Smáréttastemning á Loftinu

Hanna Andrésdóttir

Skemmtistaðurinn Loftið bætti á dögunum verulega við þjónustu sína þegar ákveðið var að bjóða einnig upp á mat. Nú opnar staðurinn daglega kl. 11.30 og er síðan opinn fram eftir kvöldi þar til gleðin tekur völd. Glæsileg happy hour er í boði kl. 16-21 þar sem kennir ýmissa grasa en okkur lék séstök forvitni á að vita hvað er í boði.

Yfirkokkur Loftsins er Örvar Bessason sem er enginn nýgræðingur þegar kemur að mat. Tekin var sú ákvörðun að bjóða upp á smárétti eða Nordic Tapas eins og það kallast sem verður að teljast brjáðsnjallt. Réttirnir eru fremur stórir en á verði sem allir ráða við. Það gefur því augaleið að veitingarnar kallast vel á við skemmtistaðinn enda tilvalið að kíkja í létta máltíð og happy hour eða jafnvel byrja kvöldið á góðum mat áður en lengra er haldið.

Örvar segir að þessi breyting mælist vel fyrir enda hafi verið glórulaust að vera með staðinn lokaðan allan daginn í stað þess að nýta hann. Smáréttirnir henti vel og mikið sé lagt upp úr hráefninu. Markmiðið sé létt og skemmtileg stemning sem sé í takt við það sem er að gerast á Loftinu en verið er að lækka aldurstakmarkið og létta á skilyrðum um klæðaburð eftir að Inga á Nasa tók við sem rekstrarstjóri Loftsins fyrir skemmstu og hefur nú þegar breytt áherslunum töluvert.  

Hanna Andrésdóttir

Reyktur lax á fjölkornabrauði

Einfalt pikklað grænmeti

  • 1 hlutur vatn
  • 1 hlutur edik (borðedik)
  • 1 hlutur sykur

Sett í pott og hitað að suðu 1/3 af vökvanum tekinn frá fyrir rauðlauk.

Gulrætur, fennel og rauðrófur skornar í sneiðar og settar í pottinn og soðið í fimm mínútur og látið kólna í vökvanum. Rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar og vökvanum hellt yfir og látið kólna.

Sinnepssósa

  • 200 ml mayones
  • 50 ml dijon sinnep með kornum
  • 2 msk. hunang
  • Salt og pipar eftir smekk

Blandað saman í skál

Soðið egg

Vatn hitað að suðu og eitt egg brotið varlega í pottinn, varlega og með skeið er eggjahvítuni ýtt að rauðunni og um 2 mín. síðar er eggið tilbúið.

Samsetning

Fjölkornabrauð frá Sandholti sett á fallegan disk og sinnepssósunni smurt á brauðið, því næst er reyktur lax lagður á og látinn þekja alla sneiðina, örlítið klettasalat skolað og þurrkað, því næst er það látið á miðja sneiðina og sinnepssósutoppur með, eggið lagt varlega ofan á klettasalatið og rauðlauk ásamt pikkluðu grænmeti dreift fallega á diskinn, einnig er gott að skreyta með fersku dilli.

Hanna Andrésdóttir
Hanna Andrésdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert