pakkningum og stinga inn á sig.

Það er því betra að hafa vaðið fyrir neðan sig og tryggja að varan sé eins og vera ber enda allt eins líklegt í ljósi þessara frásagna að einhver óheiðarlegur hafi seilst aðeins of langt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert